Staldraðu við og hlustaðu á eigin hugsanir:
Nú hugsa sumir, það er ekki hægt! Aðrir hugsa með sér þetta hljómar spennandi.
Það er mismunandi hvaða hugsanir koma upp hjá hverjum og einum þegar þeir lesa þetta og þær hugsanir sem koma upp eru ósjálfráðar hugsanir. Nú þegar þú veist það muntu geta gripið þessar hugsanir og staldrað við.
Prófaðu svo að hugsa um eitthvað verulega sorglegt eða erfitt tímabil í lífi þínu. Þegar þú gerir það finnurðu hvaða áhrif það hefur á líðan þína, tilfinningar fara af stað. Ef þú hugsar um eitthvað sem virkilega reyndi á þig gætirðu jafnvel farið að gráta.
Prófaðu núna að hugsa um eitthvað sem er verulega jákvætt og skemmtilegt, eitthvað spennandi. Finndu hvernig yfir þig kemur vellíðan og góðar tilfinningar magnast.
Þessi litla tilraun sýnir okkur fram á það að hugsanir hafa áhrif á tilfinningar og þar með á líðan okkar.
Í hugrænni atferlismeðferð er unnið með hugsanir út frá því að hugsanir hafi áhrif á tilfinningar (líðan) sem hefur svo áhrif á hegðun.
Hegðun okkar einkennist af líðan okkar.
Þegar okkur líður vel erum við framtaksamari, jákvæðari og orkumeiri. Við hugsum jákvætt og horfum björtum augum fram á veginn. Við leysum þau verkefni sem fyrir okkur liggja og eyðum ekki orku í óþarfa áhyggjur. Sjálfsmyndin styrkist.
Aftur á móti þegar okkur líður illa þá erum við orkulítil, afköstum minna og okkur finnst framtíðin frekar dökk. Við sjáum frekar það neikvæða og vandamálin verða stærri og áhyggjurnar meiri. Sjálfsmyndin veikist.
Æfðu þig að hugsa jákvætt því æfingin skapar meistarann.
Kristín Snorradóttir – Fjölskylduhús