Vöðvasýni úr vöðva einstaklings sem finnur fyrir harðsperrum sýnir að vöðvafrumurnar eru skemmdar og venjulegri uppröðun samdráttarpróteina frumanna er raskað. Einnig finnast í blóðsýnum prótein og önnur efni sem venjulega eiga aðeins að finnast inni í vöðvafrumunum. Sýnir það að frumuhimna vöðvafruma hefur rofnað eða orðið lek.
Harðsperrurnar koma oft ekki fram fyrr en nokkrum klukkutímum eftir að skemmdirnar eiga sér stað, þegar bólgusvörun og viðgerðarferli eru farin af stað í vöðvunum. Við það virðast losna boðefni sem erta sársaukataugar í vöðvunum og mynda sársaukann sem við köllum harðsperrur. Mjög misjafnt er þó hvað sársaukinn er lengi að koma fram. Rannsóknir hafa ekki getað sýnt fram á að myndun mjólkursýru í vöðvafrumum auki á neinn hátt líkur á vöðvaskemmdum né harðsperrum. Harðsperrur tengjast því ekki mjólkursýrumyndun í vöðvafrumunum eftir því sem best er vitað en útbreiddur misskilningur er að svo sé.
Vöðvafrumur og vöðvavefur hefur mjög mikla hæfileika til viðgerða og endurnýjunar. Þessi geta er miklu meiri en þekkt er í flestum öðrum líffærum líkamans. Til dæmis hefur taugakerfið mjög takmarkaða hæfileika til viðgerða eins og við sjáum hjá fólki sem verður fyrir mænuskaða eða öðrum áverkum í taugakerfi. En vægar harðsperrur virðast því tiltölulega meinlausar þó að menn ættu að forðast mjög miklar harðsperrur.
Teygjur og léttar æfingar strax eftir átök draga oft úr harðsperrum. Menn skilja ekki til hlítar hvernig á því stendur en líklegt er að slíkt örvi blóðflæði um vöðvana og efnaskipti þeirra. Þannig minnkar bólgusvörun vöðvans og flýtt er fyrir viðgerðarferlum. Þjálfun dregur úr skemmdum sem vöðvar verða fyrir í áreynslu og þar af leiðandi harðsperrum. Þó að ekki sé vitað nákvæmlega hvernig það gerist þá er líklegt að þjálfun styrki vöðvafrumurnar og bandvefinn í vöðvunum og verji þá þannig fyrir skemmdum. Einnig gæti taugakerfið hugsanlega lært að dreifa álaginu þannig að það verði ekki of mikið á einstakar frumur.
Grein af vef visindavefur.is