Í starfrænni líkamsþjálfun eru vöðvarnir þjálfaðir til þess að vinna saman og undirbúa fyrir daglegar athafnir. Þjálfunin felst í því að líkja eftir algengum hreyfingum sem við gerum heima, í vinnunni eða í íþróttum. Mismunandi vöðvar í efri og neðri hluta líkamans eru notaðir samtímis auk þess sem lögð er áhersla á stöðugleika um miðju líkamans sem er mikilvægt bæði fyrir styrk og jafnvægi.
Þessi þjálfunarmáti rekur uppruna sinn til endurhæfingar á sjúklingum, sem eiga erfitt með hreyfingar, en sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar hafa gjarnan stuðst við aðferðir af þessum toga. Tilgangurinn er að tengja saman sértæka þjálfun við daglegar athafnir nákvæmlega á þann hátt sem hver og einn þarf mest á að halda með það að markmiði að viðkomandi geti orðið sjálfbjarga.
Starfræn líkamsþjálfun byggist iðulega á æfingum fyrir marga liði og vöðva í senn, t.a.m. að hreyfa axlir, hrygg, mjaðmir, hné og ökkla en ekki einungis axlirnar eða hrygginn o.s.frv.
Öll starfræn líkamsþjálfun fyrir eldra fólk ætti að vera sérsniðin að hverjum og einum eftir nákvæma skoðun á líkamsástandi með það að markmiðið að auðvelda athafnir daglegs lífs, bæta jafnvægi, snerpu og vöðvastyrk minnka hættuna á byltum og auka lífsgæði.
Heimild: beinvernd.is