Sumir halda að fílar séu fyrst og fremst alkóhólistar eða fiklar. En svo er alls ekki. Fíllinn getur verið hvaða fjölskyldumeðlimur sem er. Hann getur verið faðirinn, móðirin eða unglingurinn. Hann getur verið þunglyndis- eða kvíðasjúklingur eða jafnvel þóst vera með slík einkenni, til þess eins að ná sínu fram.
Þegar fíll kemur sér fyrir í fjölskyldunni nær hann þeirri stöðu að aðrir eru boðnir og búnir að þjóna þörfum og löngunum hans og gleyma að sjálfssögðu sjálfum sér.
Sumir fílar stjórna með reiði en alls ekki allir. Aðrir stjórna með því að koma inn sektarkennd hjá heimilisfólkinu og enn aðrir gera út á samúð fjölskyldumeðlima. Fíllinn getur sýnt miklar tilfinningar til að ná sínu fram. Hann getur látist vera þunglyndur aðeins til þess að kalla eftir samúð sem venjulegu fólki er í blóð borin. Fíllinn hefur einstaka hæfileika í að spila með heimilisfólkið.
Fílar nota rafmagnaða þögn til að stjórna öðrum. Þeir hunsa fólk og eiga mjög auðvelt með að setja einstaka fjölskyldumeðlimi í frost. Einu gildir þó aðrir reyni slíkt hið sama, það virkar ekki á bleika fílinn því honum er í raun sama um annað fólk. Þetta vill hann seint viðurkenna og allra síst fyrir sjálfum sér. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru aðeins verkfæri sem fíllinn notar til að fá þá þjónustu sem hann telur sig eiga heimtingu á. Þarfir annarra finnast honum lítils virði. Þeir sýna aðeins þeim vinsemd sem þeir ætla að nota.
Fílar telja sig vita allt betur en aðrir jafnvel þó þeir séu áratugum yngri en aðrir fjölskyldumeðlimir. Þeim finnst reynsla annarra lítils virði og lítt áhugaverð. Þeirra eigin reynsla er það sem gildir. Það getur verið erfitt að eiga við bleikan fíl. Ef hann er fíkill er nánast ómögulegt að eiga við hann nema hann hætti neyslu og fari í meðferð. Í sumum tilfellum dugir það ekki til en oftast virkar það vel.
Fíll sem gerir út á aðra þætti eins og depruð eða kvíða getur verið mjög slægur við að verja stöðu sína því það er eitt sterkasta einkenni fílanna að þeir vilja einfaldlega vera fílar áfram! Og oft eiga aðrir fjölskyldumeðlimir erfitt með að viðurkenna vandann.
Við mælum með að aðstandendur leiti sér hjálpar og styrks til að takast á við verkefnið.
Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús