Samtals voru 30 hlauparar tilnefndir í karla- og kvennaflokki til langhlaupara ársins 2015. Að þessu sinni eru það 6 konur og 6 karlar sem mynda endanlegan lista hlaupara sem kjósa á um. Það val var ekki auðvelt frekar en áður, því margir af þeim hlaupurum sem tilnefndir voru, hafa hver á sinn hátt unnið góð afrek og/eða sýnt mikla þrautseigju á síðasta ári.
Valnefnd til að velja úr tilnefningum þeim sem bárust, skipa Torfi Helgi Leifsson umsjónarmaður hlaup.is, Sigurður P. Sigmundsson langhlaupari og þjálfari, Gunnar Páll Jóakimsson þjálfari og fyrrum þjálfari Skokkhóps ÍR, Erla Gunnarsdóttir fyrrum þjálfari Skokkhóps Fjölnis í Grafarvogi og Margrét Elíasdóttir þjálfari KR-skokk.
Hægt verður að kjósa til kl. 24 mánudaginn 1. febrúar 2016. Verðlaunaafhending verður fyrstu helgina í febrúar (nánari tímasetning síðar) og tilkynnt verður um niðurstöðu kosningar í kjölfarið á því hér á hlaup.is.
Form til að kjósa langhlaupara ársins (athugið að gefa besta hlaupara 6 stig og svo koll af kolli)
Stefán Guðmundsson (45 ára) sem búið hefur í Danmörku um árabil setti Íslandsmet í hálfmaraþoni í flokki 45-49 ára er hann hljóp vegalengdina á 1:14:16 klst. í Kaupmannahöfn 13.september. Hann fylgdi því svo eftir með því að setja einnig Íslandsmet í sínum aldursflokki í maraþonhlaupi er hljóp á 2:33:58 klst í Berlín tveimur vikum seinna. Hvoru tveggja persónuleg met hjá Stefáni sem bætt hefur árangur sinn jafnt og þétt undanfarin ár.
Rannveig Oddsdóttir (42 ára) átti við meiðsli að stríða á árinu en náði engu að síður góðum árangri í hálfmaraþoni RM þar sem hún hljóp á 1:25:33 klst og varð í 3.sæti. Tími hennar var jafnframt annar besti tími íslenskrar konu á árinu. Rannveig sigraði í 10 km (39:51) í Akureyrarhlaupinu í byrjun júlí og í 30,6 km vegalengd Fjögurra skóga hlaupsins (2:20:56) í lok júlí.
Af vef hlaup.is