Þó að ferðir til útlanda eða nýjir hluti gleðji þá er það miklu fremur félagsskapurinn og að upplifa eitthvað nýtt sem raunverulega færir okkur hamingju. Sjaldnast þarf að fara langt til að eignast dýrmætar minningar. Með opnum hug er hægt að skapa ævintýri og skemmtun þar sem fjölskyldan nýtur þess að vera saman.
Á Íslandi eru margir fallegir staðir í náttúrunni sem gaman er að heimsækja með börn og skilja eftir sig einstaka upplifun. Náttúran sem leiksvæði býður upp á óendanlega möguleika og börn eru meistarar í að finna upp á leikjum. Runnar og kjarr eru spennandi rannsóknarefni. Plöntur, vatn, sandur, steinar og mold breytast á svipstundu í leikföng og byggingarefni. Okkar síbreytilega náttúra er einnig mikilvæg fyrir þroska barna því hún örvar skilningarvit og hreyfiþroska barna ásamt því að næra hug og hjarta og auka almenna vellíðan.
Maður hefur gott af því að spyrja sig reglulega hvernig fyrirmynd maður er því við foreldrar og nánir ættingjar erum fyrirmyndir barna okkar. Hegðun þeirra endurspeglar okkar hegðun að miklu leyti og ef við tökum ábyrgð á okkar eigin heilsu og vellíðan læra börnin það einnig. Börn læra nefnilega af hegðun en ekki orðum. Ef við búum til góðar stundir með börnunum í náttúrunni, er líklegra að þau muni sækja í félagsskap okkar síðar meir auk þess sem þau læra að sækja ró, kraft og heilsu í okkar einstöku náttúru.
Hreyfingarleysi og kyrrseta meðal barna er að verða ein stærsta orsök lífsstílssjúkdóma sem minnkar lífsgæði þeirra og styttir lífaldur. Staðreyndin er sú að meira en helmingur barna fær ekki næga hreyfingu og eftir því sem börnin eldast og detta úr íþróttum þá eykst hlutfall þeirra sem fær ekki næga hreyfingu. Með því að stunda hreyfingu með börnunum, hvort sem það er að hjóla, fara í fjallgöngu eða göngutúr á jafnsléttu, synda eða eitthvað annað, þá læra þau í leiðinni að fá útrás og sækja orku og ró í náttúruna.
Hreyfing er besta meðalið gagnvart flestum algengum sjúkdómum og kvillum. Hún styrkir ónæmiskerfið og læt- ur okkur líða vel andlega með því að losa hormón eins og endorfín, dópamín og serótónín. Með því að stunda hreyfingu með börnunum erum við að stuðla að heilbrigði þeirra sem endist þeim að eilífu.
Í dag alast börn upp við mikið áreiti í samfélaginu, ólíkt því sem við þekkjum mörg hver úr okkar æsku. Flestir eru með snjallsíma og tölvan er sjaldan langt undan. Allt þetta áreiti elur á streitu meðal barna. Andstæðan við streitu er friðsæld og hugarró, sem fæst einmitt með því að minnka áreitið í umhverfinu og er náttúran kjörin staður til þess.
Við getum einnig aukið ánægju og gleði með því að taka virkan þátt í upplifun barnanna og tileinka okkur þakklæti fyrir þær stundir sem við eigum með þeim. Börn eru sérfræðingar í að njóta augnabliksins og við getum auðveldlega lært af þeim hvernig á að njóta líðandi stundar, ef við höfum gleymt því.
Flestir vinna langan vinnudag og því verður sá tími sem við eigum með börnunum mjög dýrmætur og mikilvægt að nýta hann vel.
Það er einnig gott að minna sig á að það er ekki nóg að vera á staðnum heldur þarf maður einnig að vera til staðar fyrir barnið. Það er líka ákveðið frelsi sem felst í því að slökkva á símanum eða að ákveða tölvu- og símalausan dag, til dæmis símalausan sunnudag. Við setjum okkur fullt af tilbúnum skyldum, eins og húsverk, svara tölvupóstum, en það er gott að minna sig á að snjalltækin og þessi svokölluð skylduverk geta beðið á meðan æska barnsins gerir það ekki.
Það er máltæki sem segir “Vinnan bíður á meðan þú sýnir barninu þínu regnbogann, en regnboginn mun ekki bíða á meðan þú vinnur” sem er einmitt mjög lýsandi fyrir það hve hratt þessi tími líður sem við fáum með börnunum. Viljum við skoða regnbogann með barninu eða klára verkefni sem getur beðið?
Það er margt sem fjölskyldan getur gert saman í sumar. Stutt er í falleg útivistarsvæði þar sem allir geta notið sín í náttúrunni, tekið með nesti og einfaldlega notið þess að vera saman. Á Íslandi er ekki alltaf hægt að treysta á góða veðrið. Það þarf þó engum að leiðast þó veðrið sé ekki gott því maður klæðir sig bara eftir veðri og lætur það ekki spilla ánægjunni. Enda er það þannig að veðrið er yfirleitt betra þegar út er komið.
Til að fá sem mest út úr fríinu hjálpar að setja niður á dagatal það sem fjölskyldan ætlar að gera saman.
Njótið sumarsins!
Höfundar greinar:
Lára Guðrún Sigurðardóttir, læknir og Sigríður Arna Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur
Birt með leyfi úr blaði SÍBS