Eins og þú eflaust veist þá er mataræðið einn stærsti þáttur í árangri í líkamsrækt. Til þess að ná háleitum markmiðum, þá þarftu að borða vel og rétt. En auðvitað eru fleiri þættir sem spila inní árangur og það er að sjálfsögðu hvað þú ert að leggja mikið í æfingarnar.
Þegar ég heyri fólk segja við mig að því finnist einhver æfing ógeðslega leiðinleg, þá er það nánast öruggt að því finnst æfingin hrikalega erfið. Það er mannlegt eðli að bakka frá því sem reynir mikið á mann og ef hugarfarið og metnaðurinn í að bæta sig og ná lengra er ekki til staðar, þá er það eflaust það sem þú munt gera þegar þú kemur að mjög krefjandi og erfiðri æfingu.
„Comfort zone“ æfingar
Það getur oft verið ótrúlega freistandi að mæta í ræktina og gera bara tvö sett í stað þriggja, lækka þyngdina því síðustu þrjár endurtekningarnar voru farnar að svíða eða lækka hraðann á hlaupabrettinu vegna mæðu.
Þetta kalla ég „comfort zone“ æfingar, því einstaklingurinn er ekki viljugur til þess að fara út fyrir ákveðin áreynslumörk til þess að ná árangri og er því ávallt hjakkandi í sama farinu. Á námskeiði sem ég sótti fyrir þó nokkru síðan, var minnst á mann sem talinn var besti ræðumaður í heimi. Það er ekki frásögu færandi nema það að hans mesti ótti var að standa fyrir framan fólk og halda ræðu. Hann ákvað því einn daginn að gera ræðumennsku að atvinnu hjá sér og fór því daglega úr sínu „comfort zone“ og varð bestur í sínu fagi.
Gefðu „leiðinlegu“ æfingunum séns
Það er um að gera að gefa þessum erfiðu æfingum séns. Það gæti tekið nokkurn tíma í að verða góður í þeim eða finna fyrir bætingum, en það er alveg þess virði þegar árangurinn kemur í ljós. Ekki sniðganga erfiðu æfinarnar vegna ótta um strengi daginn eftir eða þreytu um kvöldið. Þetta eru allt nauðsynlegur fórnarkostnaður í átt að settum markmiðum sem gætu verið aukinn styrkur eða betra þol.
Að breyta reglulega um æfingar og æfingakerfi!
Það er mjög auðvelt að tileinka sér einhverja “rútínu” í ræktinni sem maður framkvæmir aftur og aftur og þú sérð væntanlega bætingar í þeim æfingum á ákveðið löngum tíma. Sannleikurinn er sá að þú þarft samt reglulega að breyta um æfingar, þyngdir, fjölda endurtekninga og fleira. Aðlögunarhæfni líkamans er svo mikil að hann venst því sem þú venur þig á að gera og bætingarnar verða hægari fyrir vikið.
Til dæmis ef eina hreyfingin sem þú stundar er að fara út að ganga, sem er að sjálfsögðu frábær hreyfing, þá eru líkur á það sé farið að hægjast verulega á bætingum. Ástæðan er einföld, líkaminn er löngu búinn að venjast því álagi sem verður við göngutúra. Þannig ef markmiðin eru skýr og þú ert að leitast eftir því að léttast, styrkjast eða bæta þol, þá mæli ég með því að þú stundir annars konar þjálfun samhliða göngunni.
Að sjálfsögðu eru frávik frá því sem ég talaði um hér að ofan og margt fólk þjáist að ýmsum kvillum eða sjúkdómum sem gerir það að verkum að ekki er æskilegt að reyna of mikið á sig og því geta göngtúrar og annars konar róleg þjálfun hentað vel.
Vilhjálmur Steinarsson Þjálfari
Íþróttafræðingur B.Sc frá Háskólanum í Reykjavík