Ökklatognun getur gerst við margskonar aðstæður, til dæmis við göngu, hlaup, hopp og fleira. Oftast er það þegar viðkomandi stígur „vittlaust” niður í fótinn á óstöðugu undirlagi hvort sem um er að ræða göngu, hlaup eða hopp.
Þegar tognun á sér stað þá getur komið fram bólga, mar og verkur í kringum ökklaliðinn. Oftast eru verkirnir innanvert eða utanvert.
Fyrst eftir ökklatognun getur verið erfitt að ganga eða að standa í fótinn, fer allt eftir alvarleika.
Ökklaliðurinn (talo-crural liður) samanstendur af þremur beinum sem heita tibia, fibula og talus. Liðböndin í ökklanum liggja á milli beina og stjórna hversu mikil hreyfing getur átt sér stað um hvern lið.
Algengustu liðböndin sem verða fyrir tognun eru:
- Anterior talo-fibular ligament (ATFL)
- Calcaneofibular ligament (CFL)
- Posterior talo-fibular ligament (PTFL)
Þessi liðbönd liggja öll utanvert á ökklanum (lateralt).
Ef einstaklingur hefur einu sinni tognað á ökkla að þá eru töluverðar líkur á endurtekinni tognun þar sem liðbandið er orðið veikara fyrir, nema að viðkomandi sinni endurhæfingunni vel og fari varlega af stað. Með því er hægt að minnka líkurnar töluvert.
Þegar um ökklatognun er að ræða að þá eru fyrstu viðbrögð að nota RICE meðferðina sem samanstendur af:
- Rest (hvíla )
- Ice (kæla)
- Compression (þrýstingur)
- Elevation (upphækkun)
Semsagt þegar viðkomandi tognar á ökkla hvort sem um er að ræða tognun í íþróttaleik, við göngu, hlaup eða hvað sem er að þá er mælt með hvíld, kælingu, þrýsting utan um liðinn ásamt því að liggja með upphækkun undir fætinum.
Þegar talað er um hvíld að þá er það hvíld við þungaberandi stöðu en um að gera að hreyfa ökklann að verkjamörkum liggjandi eða sitjandi.
Eftir RICE meðferðina þá er ráðlagt að panta tíma hjá sjúkraþjálfara til að hægt sé að skoða og meta ástandið ásamt því að setja upp endurhæfingaprógramm, mismunandi er eftir alvarleika hvernig meðferð er háttað en hún snýst að mestu um að:
- Hafa stjórn á bólgunni.
- Ná upp eðlilegum hreyfiferli.
- Ná upp eðlilegri hreyfigetu.
- Styrkja vöðva í kringum ökkla og kálfavöðva.
- Þjálfa upp stöðuskyn og jafnvægi.
Endurhæfingin er stigvaxandi og er sérhönnuð eftir hverjum og einum. Endurhæfingin samanstendur af nokkrum fösum og mikilvægt er að fara ekki fram úr sér. Ef viðkomandi fer of geyst getur það leitt til endurtekinnar tognunar sem hægir þar af leiðandi enn meira á endurhæfingaferlinu.
Það er engin ákveðin tímarammi á hversu langan tíma það tekur að jafna sig. Þó er vitað að liðböndin sjálf taka að minnsta kosti 6 vikur að jafna sig. Vöðvastyrkur, hreyfiferill, stöðuskyn og jafnvægi er svo mismunandi eftir hverju tilfelli fyrir sig.
Grein af vef netsjukrathjalfun.is