Hvað verður til þess að sumum einstaklingum virðist ávallt ganga vel hvað sem á dynur? Tengist þetta þróun persónuleikans eða er þetta meðfætt?
Svo virðist að þeir sem strax í uppvexti njóta umhyggju, öryggis og aga og eru jafnframt hvattir snemma til að bera ábyrgð og sýna öðrum virðingu, eigi auðveldara með að takast á við ögranir og erfiðleika seinna í lífinu. Þeir leitast við að finna lausnir, þora frekar að leita sér ráða og aðstoðar, líta á sig sem gerendur í eigin lífi og leggja sig fram við að læra af velgegni og mistökum.
Þessir einstaklingar hafa oftar jákvætt viðhorf til lífsins, eiga auðveldara með að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og langanir án þess þó að upphefja sig eða ganga á rétt annarra. Þeir setja sér markmið sem eru þeim ekki ofviða og líta framtíðina björtum augum. Þeir læra að þekkja styrkleika sína og geta sett sig í spor annarra. Þeir eiga gott með að treysta öðrum og leita aðstoðar hjá þeim sem eldri eru og reyndari.
Ábyrgðarkennd, færni í samskiptum og sjálfstæði á barnsaldri auka líkur á vellíðan og velgengni seinna meir. Börn sem alast upp við slíkt eru oftar fær um að gefa og þiggja í samskiptum, eru bjartsýnni og eiga auðveldara með að setja mörk um hvað þau vilja og hvað ekki í samskiptum við aðra. Þeim gengur einnig betur í námi og félagslegum samskiptum.
Hvatning og verðskuldað hrós eru lykilatriði í heilbrigðri mótun sjálfsmyndar barnsins, rétt eins og matur og drykkur eru nauðsynleg líkamlegum þroska. Hvatningin þarf að taka mið af getu barnsins og aðstæðum, vera rétt tímasett og í samræmi við verknað. Leggja þarf áherslu á að uppalendur hlusti og taki virkan þátt í lífi barnsins með því að vera samvistum við það og sýna áhuga á því sem barnið tekur sér fyrir hendur.
Uppeldisaðferðir og umgjörð skipta máli og því er nauðsynlegt að gera foreldrum kleift að rækta vel samskipti inni á heimilinu.
Annar stór þáttur í eðlilegri þróun sjálfsmyndar er gott samspil tilfinninga í samskiptum við aðra, sérstaklega við foreldra. Þetta þýðir ekki að stöðugt þurfi að faðma börnin og hrósa þeim, heldur hitt að börn finni að þau séu alltaf velkomin og vel metin. Þetta þýðir heldur ekki að ekki megi siða börn til. Hins vegar er gott að muna að markmiðið er að kenna börnum góða hegðun. Með hliðsjón af því er betra að benda barni á þá hegðun sem við viljum sjá fremur en að beina sjónum að neikvæðri hegðun. Það er munur á því að segja "Hættu að æpa!" og "Talaðu rólega". Seinni skilaboðin eru ekki aðeins vingjarnlegri heldur einnig skýrari; þau segja barninu til hvers er ætlast. Sömuleiðis er gott að muna að oft nægir að beina athygli að jákvæðri hegðun og hrósa fyrir hana til þess að draga úr óæskilegri hegðun. Að hrósa fyrir að sitja kyrr við matarborðið eða ganga frá eftir sig fremur en að ávíta þegar ekki gengur eins vel. Þetta er þolinmæðisvinna- en þolinmæðin þrautir vinnur allar.
Foreldrar og nánir ættingjar eru fyrirmyndir og gott samband við þá sem annast barnið er afar mikilvægt fyrir eðlilegan þroska. Eftir því sem barnið eldist fjölgar þeim sem barnið samsamar sig við. Þetta geta verið fjölskylduvinir og nágrannar, kennarar, íþróttaþjálfarar og jafnaldrar, svo fátt eitt sé talið. Umbrot unglingsáranna stækka svið fyrirmynda, sem oft geta á tímabilum ögrað viðteknum venjum og gildismati umhverfisins.
Ýmsar stofnanir samfélagsins utan fjölskyldu og skóla geta líka haft jákvæð áhrif á mótun og þroska barna. Þátttaka í tómstundastarfi og áhugamálum, svo sem listarnámi, íþróttum og öðru menningar- og félagsstarfi, hefur reynst hafa styrkjandi áhrif á sjálfsmynd barna, efla félagshæfni og einbeitingu.
Þegar þessum þáttum er vel sinnt aukast líkur á því að börn verði hæfari seinna meir til að takast á við áföll og erfiðleika í lífi sínu. Þessir þættir styrkja varnir gegn geðrænum vanda og draga úr líkindum þess að barn flosni upp úr skóla og leiti í dýrkeypta áhættuhegðun.
Stöðugleiki í fjölskylduumhverfinu stuðlar að eflingu sjálfsmyndar. Þetta á við um nærveru beggja foreldra og tækifæri til að mynda tengsl við vini og skóla til lengri tíma. Skilnaður foreldra hefur oftast neikvæð áhrif á börn, sérstaklega ef það hefur orðið vitni að tíðum deilum milli foreldra. Tíðir búferlaflutningar kalla á stöðuga aðlögun að nýjum vinum, skóla og öðru. Stöðugar breytingar sem þessar, sérstaklega ef barnið er ekki búið undir þær, geta skapað langvarandi streituástand með alvarlegum afleiðingum fyrir geðheilsuna.
Önnur áföll, eins og andlát nákominna, geta haft sömu áhrif. Börn eru mjög upptekin af líðan foreldra sinna og því er mikilvægt að sé foreldri ekki í stakk búið til að annast barnið tímabundið útskýri það fyrir barninu hvað ami að og hver eða hverjir taka börnin að sér meðan foreldrið getur það ekki. Á geðsviði LSH er nú starfrækt stuðningsáætlun fyrir foreldra og börn sem nefnist Fjölskyldubrúin. Þar er lögð áhersla á að styðja við bakið á börnum sem búa við erfiðleika eða geðræn veikindi foreldra.
Erfið félagsleg staða og fátækt geta haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd og líðan, m.a. vegna samanburðar við aðra, færri tækifæra og jafnvel vegna virkrar mismununar, t.d. í skóla. Eins geta tíðir flutningar milli landshluta eða bæjarhverfa valdið rofi á tengslum við vini og félaga. Það ber þó að undirstrika það að nákvæmlega þessir sömu þættir geta haft þveröfug áhrif, það er, að efla þrautsegju og hæfni til þess að takast á við erfiðleika. Það veltur mikið til á nánasta umhverfi barnsins og stuðningi frá foreldrum og öðrum nákomnum.
Einelti í skóla veldur langvarandi streitu, sem getur haft svipuð áhrif og stærri áföll. Hæfni barnsins til að takast á við erfiðar aðstæður og áreiti minnkar og félagstengsl versna. Einelti getur haft víðtæk áhrif á sjálfsmynd og traust til annarra til lengri tíma. Áhrif eineltis geta því náð langt út fyrir sjálft eineltisumhverfið.
Það ber í að undirstrika að ekki er hægt að setja samasemmerki milli ofantalinna þátta og alvarlegra afleiðinga fyrir geðheilsu og félagslega aðlögun barna. Virkur stuðningur, góð tengsl, umhyggja og útskýringar lágmarka álag sem fylgir raski og áföllum og draga stórum úr hættu á langvinnum vandamálum síðar.
Grein af vef landlaeknir.is