Kulnun getur komið fram mjög ört t.d. við áfall, en getur líka komið smátt og smátt án þess að viðkomandi átti sig á því hvað er að gerast. Að lokum er eins og öll öryggi hafi farið af húsinu og viðkomandi hefur enga orku til eins eða neins.
Kulnun eða Þrot (starfsþrot) er kallað Burnout á ensku eða Utmattning á sænsku. Nýjustu greiningartæki nota hugtakið Exhaustion Disorder. Svipuð einkenni geta komið fram við Síþreytu (CFS) eða í Vefjagigt (fibromyalgia), en það má helst ekki rugla þessu of mikið saman, þótt sálfræðilega og félagsfræðilega meðferðin við að ná bata geti verið svipuð.
Það er einkennandi við kulnun að viðkomandi smám saman missir völd og finnur sig ráða illa við aðstæður. Slíkt getur auðveldlega komið upp á vinnustað þar sem kröfur eru ekki í samræmi við færni eða t.d. í hjónabandi ef kröfur og væntingar eru umfram getu eða vilja.
Léleg samskipti er oft lýsandi fyrir aðstæður sem leiða til kulnunar. Umræður óþroskaðar eða fjalla lítið sem ekki neitt um að auka færni og getu til þess að vinna verkið vel. Illa skilgreindar verklýsingar og samskipti á milli aðila eða lélegar vinnuleiðbeiningar til að fara eftir. Ekki síður ef ekki er vitað til hvers er verið að vinna verkið eða lítil sem engin vitneskja um væntingar viðskiptavinar svo dæmi séu tekin.
Oft er óljós stefna í fyrirtækjum eða stofnunum, félagslegur aðbúnaður er lélegur og mikið álag. Umbun fyrir vinnu er í lágmarki og getur verið tilviljanakenndur. Mannamunur eftir einhverju öðru en getu t.d. ættingja og vinaráðningar. Skuldbindingar í engu samræmi við laun eða möguleika til þess að framkvæma vinnuna með eðlilegum hætti.
Skipulagsbreytingar geta haft veruleg áhrif á starfsánægju og ef þær eru illa undirbúnar getur það valdið kulnun hjá fólki. Lélegar upplýsingar og tilviljanakenndar ákvarðanatökur veldur fólki miklum kvíða og streituálagi sem smám saman leiðir til kulnunar hjá fólkinu. Ef vinnuálag er mikið við slíkar aðstæður eða áhrif á ákvarðantöku að þá eru meiri líkur á því að kulnun komi fram hjá einstaklingnum.
Það eru líka persónulegir þættir sem valda því að kulnun getur komið fram hjá einstaklingi eins og lítil hreyfing, tóbaksnotkun og félagsleg samskipti fáskipt eða lítil.
Helstu einkenni á kulnun er að einstaklingurinn fer að finna fyrir pirringi, óþolinmæði, minni sveigjanleiki, einbeitingarskorti og hvíldarskorti. Það eru litlar frístundir, meira um líkamlega kvilla og andlega vanlíðan. Oft verður minni um svefn og lélegri, hausverkir, þreyta eða magatruflanir verða tíðari. Aðlögunarhæfnin er svo mikil í líkamanum að við tökum illa eftir því að þessi einkenni eru að skríða að og verða meira og meira áberandi í líðaninni. Stundum lagast þetta inn á milli en kemur svo mögulega í skorpum.
VInnustaðurinn getur verið markaður af lélegum samskiptum, vinnuandinn er ekki góður, mikil yfirvinna, óljósar ákvarðanir, léleg gæði á verkferlum og vinnu, skortur á hugsjónum yfir starfinu, litlar vonir á vinnustaðnum, mikil veikindi og almennt léleg starfsmannastefna.
Mikil starfsmannavelta geturhaft mikil áhrif á líðan einstaklinga og verið í raun afleiðing af því að starfsfólk er að finna fyrir einkennum kulnunar og fer annað.
Helstu þættir til að efla einstaklinginn sem verður fyrir kulnun er að efla sjálfsmat og sjálfsímynd viðkomandi. Aðstoða viðkomandi við svefntruflanir og ná tökum á einbeitingarskorti. Það er áríðandi að hafa öfluga streitustjórn og að ná tökum á tilfinningalegu álagi.
Það skiptir mjög miklu máli að aðstoða viðkomandi að ná betri tökum á samskiptum á vinnustaðnum, við maka og aðra fjölskyldumeðlimi og aðra sem viðkomandi er í félagslegum samskiptum við.
Í Svíþjóð hefur verið náð góðum árangri með þeim sem hafa fundið fyrir kulnun sem byggir á því að ná fram betri samskiptum á vinnustað með því að fá eins góðar upplýsingar um aðstæður félagslegar og starfslegar og meta hvað er hægt að gera. Hafa síðan upplýsingafund með yfirmanni og skjólstæðingi í sitthvoru lagi og síðan sáttafund þar sem sett er fram samkomulag um aðgerðir í framhaldinu.
1. Að efla kraft og styrk.
2. Að fá fram stefnu í sín mál sem viðkomandi er sáttur við og sér tilgang í.
3. Að forðast alla óljósa verkaskiptingu.
4. Að viðkomandi fái þann stuðning sem skiptir máli á vinnustaðnum bæði félagslega og með öðrum því sem er mögulega tiltækt.
5. Að stuðla að því að viðkomandi hafi þau áhrif sem skiptir máli í þeim verkefnum sem viðkomandi á að leysa
6. Að stuðla að því að viðkomandi geti tekið heilbrigðar og eðlilegar ákvarðanir um sitt starf.
7. Að samskipti á vinnustað séu eðlileg og miðist við að ná árangri fyrir alla.
8. Að samskipti miðist að því að ná fram sáttum um málefni sem skipta máli á vinnustaðnum, þar sem tekið sé tillit til allra sem skipta máli.
Kulnun er alvarlegt heilsufarslegt vandamál sem þarf að taka skipulega á. Ef viðkomandi fær ekki faglega aðstoð og stuðning við að ná sér út úr aðstæðum getur þetta orðið mjög langvarandi. Oft þess verra og langvinnara ef viðkomandi er meira lærður og hefur verið í áreynandi starfi.
Greinin er fengin af heimasíðunni kulnun.is og er birt með góðfúslegu leyfi höfundar
kulnun.is er sérhæfð meðferðarsíða þar sem eru upplýsingar um fyrirbærið. Hluti síðunnar er lokaður nema þeim sem skrá sig inn til að taka þátt í meðferð þar sem unnið er á einstaka þáttum með verkefnavinnu og umræðuþráðum þar sem hægt er að fjalla betur um þá þætti sem verið er að vinna með.
Heimildir:
Ingibjörg Jónsdóttir, Ársfundi VIRK, maí, 2012
Grein af vef doktor.is