Ársrit VIRK settist niður með VelVIRK teyminu: Ingibjörgu Loftsdóttur, Líneyju Árnadóttur og Maríu Ammendrup sem halda utan um verkefnið
Er brjálað að gera hjá ykkur?
„Við verðum eiginlega að viðurkenna að það var brjálað að gera við að koma velvirk.is í loftið,“ segja þær brosandi. „En við reyndum að vera skynsamar, tileinka okkur það sem við lærðum af vinnunni við verkefnið, höfum tekið innihald vefsíðunnar til okkar og breytt hegðun. Allt efnið og bjargráðin um það hvernig við getum haldið jafnvægi í lífinu hafa nýst okkur vel í vinnunni við forvarnarverkefnið almennt.“
Afhverju VelVIRK?
„Undanfarin misseri hefur það verið rætt innan stjórnar VIRK að nauðsynlegt væri að VIRK færi í aðgerðir til þess að sporna við því að fólk falli af vinnumarkaði í ljósi þess að æ fleiri virðast heltast úr lestinni eða hverfa af vinnumarkaði, vegna tímabundinna eða langvarandi veikinda.
Í apríl 2018 samþykkti stjórnin að setja forvarnarverkefni af stað til að byrja með í þrjú ár. Í framhaldinu var stýrihópur settur á laggirnar sem styður við verkefnið, en hann er skipaður aðilum úr stjórn VIRK og fulltrúum frá Velferðarráðuneytinu, Landlæknisembættinu og Vinnueftirlitinu. Einnig var ákveðið að við þrjár myndum fara í verkefnið en við njótum dyggrar aðstoðar Vigdísar framkvæmdastjóra og Eysteins almannatengils VIRK,“ segir Ingibjörg sem leiðir verkefnið.
Verkefnið er stórt og mikið er undir. Ákveðin var þríþætt nálgun þar sem horft er til einstaklingsins – til þess sem hvert okkar þarf að huga að, til vinnustaðanna – stuðnings við fyrirtæki, stofnanir og stjórnendur og til samfélagsins í heild – umræðunnar og andans í samfélaginu.
„Skemmtilegasti hlutinn af verkefninu er „Er brjálað að gera“ vitundarvakningin,“ segir Ingibjörg. „Við kölluðum góðan hóp fólks til hugarflugsfundar sumarið 2018 sem fór á flug og kom með hugmyndir um það hvernig sýna mætti ákveðin atriði eins og t.d. samskipti á vinnustað, áreitið í samfélaginu og mikilvægi jafnvægis á milli vinnu og einkalífs á gamansaman hátt,“ segir Ingibjörg.
„Það komu mjög flottar hugmyndir út úr þessari vinnu sem hægt var að leggja á borðið þegar samstarfið hófst við auglýsingastofuna Hvíta húsið um verkefnið,“ segir Líney. „Auglýsingarnar í vitundarvakningunni eru byggðar á þessum hugmyndum, þannig að þetta kemur beint úr grasrótinni.“
Og herferðin hófst í byrjun desember á því að plata fólk?
„Já, Hvíta húsið kom með snjalla hugmynd til að ýta aðeins við fólki og sambandi þess við snjallsímann, þetta samband sem við erum svo föst í og virkaði hún ótrúlega vel,“ segir Líney um Beacons auglýsingar sem auglýstu ímynduð gleraugu, sem hjálpuðu fólki að skoða símann t.d. á leiksýningu og í kirkjum, sem jólagjöfina 2018.
„Það voru margir sem vildu forvitnast um gleraugun, smelltu á auglýsingarnar og vildu kaupa en mörgum fannst líka ekki í lagi að svona vara væri til, sem var mjög jákvætt,“ segir María. Allir þeir sem smelltu á Beacons auglýsingarnar voru leiddir inn á velvirk.is - sem fór í loftið 1. desember - þar sem við blasti afsökunarbeiðni vegna gabbsins en einnig ráð m.a. til að tileinka sér hófsamari snjallsímanotkun.
Í kjölfarið hófst „Er brjálað að gera“ vitundarvakningin sem samanstendur af stuttum stiklum sem vakið hafa athygli og fallið hafa í góðan jarðveg. Mjög mikil vinna var lögð í stiklurnar svo þær myndu höfða til sem flestra, reynt var að fjalla um alvarleg mál í gegnum góðlátlegan spéspegil og vekja þannig fólk til umhugsunar. „Það var mikilvægt að gera þetta án þess að vera að predika yfir fólki og okkur finnst það hafa tekist,“ segir María.
Stiklurnar, sem finna má á velvirk.is og á Youtuberás VIRK, hafa það að markmiði að vekja fólk til vitundar um stöðuna, bæði í einkalífi og í vinnu, og vísa þeim í framhaldinu inn á velvirk.is sem er full af upplýsingum og bjargráðum. „Velvirk.is, sem við unnum í samvinnu við Hvíta húsið og Stefnu, er tvískipt. Annars vegar góð ráð og upplýsingar um það hvernig við höldum jafnvægi í lífinu almennt og hinsvegar horfum við til stuðnings við stjórnendur og leiðtoga á vinnustöðum og fjöllum um líðan á vinnustöðum,“ segir Ingibjörg. Vefsíðan sé komin til að vera, vaxi stöðugt að efni og innihaldi og umferðin inn á hana er stöðug.
„Tónninn í auglýsingunum og á velvirk.is er á jákvæðu nótunum, verið er að draga fram hvernig við getum gert betur fyrir okkur sjálf. Þarna má finna einfaldar og góðar lausnir t.d. í sambandi við hreyfingu. Bara það að bæta einhverju litlu við daglegt líf s.s. stuttum göngutúr, hefur strax jákvæð áhrif. Þetta þarf ekki alltaf að vera flókið og við þurfum ekki öll að vera ofurkonur/menn eins og samfélagið virðist heimta. Það þarf ekki alltaf að gera svo mikið, bæta heldur einhverju, sama hve litlu, jákvæðu inn í líf þitt og þér líður strax betur,“ segir Líney.
„Við höfum t.d. bent fólki á að rannsóknir sýna að það að hreyfa sig jafnt og þétt, setja hreyfingu inn í vinnudaginn sinn, hefur meiri áhrif heldur en þegar fólk er í kyrrsetu alla daga en fer þrisvar í viku í ræktina,“ segir Ingibjörg. „Við viljum algerlega forðast . . . LESA MEIRA