Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að konur vilja fara í brjóstastækkun. Sumum finnst þær alltaf hafa verið með of lítil brjóst og vilja einfaldlega stækka þau.
Í öðrum tilfellum er það lag brjóstanna sem þarf að bæta t.d. er hægt að laga vægt sig á brjóstum með því að setja púða í þau. Þá er stór hópur þar sem brjóst hafa aflagast eftir barnsburð og brjóstagjöf. Þau hafa minnkað og verða signari, og síðast en ekki síst eru fjölmargar konur sem því miður fá sjúkdóma í brjóstin og þarf þá að nema í burtu hluta eða allt brjóstið og þá er hægt að lagfæra með ísetningu púða.
Almennt er mælt með því að konur hafi tekið út vöxt og þroska áður en hugað er að brjóstastækkun. Oft er einnig ráðlagt að eignast börn áður en hugsað er að slíku, en hver og einn verður að tka eigin ákvarðanir í þessu efni.
Fyrsta brjóstastækkunin var framkvæmd 1895 þegar fituæxli af baki sjúklings var notað til að bæta upp í brjóstvef sem hafði verið fjarlægður vegna æxlis. Síðan var það ekki fyrr en á 7. áratugnum að farið var að nota önnur efni eins og silicon sem í fyrstu var sprautað í brjóstin með misjöfnum árangri. Þetta leiddi síðan af sér brjóstapúðana eins og við þekkjum þá í dag, ýmist fyllta með saltvatni eða silicone. Hér á landi eru aðallega notaðir silicone púðar sem þykja hafa mýkri og betri áferð og gefa brjóstunum eðlilegra útlit.