„Í aðdraganda hlaups þurfa hlauparar að halda góðu jafnvægi í vökvaneyslu, kolvetna-, prótein- og fituneyslu og miða það við þörf á hverjum tíma í takt við æfingaálag. Síðustu dagana fyrir hlaup er orkuþörfin minni þar sem álagið er lítið sem ekkert. Þó þarf að halda áfram að nærast vel og halda áfram að drekka nóg af vatni og borða hollan og góðan mat, með áherslu á holl kolvetni eins og heilkornavörur og ávexti. Þeir sem eru að fara í heilt maraþon hafa væntanlega tekið einhverja kolvetnahleðslu síðustu vikuna fyrir hlaup.
Að morgni hlaupdags er morgunmaturinn létt og kolvetnarík máltíð. Gjarnan ristað brauð (ekkert allt of gróft), flatkökur og/eða banani og eplasafi. Margir eru vanir að borða sinn hafragraut og gera það líka þennan morguninn. Mestu máli skiptir að prófa ekki eitthvað nýtt á þessum tímapunkti. Einnig er mikilvægt að vakna nógu snemma til að máltíðin sé ekki borðuð á hlaupum eða of nálægt upphafi hlaupsins. Máltíðin sjálf hefur ekki þann tilgang að koma hlauparanum í gegnum hlaupið heldur að gefa smá orku og hindra hungurtilfinningu á meðan á hlaupinu stendur. Næringin og orkan dagana á undan er bensínið í hlaupinu og fyrir þá sem hlaupa lengst bætist við orka úr geli og íþróttadrykkjum.
„Þeir sem hlaupa 10 km eiga ekki að þurfa að vera með neinn vökva á sér í hlaupinu. Það eru drykkjarstöðvar á leiðinni sem tilvalið er að nýta sér þurfi fólk á því að halda til dæmis þeir sem svitna mjög mikið eða ef það er mjög heitt í veðri. Það að hlusta á líkamann er þó mikilvægast af öllu. Þeir sem fara hálft og heilt maraþon eru flestir með gel meðferðis sem þeir sprauta upp í sig rétt áður en þeir koma á drykkjarstöð og skola því niður með vatni sem þar er í boði. Aðrir eru vanir því að drekka íþróttadrykk á drykkjarstöðvunum.
„Daginn fyrir hlaup er best að vera ekki í neinu stressi og halda góðu jafnvægi. Þegar svona stutt er í hlaup þá er jákvæðni og uppbyggjandi hugsunarháttur það sem skiptir mestu máli. Æfingarnar sem lagðar hafa verið að baki, góð næring og nægjanleg hvíld, allt þetta hefur sitt að segja. Þó má ekki fara út í neikvæðar hugsanir ef að eitthvað af þessu þrennu hefur ekki verið 100% fullkomið. Nú er komið að því njóta uppskerunnar og reyna að vera afslappaður og jákvæður trúa því að það sé örgrandi, gott og skemmtilegt hlaup framundan.“
„Í hlaupinu sjálfu skiptir öllu máli að fara ekki of hratt af stað. Of hröð byrjun veldur því að vöðvarnir súrna of snemma og þreyta gerir vart við sig. Í svona löngu hlaupi getur hlauparinn leyft sér að fara rólegar af stað og frekar bætt í hraðann þegar líða tekur á hlaupið. Það getur verið gott ráð að skipta 10 km hlaupinu upp í þrjá hluta og taka stöðutékk á sjálfum sér eftir hvern þriðjung, til að finna út hvar hann er staddur. Í síðasta þriðjungi eða jafnvel í byrjun Tryggvagötunnar þá er kannski rétti tíminn til að að auka hraðann og koma á fleygiferð í mark. Mikilvægast er þó að muna að hlusta alltaf á líkamann og taka mark á því sem hann gefur til kynna.