Það þarf sko aldeilis ekki síður að hugsa um fæturna að vetri til en að sumri. Kuldinn veldur því að húðin verður mun þurrari og hefur því minni teygjanleika. Þannig þolir hún síður núning svo að sigg (hörð húð) á álagssvæðum fótanna verður meira og enn harðara. Þetta orsakar t.d. oft sprungur á hælum - jafnvel djúpar, blæðandi sprungur, sem getur orðið alvarlegt ef sýking kemst inn um opið sprungusár.
Til að vinna gegn vetrarþurrki er best að byrja síðsumars að byggja upp rakabúskap húðarinnar með góðu, blönduðu fótakremi (fita og raki) - en aldrei er þó of seint að byrja. Það skiptir þó öllu að nota viðurkennd fótakrem með góðri virkni, ekki bara eitthvert krem og ekki bara "body lotion". Mæla má sérstaklega með hinu íslenska Footguard (með Omega 3) frá Kerecis, eða þá góðum vetrarkremum frá Gehwol. Þeir sem fá mjög mikið sigg á hælana þurfa þó einnig öðru hverju að fá meðferð fótaaðgerðafræðings til að forðast opnar sprungur. Þá þarf líka að forðast að vera of lengi í lokuðum skóm hvern dag, lofta þarf um fæturna og minnka núning með því að vera í opnum sandölum hluta dagsins.
Í báðum tilfellum er auðvitað ekki lítið atriði að fæturnir séu í góðu lagi fyrir jólasprettinn - og þá er ekki verra að hafa heimsótt fótaaðgerðafræðing. Einnig þarf að velja sér skó við hæfi. Nauðsynlegt er að sleppa pjattinu, að minnsta kosti inn á milli, þannig að góðir skór/sandalar séu notaðir öðru hvoru. Álag af hörðu gólfi er gífurlegt á fæturna og þar með stoðkerfið í heild - meira en flesta grunar - og veldur aukinni þreytu. Þessi atriði, ásamt góðu kremi, eru grundvallaratriði fyrir fólk sem er á þeytingi allan desember hvort sem er við vinnu, í verslunum, við jólainnkaup eða þá standandi yfir pottunum yfir jólin.
Góðir og fínir jólafætur eru trúlega mikilvægastir og þeir fást hjá fótaaðgerðafræðingum, sem eru þeir einu sem hafa sérmenntun á sviði almennrar fóthirðu og veita ítarlegustu meðferðirnar, auk persónulegrar ráðgjafar. En naglalökkun og vaxmeðferð á fótleggum fæst á snyrtistofum. Því er tilvalið, fyrir þá sem vilja, að fara á snyrtistofu í lökkun og/eða vax eftir góða fótaaðgerð.
Mjög algengt er að þessum tveimur ólíku starfsgreinum sé ruglað saman og sumir halda að til séu fótsnyrtifræðingar - en svo er ekki. Einnig er villandi að orðið "fótsnyrting" er alfarið notað yfir fótameðferðir, hvers eðlis sem þær eru. Margir telja nefnilega að fótaaðgerðafræðingar sinni einhvers konar læknistengdum aðgerðum, en það er missskilningur. Faggreinin felur í sér almennar og ítarlegar meðferðir heilbrigðra fóta, auk ýmissa fótavandamála.
Hugsum vel um fæturnar okkar allt árið um kring.