Öll börn kynnast fyrst nuddi í legi móður sinnar við allar hreyfingarnar sem eru í líkama hennar. Húð barnsins verður fyrir örvun við taktbundna samdrætti og slökun legsins. Fæðingin sjálf virkar sem kröftugt nudd og er mikil umbreyting fyrir barnið, að koma úr hlýju og öruggu umhverfi móðurkviðs þar sem haldið er þétt utan um fóstrið og ,,út í heiminn“. Ungbarnanudd má líta sem aðferð til að milda áhrif þeirrar umbreytingar sem fæðingu fylgir með því fyrst og fremst að veita barninu áframhaldandi nána líkamlega snertingu og öryggi. Við höfum tilhneigingu til þess að líta á streitu sem vandamál hjá fullorðnum, meðan það á oft rætur að rekja til bernskunnar. Fyrir utan að virka fyrirbyggjandi og losa um spennu sem hjálpar líkamanum til þess að vinna viðgerðarstörf sín í friði og ró, örvar nudd blóðrásaflæðið í vöðvum og losar líkamann við óæskileg úrgangsefni eins og mjólkursýrur og flytur súrefni og bætiefni til heilans og annarra líkamshluta.
Kínverjar kalla lífsorkunna ,,ki-orku“ og segja hana fara um líkamann eftir sérstökum orkurásum sem má líkja við rafmagn í híbýlum okkar. Ef við erum þreytt og illa fyrir kölluð erum við orkuminni, en ef við erum óþreytt og glöð ,,getum við allt“. Indverjar kalla þessa orku ,,prana“ og segja hana fara eftir tveimur orkurásum upp eftir hryggsúlunni og í gegnum orkustöðvar líkamanns sem stjórna orkuástandi og hafa áhrif á innkirtlakerfi líkamanns. Enskumælandi þjóðir kalla þessa orku ,,vital force“ og við einfaldlega lífskraftinn eða lífsorkuna. Börn eru flest miklu orkumeiri en við sem erum eldri. Þau eru opnari, einlægari og jákvæðari, líði þeim vel. Jákvæð snerting og nudd örvar lífsorkuna og losar um stíflur í orkukerfi líkamanns. Það hefur síðan áhrif á taugakerfið (losar spennu) og blóðrásarkerfið (örvar blóðrás). Þannig vinnur líkaminn sem ein heild.
Börn á stofnunum sem fara á mis við ástúðlega snertingu og tilheyra engri fjölskyldu, deyja mörg hver, þrátt fyrir að þau fái mat og aðrar nauðsynjar. Við sjálf verðum döpur og einmana ef enginn snertir okkur. Snertingin, mikilvægasta tjáning bernskunnar er þannig mikilvægari fyrir okkur en fæða. Rannsóknir á dýrum sem hafa alist upp án snertingar, sýna að þeim hættir til að draga sig út úr hópnum. Þau geta orðið árásargjörn og hafa tilhneigingu til að misþyrma og vanrækja eigið afkvæmi.
Gegnum snertingu og nudd skynjum við kærleik, hlýju og velvilja og það gefur okkur svo mikla öryggistilfinningu að við getum slakað á.
,,Það er svo gott að fá nudd og það er svo gott að sofna á eftir,“ sagði 6 ára vinkona mín eftir að ég var búinn að nudda hana.
Í gegnum nuddið tengist barnið nánar foreldrum og umsjáendum sínum og á þar af leiðandi auðveldara með að tjá sig og líðan sína í því öryggi og slakandi andrúmslofti sem nuddtíminn skapar. Börnin mín og margir nuddþegar mínir hafa opnað sig algjörlega, grátið, hlegið, sofnað og hrotið hástöfum.
Jákvæð snerting er ekki bara spennulosandi og ánægjuleg örvun, heldur líffræðilega nauðsynleg fyrir eðlilegan tilfinningaþroska. Það er nauðsynlegt að finna það á eigin líkama að maður sé elskaður og þráður, að maður tilheyri einhverjum svo náið að maður geti tjáð tilfinningar sínar óhindrað. Það eru því miður margir fullorðnir sem eiga erfitt með of mikla nálægð og snertingu.
Rannsóknir í læknaháskólanum í Miami Bandaríkjunum sem gerðar voru á ungbarnanuddi sýndu að fyrirburar og léttburar sem fengið höfðu nudd daglega í nokkra mánuði þyngdust betur og sýndu miklu örari framfarir á öllum sviðum en sá hópur sem ekki fékk nudd. Ungbarnaleiðbeinendur í Svíþjóð sem hafa sérhæft sig í ungbarnanuddi fyrir fötluð börn hafa séð ótrúlegar framfarir á ,,þeirra börnum“ samanborið við önnur álíka fötluð. Það sem öll börn, ,,lítil og stór“ þurfa er að elska og vera elskuð, að læra að gefa og þiggja. Gott er að hafa í huga máltækið: ,,Það sem ungur nemur gamall temur“.
Grein fengin af vef doktor.is