Þjálfari/Þjálfarar:
Burkni Helgason, Felix Sigurðsson, Ómar Torfason og Örnólfur Oddsson. Sara Björg Lárusdóttir er þjálfari á byrjandanámskeiðum ÍR skokk.
Hvaðan hleypur hópurinn:
ÍR skokk hleypur frá ÍR-heimilinu á virkum dögum, á laugardögum frá Breiðholtslauginni og í vetur verða jafnframt æfingar í frjálsíþróttahöll Laugardals.
Hvaða daga og kl. hvað:
ÍR skokk æfir allt árið í kring á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl. 17:30 frá ÍR heimilinu, Skógarseli 12. Á laugardögum er hlaupið frá Breiðholtslauginni kl. 9 og fara margir í heitapottinn eftir æfingar. Í nóvember hefjast jafnframt inniæfingar í frjálsíþróttahöll Laugardals. Við hlaupum úti allan ársins hring og það fellur aldrei niður æfing. Á eftir æfingum á virkum dögum eru að öllu jöfnu styrktaræfingar inní ÍR heimili fyrir þá sem áhuga hafa.
Er hópurinn fyrir byrjendur og lengra komna:
Allir eru velkomnir á æfingar og hópurinn tekur fagnandi á móti öllum sem vilja bætast í hópinn. Mikil breidd er í getu iðkenda og eru æfingaáætlanir í samræmi við fjölbreytileika hópsins. Auk þess er fjöldi þjálfara í samræmi við ólík getustig og markmið meðlima. ÍR-skokk stendur jafnframt fyrir reglulegum 12 vikna byrjandanámskeiðum fyrir alla þá sem eru að hlaupa sín fyrstu skref. Gott viðmið er að þeir sem geta hlaupið 6-8 km án þess að ganga komi á æfingar hjá ÍR skokk, en ef viðkomandi hleypur minna eða jafnvel ekkert þá er upplagt að skrá sig á byrjandanámskeiðin.
Er hópurinn virkur í að taka þátt í hlaupatengdum viðburðum hérlendis og erlendis:
Hópurinn er mjög virkur allt árið um kring og á yfirleitt fulltrúa í helstu hlaupum hér á landi. Auk þess taka hlauparar í hópnum ár hvert þátt í hlaupum erlendis, þá ýmist á eigin vegum eða að hópurinn skipuleggur ferð saman.
Heldur hópurinn sín eigin hlaup:
ÍR skokk skipuleggur í samvinnu við frjálsíþróttadeild ÍR Víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta og Gamlárshlaup ÍR. Bæði hlaupin eiga langa sögu hér á landi, en árið 2014 verður Víðavangshlaupið haldið í 99. sinn og Gamlárshlaup ÍR í 38. sinn.
Er félagslíf hjá hópnum utan við venjulegar hlaupaæfingar og hvað þá helst:
Auk markvissra æfinga sem henta byrjendum sem reyndum hlaupurum þá er hópurinn ekki síður vettvangur til þess að tilheyra skemmtilegum félagsskap og njóta útverunnar. Auk hlaupaæfinga stendur hópurinn fyrir byrjendanámskeiðum, fræðslufundum, gönguferðum, utanvegahlaupum og sértækum viðburðum eins og t.d. uppskeruhátíð, sumarhátíð eftir Reykjavíkurmaraþon, árvissri ferð yfir Fimmvörðuhálsinn og nokkurra daga sumargöngu sem jafnframt er árviss. Þess á milli eru ýmis tilefni notuð til að koma saman og eiga skemmtilega stund saman.
Heldur hópurinn úti vefsíðu og hver er slóðin:
Hópurinn heldur úti Facebook síðu https://www.facebook.com/groups/irskokk/ og vefsíðu http://www.ir.is/Deildir/Frjalsar/IRSkokk/
Að lokum:
ÍR skokk er öflugur og skemmtilegur félagsskapur sem allir ættu að geta fundið sig í. Skokkhópurinn hefur farið ört stækkandi svo eftir sé tekið enda vel haldið utan um þjálfun óháð getustigi og markmiðum hlaupara. Meðlimir eru rúmlega 100 en að öllu jöfnu eru um 70 hlauparar á hverri æfingu. Við tökum vel á móti öllum sem vilja tilheyra skemmtilegum félagsskap hvort heldur sem hlaupari hefur það að markmiði að hlaupa sér til heilsubótar eða stefnir á bætingar í keppnishlaupum.
Fyrirspurnir um nánari upplýsingar má senda á netfangið ir.skokk@gmail.com