Fara í efni

Ég þori ekki að gangast við tilfinningunum mínum!

Að gangast við tilfinningum sínum. Ég hef alltaf verið mikil tilfinningavera. Einnig næmur á fólk og aðstæður.
Ég þori ekki að gangast við tilfinningunum mínum!

Að gangast við tilfinningum sínum. Ég hef alltaf verið mikil tilfinningavera. Einnig næmur á fólk og aðstæður.

Varð snemma næmur að lesa annað fólk. Stundum illu heilli. Stöðugt að nema aðstæður var mín leið að vera viðbúinn því sem koma skyldi!  Ég heyrði snemma að það væri tabú að flíka tilfinningum sínum. Ekki síst ef þú fæddist með typpi. "Geta pabbar ekki grátið?"..söng SSSól um árið.

Frábær spurning og ég skildi textann líkt ég hefði samið hann sjálfur. Á mínum uppeldisárum voru það konur sem grétu ekki karlmenn. Allra síst pabbar. Karlmaður sem grét opinberlega var þá kallaður "kelling" eða jafnvel veikgeðja. Hver vildi fá þann stimpil á sig?

Ég ól með mér sjúklegan kvíða og ótta sem barn, sem þróaðist í meðvirkni og höfnunarótta. Ég vandist að hafa alltaf einhverju að kvíða. Að vera mikil tilfinningavera og næmur, þýddi að kvíðinn og óttinn margfaldaðist af styrkleika í minni sál. Ég varð ofurviðkvæmur og hræddur við álit annarra. Tíðarandinn á mínum uppeldisárum hjálpaði ekki til ef maður var að burðast með "sársaukapoka" ofan í almenn viðhorf. Ég átti einfaldlega að standa mig og ekkert væl. Allt annað væri aukaatriði.

Þetta gilti um alla á þeim tíma. Ég reyndi alltaf að standa mig. Eina leiðin til þess var að hnýta hnút á "sársaukapokann" og láta sem ekkert sé. Bíta á jaxlinn og vera hörkutól. Þá fór ég að leika einhvern annan en mig. Þannig gekk ég út í lífsins ólgusjó. Það var engin leið að gangast við tilfinningum sínum.

"Sá er talinn heimskur sem opnar sína sál. Ef hann kann ekki að ljúga hvað verður um hann þá. Undir hælinn verður troðinn líkt og laufblöðin smá. Við hræðumst hjarta hans og augun blá".

Textabrot úr laginu "Fjöllin hafa vakað" með Egó af plötunni "Ímynd". Ég var unglingur þegar lagið kom út og tengdi strax við þetta textabrot. Ég hef ekki hugmynd hvað Bubbi Morthens var með í huga þegar hann samdi textann. Á þessum tíma var ég inn í mér ofsakvíðinn, hræddur, reiður og sár. Leið ömurlega. Vissi ekki hvers vegna né hvernig ég gæti breytt því. Einu skiptin sem mér leið vel voru undir áhrifum. Mér fannst Bubbi vera að segja að það væri í lagi að vera eins og ég var en gæti ekki sýnt það nema vera "undir hælinn troðin". Enda gerði ég það ekki. Ég gat ekki gengist við tilfinningum mínum þá.

Að gangast við tilfinningum sínum. Það er ekki langt síðan ég skildi hvað þetta þýðir. Það var núna í bataferlinu mínu. Ef ég yrði t.d. skotinn í stelpu en þyrði ekki að láta hana vita og gengi með þetta hringspólandi í hausnum, er ég þá að gangast við tilfinningum mínum? Nei, ég er að bæla þær niðri. Ástæðan er einföld en erfið í framkvæmd. Ótti. Við hvað? Já í mínu tilfelli hefur það alla tíð verið við höfnun. Að t.d. þessi stelpa væri ekki skotin í mér. Þá myndi ég upplifa höfnun. Ekki eðlilega höfnun heldur myndi ég túlka að ég væri algjörlega misheppnað eintak af karlmanni. Já það eru ekki eðlileg viðbrögð. Af ótta við að upplifa þetta þá þegi ég.

Þetta einfalda dæmi gæti ég heimfært á allt í lífinu. Þessi ótti minn á rætur til barnæskunnar og mótaði minn persónuleika. Í stað þess að vera ég sjálfur þá nauðugur viljugur lærði ég að leika hlutverk eftir aðstæðum. Eins og nefndi fyrr í pistlinum. Ekki skrýtið að ég þorði ekki að gangast við tilfinningum mínum.

Að gangast við tilfinningum sínum. Mér tókst að verða edrú árið 1993 og "verða að manni". Ég fór í úrvinnslu með mig sem manneskju eða það hélt ég. En ég tók ekkert á meðvirni eða höfnunarótta. Það var ekki á dagskrá. Minn persónuleiki varð bara sterkari við að komast í gegnum hverja hindrunina á fætur annarri í lífinu. Þar með jókst sjálfstraustið- og ímyndin. Og mér leið betur með sjálfan mig. Varð öruggari í kringum annað fólk sem sló verulega á einkenni þess að óttast höfnun.

Lífshlaupið mitt í ein 20 ár til 2013 voru meira og minna velgengni og meðbyr. Ég hef aldrei skilið hvers vegna ég fann aldrei fyrir verulegum einkennum af því sem ég upplifði sem barn. Var eðlilega búinn að afskrifa það. Gekkst ég við tilfinningum mínum þá? Langar að svara já en er ekki viss! Ég held ekki.

Að gangast við tilfinningum sinum. Ég veiktist illa 2013 sem endaði nærri því með ósköpum í lok sumars 2015. Missti allt úr höndunum á mér. Í rúst á líkama og sál, ofsakvíðinn, ofsahræddur og sársauki fortíðinnar stöðugt að banka upp á í formi ofsakvíða- og panikkasta. Þá hóf ég mitt bataferli sem ég vissi að myndi taka marga mánuði. Ég áttaði mig fjótt að á meðgöngutíma veikindanna varð ég eins meðvirkur og óttasleginn við höfnun eins og ég var sem barn. Tilfinningalífið breyttist í það. Tiplaði á tánum í kringum sambýliskonu mína og mátti ekki fyrir mig litla líf vita að hún væri ósátt við mig. Þá gerði ég allt til að leiðrétta það. Ég tók ekkert eftir þessu. Þetta var ofan á önnur einkenni áfallastreituröskunnar sem voru að grassera. Þetta var ekki að gangast við tilfinningum sínum!

Að gangast við tilfinningum sínum. Ég vissi að ég kæmist ekki hjá því að takast á við tilfinningar sem voru rótin að meðvirkninni og höfnunaróttanum. Ég var logandi hræddur við það. Ég byrjaði að mæta á fundi 12 spora samtaka fyrir meðvirka án þess að gera neitt í mínum málum. Mér heyrðist allir vera að vinna í sporunum og fundirnir væru ekki nóg. Ég frestaði því sífellt að ganga í þetta. Ég hafði kynnst öðrum 12 spora samtökum fyrir aðtandendur eins og mig. Þar vissi ég af manni sem hafði náð árangri. Árangri sem mig blóðlangaði í. Við vorum staddir á sama stað og eitthvað ýtti við mér að ganga til hans og ekki einu sinni spyrja heldur tilkynna honum að hann ætti að hjálpa mér! Hann sagði já og ég átti að hringja daginn eftir. Eftir á hugsaði ég hvað ég hefði eiginlega gert! Ég hringdi. Lét fyrstu eina til tvær vikurnar líða án þess að ég hringdi oft. Óttinn í mér. Skíthræddur að gangast við tilfinningum mínum. En ég lagði af stað upp í "ferðalagið". Í fyrsta sinn á ævinni var ég að byrja að takast á við meðvirknina í mér og höfnunaróttann Að gangast við tilfinningum mínum.

Að gangast við tilfinningum sínum.  Fyrsta "áfallið" var að uppgötva að ég hafi verið meðvirkur og litaður af höfnunarótta allt mitt líf. Ekki einungis í barnæsku og neysluárunum heldur líka öll árin sem mér gekk vel. Þau ár voru bara öðruvísi. Tók ekkert eftir þessu en undir niðri var ég alltaf að gæta þess að meðvirknin og óttinn kæmu ekki upp á yfirborðið. Það þýðir eitt. Ég var aldrei frjáls. Hélt það því mér leið mun betur en sem barn og unglingur. Gleymdi því kannski að þá leið mér hræðilega. Það var allt betra en það.

Að gangast við tilfinningum sínum. Ég er loksins að læra það og byrjaður á því. Hvort sem tilfinningarnar eru jákvæða eða neikvæðar. Ég er "master" í að byrgja inni tilfinningar sem kryddast af reiði, gremju, öfund og jafnvel hatri. Ég vil ekki lifa þannig. Ég þarf þessi ekki. Ótrúlegt en satt. Það jákvæða við að takast á við sársaukafull veikindi er að átta mig loksins á þessu. Ég virðist þurfa að fara "Krýsuvíkurleiðina" að lausninni.

Að lokum. Ég á mér draum. Hann er að upplifa mig sem frjálsa manneskju. Vera sjálfum mér nógur. Ef ég verð það þá njóta aðrir góðs af því.

Ég er að gangast við tilfinningum mínum.

 

Höfundur greinar er Einar Áskelsson