Ég lauk evrópsku sérfræðiprófi í augnlækningum árið 2008 eftir sérnám við háskólasjúkrahúsið í Uppsala, Svíþjóð þar sem ég starfaði síðan sem sérfræðingur í augnlækningum með áherslu á augasteinsaðgerðir og hornhimnusjúkdóma þar til 2012. Þá fékk ég námsstöðu í hornhimnulækningum við St:Eriks augnsjúkrahúsið í Stokkhólmi þar sem ég starfaði til ágúst 2013 en þá fluttum við fjölskyldan heim aftur.
Augnþurrkur er afar algengt vandamál sem veldur allt frá vægum óþægindum til verulegra vandamála. Erlendar rannsóknir hafa áætlað að 5-30% þeirra sem eru eldri en 50 ára hafi augnþurrk.
Orsakir augnþurrks eru fjölþættar og afleiðingar hans sjást í tárafilmunni og á yfirborði augans. Orsakir augnþurrks geta leynst í fitukirtlum augnlokanna eða í minnkaðri táraframleiðslu, nú eða verið tengdar við lyf sem einstaklingurinn þarf að taka af öðrum orsökum.
Augnþurrkur er einnig tengdur ýmsum gigtarsjúkdómum og sjálfsofnæmissjúkdómum. Umhverfi okkar hefur einnig veruleg áhrif á einkennin, þannig er þurrt og kalt loft til vandræða og mikil tölvunotkun getur aukið einkennin. Oft er hins vegar enga sérstaka ástæðu að finna fyrir augnþurrkinum.
Helstu einkenni eru augnþreyta, ljósfælni, sviða og kláðatilfinning, breytileg sjónskerpa og síðan getur aukið tárarennsli verið einkenni augnþurrks.
Nákvæm saga einkenna er lykilatriði. Táralind notast við nýtt tæki, svo kallaðan "OCULUS Keratograph", sem gerir okkur kleift að skoða tárafilmuna og fitukirtlana í augnlokunum á mun nákvæmari hátt en áður hefur verið mögulegt. Síðan eru augun skoðuð með smásjá, táraframleiðslan metin og sérstök litarefni notuð til að meta ástand yfirborðs þeirra.
Það geta allir fengið augnþurrk en hann er nokkuð algengari meðal kvenna og algengi hans eykst með hækkandi aldri. Augnþurrkur er sjaldgæfur meðal barna og er þá oft vegna undirliggjandi augnsjúkdóms.
Meðferðin er í meginatriðum fjórþætt og er mismunandi hvaða meðferð hentar hverjum. Í fyrsta lagi þarf að bæta tárafilmuna og auka magn tára með gervitárum. Þau eru til í ýmsum gerðum eftir því hvers konar augnþurrk á að meðhöndla. Í öðru lagi er hægt að takmarka frárennsli táranna með því að teppa táragöngin með töppum. Í þriðja lagi þarf oft að beita bólguminnkandi meðferð til að auka gæði táranna og / eða framleiðslu þeirra. Í fjórða lagi getur þurft að huga að lyfjum sem eru tengd augnþurrki og athuga hvort hægt er að velja önnur lyf með svipaða virkni.
Það fer eftir því hver orsök augnþurrksins er, almennt má segja að augnþurrkur fylgi manni áfram en einkennin geta verið mismikil, t.d. eftir árstíðum. Flestir geta haldið einkennum í skefjum með reglulegri notkun gervitára.
Augnþurrkur veldur verulegum óþægindum við athafnir daglegs lífs en hann er oftast ekki hættulegur. Erlendar rannsóknir hafa metið áhrif augnþurrks á daglegt líf og sýnt að áhrifin eru veruleg auk þess sem mikill kostnaður fylgir meðferð og minnkaðri vinnufærni vegna augnþurrks.
Mjög alvarlegur augnþurrkur veldur hins vegar skemmdum á yfirborði augans og hefur þá veruleg áhrif á sjón. Sem betur fer eru meðferðarúrræði góð og ýmsar nýjungar á sjóndeildarhringnum, t.d. augndropar sem auka gróanda á yfirborði augans.
Augnlæknar hafa um árabil greint og meðhöndlað augnþurrk en eftir því sem við best vitum er Táralind ein um að nýta myndatökur af tárafilmu og fitukirtlum í augnlokum (OCULUS Keratograph) við greiningu og eftirlit. Við nýtum okkur einnig alþjóðlega spurningalista við öflun upplýsinga um fyrra heilsufar og lyfjanotkun.
Að lokum má geta þess að Táralind býður upp á meðferð með sérstökum hita og rakagefandi gleraugum sem stuðla að betra heilbrigði fitukirtla augnlokanna og þar með betri gæðum tárafilmunnar.