Hugtakið „líkamsmynd“ vísar til þess hvernig við upplifum líkama okkar og hvaða viðhorf við höfum til hans. Líkamsmyndin mótast bæði af persónulegum þáttum, svo sem skapgerð og líkamlegri uppbyggingu, og umhverfisþáttum, svo sem ríkjandi fegurðarstöðlum og samskiptum okkar við aðra. Líkamsmyndin hefur mismikil áhrif á sjálfsmynd og líðan fólks.
Hugtakið „líkamsmynd“ vísar til þess hvernig við upplifum líkama okkar og hvaða viðhorf við höfum til hans.
Líkamsmyndin mótast bæði af persónulegum þáttum, svo sem skapgerð og líkamlegri uppbyggingu, og umhverfisþáttum, svo sem ríkjandi fegurðarstöðlum og samskiptum okkar við aðra.
Líkamsmyndin hefur mismikil áhrif á sjálfsmynd og líðan fólks. Konur hafa almennt verri líkamsmynd en karlmenn, þótt auðvitað sé einstaklingsmunur á því. Þetta er talið stafa af þeim mikla þrýstingi sem ríkir í garð kvenna um að vera grannar og líta vel út. Rannsóknir sýna að flestar ungar konur eru óánægðar með að minnsta kosti einhvern hluta líkama síns og margar hafa reynt megrun til að grennast. Óánægja með líkamsvöxt er reyndar svo algeng meðal kvenna að oft er talað um hún sé eðlilegur hluti af lífi þeirra.
Allir eiga rétt á því að lifa hamingjusömu lífi í eigin líkama. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að viðurkenna þá staðreynd að við erum öll mismunandi og það er jafn fáránlegt að gera þá kröfu að allir séu grannir eða vöðvastæltir eins og að krefjast þess að allir séu hávaxnir eða með freknur. Fólk er mismunandi. En því miður ríkja þau viðhorf í samfélaginu að aðeins þeir sem hafa rétta líkamsvöxtinn geta talist fallegir eða heilbrigðir. Þetta eru auðvitað ekkert annað en fordómar og mikilvægt að við þekkjum þá sem slíka.
Hér kemur lítið dæmi.
Við erum sem betur fer hætt að líta bara á eina tegund tónlistar sem „sanna tónlist“ og fordæma það sem fellur ekki að smekk okkar sem drasl. Nú viðurkennum við að fólk hefur mismunandi smekk og það er allt í lagi þótt við fílum ekki öll sömu hlutina. Það sama á við um aðrar listgreinar.
Við erum hætt að rífast um hvað sé „raunveruleg“ list og viðurkennum að list getur verið allskonar. En hvað varðar mannlega fegurð þá erum við enn mjög óþroskuð og þröngsýn. Við lítum svo á að það sé bara til ein tegund af flottu útliti og svo rembast allir við að passa í það form.
Ef þú ert strákur þá áttu að vera grannur og vöðvastæltur. Ef þú ert stelpa þá áttu bara að vera mjó. Restin skiptir ekki máli. Þetta er mjög þröngt sjónarhorn og lítur framhjá öllu því sem gerir fólk fallegt.
Fegurð er fjölbreytt og getur verið allskonar, alveg eins og listaverk. Það er ekki til nein ein uppskrift af því að vera flottur og aðlaðandi en flestir hafa eitthvað við sig sem gerir þá sérstaka og áhugaverða. Þegar við opnum augun komumst við að því að fegurð er margbreytilegri en þröng og afmörkuð útlitsviðmið nútímans segja til um.
Nokkrar staðreyndir um líkamsmynd:
- Bandarísk rannsókn frá árinu 2000 sýndi að 20% fimm ára stúlkna voru óánægðar með líkamsvöxt sinn og höfðu áhyggjur af því að vera of feitar.
- Langtímarannsókn sýndi að áhyggjur af holdafari hjá fimm til sjö ára stelpum spáði fyrir um hvort þær færu í megrun við níu ára aldur.
- Líkamsmynd drengja batnar við þær líkamlegu breytingar sem verða á unglingsárum en líkamsmynd stelpna versnar til muna.
- Strákar eru líklegri en stúlkur til að fá óskir sínar um ákjósanlegan líkamsvöxt uppfylltar yfir kynþroskaskeiðið. Yfir unglingsárin bæta stelpur á sig um átta til tólf kílóum af fitu, sem setjast á maga, rass, mjaðmir og læri. Í menningu þar sem fita er litin hornauga eru fæstar stelpur ánægðar með þessar breytingar. Aftur á móti leiða líkamlegar breytingar hjá strákum til bæði grennri, sterklegri og stæltari vaxtar en áður.
- Þessi ólíka þróun á líkamsmynd stráka og stelpna endurspeglast í stóraukinni tíðni megrunar, þunglyndis og átraskana meðal stelpna á unglingsárum.
- Það hversu algeng slæm líkamsmynd er meðal unglingsstúlkna er talið eiga þátt í þeim kynjamun sem fram kemur í tíðni þunglyndis á unglingsárum, en helmingi fleiri konur en karlar þjást af þunglyndi.
- Þær stelpur sem lesa tískublöð og horfa á sjónvarpsefni sem inniheldur áherslu á líkamsvöxt og útlit hafa verri líkamsmynd en aðrar.
Þetta getur þú gert til þess að öðlast betri líkamsmynd:
- Ekki lesa tískublöð, líkamsræktarblöð, heilsudálka í dagblöðum eða horfa á útlitsdýrkandi sjónvarpsefni. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að þetta hefur neikvæð áhrif á líkamsmynd unglinga og fær þá til að líða illa yfir útliti sínu.
- Ekki bera þig saman við aðra. Það er tilgangslaust og lætur þér bara líða illa. Það er enginn í heiminum eins og þú og þú getur aldrei orðið eins og einhver annar – sem betur fer.
- Hugsaðu vel um líkama þinn. Ef þú hugsar um líkama þinn af umhyggju og virðingu þá fer þér að þykja vænt um hann. Gefðu líkama þínum þá næringu sem hann þarfnast, hreyfðu þig reglulega, hvíldu þig vel og láttu þér líða vel.
- Gerðu það besta úr því sem þú hefur. Í stað þess að eyða tíma í að reyna að breyta þér, dragðu þá fram það besta í þínu útliti og leggðu áherslu á það.
- Mundu að fegurð er margbreytileg. Það er ekki til nein ein uppskrift að flottu útliti þótt margir reyni að telja okkur trú um það. Vertu þú sjálf(ur).
- Ekki láta útlitið vera miðpunktinn í lífi þínu. Mundu að það eru fleiri eiginleikar sem skipta máli. Gerðu lista yfir þá kosti og hæfileika sem þú býrð yfir sem koma útliti ekkert við.
- Taktu eftir öðru en útliti í fari annarra. Vendu þig á að hlusta á það sem fólk segir án þess að pæla í því hvernig það lítur út, taktu eftir því hvernig fólk tjáir sig, hvernig svipbrigðin eru, hvaða venjur fólkið í kringum þig hefur tamið sér o.s.frv. Áherslan á útlit mun ekki aðeins minnka í lífi þínu heldur mun sýn þín á fólkið í kringum þig víkka til muna.
- Taktu fegurðarviðmiðum nútímans með fyrirvara. Hugmyndir okkar um flott útlit og „réttan“ vöxt eru ekki okkar hugmyndir heldur eitthvað sem tískufrömuðir í París og kvikmyndaframleiðendur í Hollywood hafa matað okkur á. Þú getur ákveðið hvort þú ætlar að fylgja hjörðinni eða fara þína eigin leið.
- Breyttu heiminum. Þú getur haft áhrif á fólkið í kringum þig alveg eins og aðrir hafa áhrif á þig. Ef þú neitar að taka þátt í útlitsdýrkun samtímans þá mun það hafa áhrif á þá sem umgangast þig og hvetja fleiri til að gera slíkt hið sama.