Samtals voru 30 hlauparar tilnefndir í karla- og kvennaflokki til langhlaupara ársins 2015. Að þessu sinni eru það 6 konur og 6 karlar sem mynda endanlegan lista hlaupara sem kjósa á um. Það val var ekki auðvelt frekar en áður, því margir af þeim hlaupurum sem tilnefndir voru, hafa hver á sinn hátt unnið góð afrek og/eða sýnt mikla þrautseigju á síðasta ári.
Valnefnd til að velja úr tilnefningum þeim sem bárust, skipa Torfi Helgi Leifsson umsjónarmaður hlaup.is, Sigurður P. Sigmundsson langhlaupari og þjálfari, Gunnar Páll Jóakimsson þjálfari og fyrrum þjálfari Skokkhóps ÍR, Erla Gunnarsdóttir fyrrum þjálfari Skokkhóps Fjölnis í Grafarvogi og Margrét Elíasdóttir þjálfari KR-skokk.
Hægt verður að kjósa til kl. miðnættis mánudaginn 1. febrúar 2016.
Verðlaunaafhending verður fyrstu helgina í febrúar (nánari tímasetning síðar) og tilkynnt verður um niðurstöðu kosningar í kjölfarið á því hér á hlaup.is.
Við hér á Heilsutorgi munum kynna þá hlaupara sem eru tilnefndir, og hafa eina konu og einn karl á dag næstu daga.
Tilnefndir í karlaflokki (í stafrófsröð):
Hlynur Andrésson (22 ára) sigraði í hálfmaraþoni RM á 1:09:35 klst sem er hans besti tími á þeirri vegalengd og Íslandsmet í undir 23 ára flokki. Keppti að öðru leyti lítið sem ekkert í götuhlaupum á árinu en náði góðum árangri í brautarhlaupum. Hæst ber tími hans í 10.000 m (29:38,42) sem hann náði á móti í mars í USA þar sem hann stundar nám. Tími hans er aðeins 9 sek frá Íslandsmeti Kára Steins. Hlynur stórbætti einnig árangur sinn í 5.000 m hlaupi (14:23,06) í USA þann 1. maí og sigraði síðan í þeirri grein á Smáþjóðaleikunum sem fram fóru í Reykjavík í byrjun júní.
Anna Berglind Pálmadóttir (36 ára) á stutta sögu í langhlaupum en stimplaði sig rækilega inn á síðasta ári. Byrjaði á því að ná góðum árangri á innanhússmótunum þar sem hún hljóp m.a. 5.000 m á 18:30,7 mín. í mars. Sá árangur skilaði henni í landsliðið þar sem hún keppti í 5.000 m (18:26,66) í Evrópubikarkeppninni í Búlgariu og í 10.000 m á Smáþjóðaleikunum í Reykjavík. Anna Berglind náði bestum árangri íslenskra kvenna á árinu í hálfmaraþoni (1:25:29) er hún sigraði í Akureyrarhlaupinu sem jafnframt var Íslandsmeistaramót. Þá hljóp hún 10 km best á 38:26 mín. Hún varð einnig 6. sæti kvenna í hálfmaraþoni í RM og 3. sæti íslenskra kvenna.
Af síðu hlaup.is