Þau ræddu reynslu sína og lausnir í boði. Ég skilgreini sjálfa mig sem fjöl-fíkil. Ég reykti í mörg ár, drakk meira en mig langaði til og hafði ekki stjórn á þyngdinni frá því ég man eftir mér og fram yfir þrítugt. Af mínum fíknum finnst mér mesta áskorunin að eiga við matarfíknina, að sama skapi er ég einna stoltust af árangri mínum þar.
Það voru nokkur atriði sem mér fannst sérstaklega áhugaverð í umræddum þætti. Þau ræddu t.d. munin á þeim sem leyfa sér meira í mat öðru hvoru og svo matarfíklum. Fyrri hópnum tilheyra þeir sem alla jafna eru ánægðir með þyngdina, borða stundum meira eða annað en venjulega, halda aðeins í við sig í framhaldinu og komast aftur í jafnvægi, enginn skaði skeður. Hinum hópnum tilheyra þá þeir sem eru óánægðir með þyngdina til lengri tíma og tekst ekki að laga það, sem hefur svo verulega neikvæð áhrif á allt lífið. Tæp 25 ár af mínu lífi lituðust af þeirri staðreynd að ég upplifði mig of feita og misheppnaða vegna þess að ég náði ekki tökum á þyngdinni. Þrátt fyrir ótal megrunarkúra og átök í ræktinni, þá endaði það alltaf á sama veg, ég var orðin þyngri en ég vildi vera, aftur.
Fyrsta skrefið í rétta átt, var þegar ég áttaði mig á því að ofát mitt og afleiðingar þess, áttu eitthvað skylt við ofdrykkju alkóhólista með tilheyrandi afleiðingum. Ég fór á matarfyllerí, borðaði meira en ég ætlaði mér, borðaði þegar enginn sá til og eyddi dögum saman í matarþynnku með tilheyrandi vanlíðan. Ég var sífellt að lofa sjálfri mér bót og betrun, sem ég gat svo ekki staðið við. Það rann loks upp fyrir mér að lausnin snérist ekki um tímabundna breytingu eins og megrun, aðhald eða átak í ræktinni. Ekki frekar en fyrir alkóhólista að einsetja sér að drekka minna eða hætta að drekka tímabundið.
Þegar ég horfðist loks í augu við að þetta væri varanlegt ástand, gat ég farið að leita lausna. Það fyrsta sem ég gerði var að koma matartímum í rútínu. Næsta skrefið var að henda út mat og drykk sem ég var alveg viss um að gerði mér ekkert gott. Ég prófaði mig áfram með matarskammta og bjó mér til þumalputtareglur til að hjálpa mér að borða ekki of mikið í einu. Ég vigtaði mig reglulega til að fylgjast með þyngdinni og meðvitað hætti ég að líta á vigtina sem „óvin“, heldur tól til að taka stöðuna. Ja, svona eins og klukku. Ef maður er alltaf of seinn, þá er ekki endilega lausnin að henda úrinu. Í mörg ár var ég með nammidag á laugardögum án þess að það hefði áhrif á þyngdina. En þegar ég borðaði mikinn sykur leið mér vel í smá stund og svo illa lengi á eftir, alveg þangað til ég fann taktinn minn aftur. Á einhverjum tímapunkti var það ekki þess virði. Það liðu nokkur ár áður en ég fór að borða til að hreyfa mig í staðinn fyrir að hlaupa til að geta borðað meira. Það var stór áfangi.
Í dag er ég nokkuð frjáls frá matarfíkninni þó ég sé meðvituð um hana. Sennilega er þetta svipað og hjá alkóhólista sem ekki hefur drukkið í mörg ár. Þetta verður auðveldara og auðveldara með árunum og ytri aðstæður skipta minna máli. Það truflar mig ekkert að vera innan um mat sem hentar mér ekki. Hreyfir ekki við mér þegar aðrir koma með athugasemdir um að ég megi nú alveg við því að fá mér eitthvað óhollt eða hafa skoðanir á holdafari mínu. Ég veit upp á hár hvenær mér er hættast við að fara út af sporinu og þá er ég með tilbúna viðbragðsáætlun; mikið álag... stór poki af gulrótum eða góður hlaupatúr. Með árunum hefur smekkur minn á mat gjörbreyst. Hann er einfaldur. Mér finnst hollur matur sem lætur mér líða vel góður og mér finnst óhollur matur sem lætur mér líða illa vondur. Ég borða bara það sem mér finnst gott og ég er nákvæmlega eins og ég vil vera.
Ég veit ekki hvort samtök matrafíkla og þeirra leiðir hefðu hjálpað mér á sínum tíma. Fólk er eins misjafnt og það er margt, það sem passar einum er ómögulegt fyrir annan. Ég hef reynt að miðla af minni reynslu, það hjálpar sumum, ekki öðrum. Ætli niðurstaða mín sé ekki sú að það er engar „patent“ lausnir en fyrsta skrefið er að átta sig á og horfast í augu við vandanum. Þá fyrst getur maður eygt leiðina út og leitað sér hjálpar og það er það sem skiptir máli.
Lífið er nefnilega miklu skemmtilegra hérna megin, frjáls úr heljargreipum fíknarinnar.
Kv. Eva Skarpaas