Fara í efni

SOFÐU BETUR - TAKTU PRÓFIÐ

Svefn hefur áhrif á það hvernig okkur líður, samskipti við annað fólk, starfshæfni og lífsgæði almennt. Án svefns og hvíldar lifum við ekki af hvað sem öllum sögum líður um fólk sem þarf ekki nema nokkurra klukkustunda hvíld á sólarhring.
SOFÐU BETUR - TAKTU PRÓFIÐ

Svefn hefur áhrif á það hvernig okkur líður, samskipti við annað fólk, starfshæfni og lífsgæði almennt.

Án svefns og hvíldar lifum við ekki af hvað sem öllum sögum líður um fólk sem þarf ekki nema nokkurra klukkustunda hvíld á sólarhring. Þrátt fyrir að við eyðum um það bil þriðjungi ævi okkar sofandi hugum við ef til vill ekki að mikilvægi svefnsins fyrr en svefnleysi fer að hrjá okkur.

Þegar svo er komið fer öll hugsunin að snúast um það hvernig hægt sé að ná góðum svefni.

Til eru góð ráð til að ráða bót á svefnleysi og hér eru nokkur sem rannsóknir benda til að gefi góðan svefn.

  • Vaknaðu á sama tíma á hverjum degi. Að öllu jöfnu er í lagi að sofa lengur þegar vinnan kallar ekki, en ef svefnleysi hrjáir fólk þarf að koma reglu á svefntímann.
  • Minnkaðu notkun á örvandi efnum eins og nikótíni, koffíni, áfengi og lyfjum (í samráði við lækni).
  • Það að hafa lítið fyrir stafni eða að leggja sig á daginn getur truflað bæði svefn og gæði hans. Slökun eða hugleiðsla í 10-20 mínútur að degi til getur þó bætt líðan.
  • Farðu út undir bert loft á hverjum degi. Það að vera úti á meðan bjart er hjálpar til við að halda líkamsklukkunni í réttum takti.
  • Hreyfðu þig reglulega þar sem það bætir bæði lengd og gæði svefns. Of mikil þjálfun stuttu fyrir svefn getur þó haft neikvæð áhrif.
  • Notaðu rúmið fyrir það sem því er ætlað. Rúmið er að öllu jöfnu til að sofa í, hvílast og stunda kynlíf. Það er ekki staður til að borða, horfa á sjónvarp eða vinna og slík iðja truflar tengingu svefnherbergisins við svefn.
  • Ekki borða eða drekka mikið rétt fyrir svefn. Hvoru tveggja getur haft áhrif á meltinguna þannig að brjóstsviði eða salernisferðir trufli svefninn.
  • Búðu til svefnvænt umhverfi. Hitastig, lýsing og hljóð geta haft áhrif á svefninn og mikilvægt er að þessir þættir séu sem ákjósanlegastir. Mikilvægt er að loftgæði séu góð í svefnherberginu og ekki sé of heitt þar.
  • Leitaðu lausna við áhyggjum eða vandamálum áður en þú leggst til svefns. Það getur hjálpað setja á blað þau viðfangsefni sem bíða, helst í lok vinnudags, en allavega fyrir svefninn. Ekki reyna að leysa málin í huganum eftir að upp í rúm er komið.
  • Fáðu aðstoð við að draga úr streitu. Oft finnur fólk sínar eigin leiðir til að draga úr streitu en einnig getur verið gott að leita til fagfólks sem hefur yfirsýn yfir fjölbreyttari leiðir.
  • Íhuga ætti meðferð hjá sérfræðingi ef svefnvandi er langvarandi. Sérfræðiráðgjöf getur aðstoðað fólk til að greina vandann og leita úrlausna við honum.

Sá tími sem okkur tekst að eyða í svefn er ekki allt, við þurfum einnig að finna hvíld og sálarró. Reynum að staldra við í amstri dagsins og njóta samvista við vini og vandamenn. Ekki einungis svefn heldur líka slökun fær okkur til að líða betur, hún gefur hvíld, frið og endurnæringu.

 

Hvernig sefur þú?
Taktu prófið