Hjördís Lilja Reynisdóttir, Skólastjóri Snyrtiskóla RFA
Notaðu húðvörur sem henta þinni húðgerð
- Langar, heitar sturtur geta þurrkað húðina og raskað eðlilegu sýrustigi hennar. Sýrustig húðar á að vera á bilinu Ph 4,5-5,5. Miðaðu því við að vera ekki lengur en 10 mínútur í sturtunni og hafðu vatnið ekki of heitt.
-
- Athugaðu rakastig húðar þinnar með því t.d. að klóra lítinn blett á handlegg eða fótlegg. Ef það kemur hvít hreistruð lína vantar húð þína klárlega raka. Besta leiðin til að fá rakamettaða húð er að nota húðflögnunarefni (kornakrem)
1 - 4 sinnum í mánuði og bera góðan raka á húðina daglega
- Margar konur setja förðunarvörur á háls og bringu og gleyma svo að fjarlægja þær þegar þær hreinsa farðann af andlitinu. Einnig eru þessi húðsvæði oft óvarin fyrir bæði sólarljósi og mengun sem valda húðskemmdum. Hugsaðu því um hálsinn og bringuna á þér sem framlengingu af andlitinu og meðhöndlaðu það húðsvæði ávallt með þegar þú hreinsar húð þína og berð á hana næringu.
- Ef þú stefnir á útiveru berðu þá ávallt húðverndandi krem á húð þína. Fyrir útiveru í sól skaltu bera á þig sólarvörn og fyrir útiveru í frosti eða kulda og vindi skaltu bera á þig veðrakrem til að koma í veg fyrir háræðaslit, þurrk og pirring í húð.
- Veldu ávallt húðvörur eftir árstíð því þú gætir þurft meiri næringu yfir vetrartímann en á sumrin.
- Notaðu húðvörur sem henta þinni húðgerð og fáðu leiðsögn snyrtifræðinga við valið. Rangt val á húðvörum getur valdið húðvandamálum sem getur tekið töluverðan tíma að leiðrétta.
- Notaðu húðflögnunarkrem (kornakrem) eða húðflögnunarhanska á líkamann til að koma í veg fyrir inngróin hár og til þess að húðvörur eigi greiðari leið niður í húð þína.
- Hafir þú mjög þurrar hendur og fætur er gott ráð að bera djúpnærandi krem á húðsvæðin fyrir svefninn og fara svo í bómullarsokka/hanska og sofa í þeim.
- Hafir þú mjög þurra olnboga er gott ráð að nota húðflögnunarhanska og nudda yfir þurra svæðið. Að því loknu getur þú skorið sítrus ávöxt í tvo helminga og lagt olnbogana í þá og beðið í 15 mínútur. Sýran í ávextinum étur upp dauðar húðfrumur og hefur einstaklega mýkjandi áhrif.
- Forðastu reykingar, ofnotkun sólar og farðu alls ekki í ljósabekk því það veldur ótímabærri öldrun húðar.
Hjördís Lilja Reynisdóttir, Skólastjóri Snyrtiskóla RFA - www.rfa.is