Daglegt líf er oft ekki vinsamlegt fyrir hálsinn sem þarf að bera höfuðið uppi. Höfuðið sem ber okkar helstu skilningarvit, líffæri sem eru sífellt á varðbergi. Þú gætir þekkt smellinni sem kemur stundum þegar þú klemmir öxlina upp að eyranu til að halda við símann á meðan þú gerir eitthvað annað með höndunum. Þú gætir einnig þekkt stífleikann sem þú finnur fyrir þegar þú stendur upp frá tölvunni, þú ert ekki einn um hann.
Hálsverkur kemur sjaldan allt í einu heldur er þetta ástand sem þróast yfir tíma. Verkurinn getur tengst ýmsu, til að mynda hreyfingarleysi, rangri líkamsstöðu, slæmri vinnuaðstöðu, slysum, brjóskeyðingu og sjúkdómum til að mynda gigt. Verkirnir, af hvaða ástæðu sem þeir koma, espast svo upp sökum þess að vöðvar eru ekki nógu sterkir, líkamsstaðan er slæm, mikil streita er til staðar og jafnvel sökum svefnleysis. Þetta er í það minnsta skoðun Dr. Zachara Isaac sem starfar við Brigham og Womens sjúkrahúsið og hjá læknaskóla Harvard í Bandaríkjunum.
Hjá sumum fyrirtækjum eru sjúkraþjálfarar fengnir til að taka út vinnuaðstöðu starfsmanna og aðstoða við að stilla nýja stóla, tölvuskjái og fleira svo og að aðstoða nýja starfsmenn við að koma sér fyrir í réttri vinnuaðstöðu.
Einnig sérhæfa fyrirtæki eins og Vinnuvernd ehf. www.vinnuvernd.is sig í því að veita slíka þjónustu. Ég leyfi mér að fullyrða að það að fara yfir slíka hluti sé fjárfesting til framtíðar, og geti dregið úr veikindadögum og viðvarandi heilsubresti.
Eftirfarandi er gott að hafa í huga til að vinna gegn eymslum í hálsi og jafnvel fleiri stöðum.
Ekki standa eða sitja of lengi í sömu stellingu.
Það getur verið erfitt að venja sig af slæmri líkamsstöðu en allt er hægt. Fyrsta skrefið er að vera meðvitaður um að standa upp og hreyfa sig reglubundið yfir daginn, já eða breyta um stellingu og það eitt getur dregið úr líkunum á því að hálsinn sé fastur í óheilsusamlegri stellingu.
Breyttu og bættu í kringum þig!
Stilltu tölvuskjáinn þannig að þú horfir beint á hann og sjáir auðveldlega á hann. Notaðu handfrjálsan búnað fyrir símann þinn eða vertu með heyrnatól ef að þú ert stöðugt að svara í símann í vinnunni. Notaðu púða til að stilla tölvuna af þegar þú situr með hana í kjöltunni og miðaðu við að hún sé ég ekki flöt heldur í 45°.
Ef þú notar gleraugu láttu þá endilega fylgjast vel með sjóninni og því að þú sért með réttan styrkleika gleraugna. Ef gleraugun eru ekki af réttum styrkleika reynir þú að bæta það upp með því að halla höfðinu aftur eða fram eða teygja höfðið fram á við. Allt óeðlilegar stellingar sem setja álag á háls og herðar.
Notaðu ekki of marga kodda þegar þú sefur, það getur skert hreyfanleika hálssins.
Þekktu þín takmörk. Áður en þú lyftir eða hreyfir til þunga hluti hugsaðu aðeins um það hvað það getur gert baki og hálsi, biddu um aðstoð.
Sofðu vel, svefnvandamál auka hættuna á ýmsum heilsufarslegum þáttum til að mynda stoðkerfisvandamálum.
Fríða Rún Þórðardóttir
Næringarráðgjafi, Næringarfræðingur B.S.c, M.S.c, Íþróttanæringarfræðingur
Heimild:
HEALTHbeat Archives www.health.harvard.edu Harvard University health publications USA