Dagur hvíta stafsins, alþjóðlegur baráttu og vitundardagur blinds og sjónskerts fólks er 15. október ár hvert. Á þessum degi vekja blindir og sjónskertir einstaklingar og samtök þeirra athygli á hagsmunamálum sínum og hvar þörf er á úrbótum svo blint og sjónskert fólk getir verið virkir þátttakendur í samfélaginu.
Mjög mikið af hagsmunamálum blinds og sjónskerts fólks endurspeglast í aðgengismálum, svo sem eins og aðgengi að menntun, aðgengi að upplýsingum og aðgengi að samgöngum. Að mörgu leiti hefur tölvutækni nútímans fært með sér stór aukna möguleika á bættu aðgengi að stafrænum upplýsingum fyrir blint og sjónskert fólk með tilheyrandi auknum menntunar og atvinnumöguleikum.
Það er ekki alltaf auðvelt að sjá hverjir eru sjónskertir og hverjir ekki ef fólk er ekki með Hvíta stafinn. Á Íslandi, sem og víðast í nágrannalöndum okkar, miðast sjónskerðingarmörk við 0,3 (6/60) eða 33% af fullri sjón með bestu mögulegu gleraugum. Lögblinda er það svo þegar að sjón er komin undir 0,1 eða 10% sjón.
Á Íslandi eru skráðir um 14 hundruð blindir og sjónskertir einstaklingar og skiptast þeir nokkurn veginn til helminga á milli þess að vera lögblindir eða sjónskertir.
Sjónskerðingar geta haft mjög mismunandi birtingamyndir. Þannig geta alvarlega sjónskertir einstaklingar litið út fyrir að vera fullsjáandi við tilteknar aðstæður en verið svo algerlega blindir við aðrar aðstæður. Þegar að aðstæður verða erfiðar fyrir sjónskertan einstakling og hann er ekki með Hvíta stafinn kann að vera að hegðun hans komi samferðarfólki spánskt fyrir sjónir.
Því miður er það svo að of margir sjónskertir einstaklingar, sem geta komist af án Hvíta stafsins við tilteknar aðstæður, nota ekki Hvíta stafinn við aðstæður þar sem þeir þurfa á honum að halda. Af þeim sökum þá eiga þeir það á hættu að lenda í óþarfa árekstrum og vandræðum þar sem samferðarfólki þeirra er ekki gefinn kostur á að sýna þeim þá tillitsemi sem þeir myndu annars gera ef þeir sæi að viðkomandi er með Hvíta stafinn og því sjónskertur.
Að einhverju leiti má rekja ástæður þess að svo margir sjónskertir einstaklingar eru ekki að nota Hvíta stafinn til fordóma sem blint og sjónskert fólk telur sig verða fyrir í samfélaginu þegar það opinberar sjónskerðingu sína. Stór hluti almennings gerir sér ekki grein fyrir að langstærsti hluti þeirra sem eru blindir og sjónskertir hafa sjón, sjónin er hinsvegar mikið skert. Að vera með Hvítan staf þýðir því ekki að viðkomandi geti ekki séð neitt.
Á alþjóðlegum degi Hvíta stafsins, 15. október 2015, hvetur Blindrafélagið til þess að sjónskertir einstaklingar stígi fram í dagsljósið með Hvíta stafinn. Um leið og það mun auka sýnileika okkar og gefa almenningi betur til kynna hver fjöldi blindra og sjónskertra er og hversu víða þeir eru, þá gefum við samferðarfólki okkar tækifæri á að sýna okkur eðlilega tillitsemi á ferðum okkar um almenn rými. Það mun vinna gegn fordómum sem að blint og sjónskert fólk telur sig verða fyrir auk þess að vinna gegn okkar eigin fordómum í eigin garð.
Í tilefni dagsins mun Blindrafélagið bjóða til kaffisamsætis fyrir félagsmenn sína og velunnara í Hamrahlíð 17, milli kl. 15 og 16. Að því loknu verður farið í Kringluna þar sem sjónskert fólks með Hvítan staf mun gera sig sýnilegt meðal almennings og sinn erindum sínum..
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga sér um úthlutun hvíta stafsins. Miðstöðin er til húsa að Hamrahlíð 17, 105 Reykjavík, á fimmtu hæð og þar eru veittar upplýsingar um hvíta stafinn. Einnig eru upplýsingar um hvíta stafinn og umferli á heimasíðu Miðstöðvarinnar á www.midstod.is (Opnast í nýjum vafraglugga) og í síma 545 5800.
Nánari upplýsingar veitir:
Halldór Sævar Guðbergsson gsm 663 9800