„Næringin og mataræðið í heild sinni skiptir miklu máli, hvort sem við æfum til að bæta árangur okkar eða heilsuna. Næringin kemur einnig inn á aðra þætti sem snúa að andlegri vellíðan og jafnvægi í daglegum lífsháttum. Góð, hentug og hæfileg þjálfun er annað lykilatriði sem og hvíld og andlegt jafnvægi. Allt þetta stuðlar að góðri heilsu og vellíðan,“ segir Fríða Rún, en hún vill þó ekki meina að einn þáttur sé stærri en annar, hún trúir því að næring, þjálfun og hugafar skipti allt miklu máli.
Nú styttist í Reykjavíkurmaraþonið, eitt stærsta hlaup sumarsins. Aðspurð um hvað hlauparar ættu að hafa í huga varðandi mataræði eftir því sem nær dregur hlaupi segir Fríða Rún skipta máli að halda góðu jafnvægi í vökvaneyslu, kolvetna-, prótein- og fituneyslu og miða það við þörf. „Einnig er mikilvægt að hlusta á líkamann, hvort hann þarf orku eða jafnvel bara hvíld. Gott er að hugsa með sér: Hvað er ég að fara að gera næst og hvar verð ég? Ef þú ert að fara á hlaupaæfingu eða í ræktina klukkan fjögur þarftu að borða klukkan tvö til að hafa orku til að komast í gegnum æfinguna en ekki síst til að njóta hennar. Það er ömurlegt að mæta á æfingu og vera alveg orkulaus.“
Fríða Rún segir að eftir því sem nær dregur hlaupdegi þurfi að hvíla sig frá æfingum og borða meira af kolvetnum. „Eftir því sem við ætlum að hlaupa lengra þeim mun meiri viðbótarorku þurfum við að hlaða okkur upp með. Ef við ætlum 10 kílómetra þá þurfum við ekki að hlaða okkur sértaklega upp af kolvetnum en við þurfum samt að borða skynsamlega og að halda áfram að borða kolvetnaríka fæðu. Fyrir hálft maraþon þarf ekki að hlaða svo mikið upp en allt í lagi að hafa það aðeins bak við eyrað síðustu tvo dagana.“ Fyrir maraþon þarf hins vegar að hlaða upp kolvetni minnst síðustu fimm dagana fyrir. „Best er að auka kolvetnin jafnt og þétt síðustu vikuna fyrir hlaup,“ segir Fríða Rún. Auk þess skiptir máli að huga að hvíld og vökvajafnvægi dagana fyrir hlaup og á það við um allar vegalengdir. „Hægt er að fylgjast með því hvort nóg sé drukkið með því að fylgjast með litnum á þvaginu og drekka jafnt og þétt yfir daginn þannig að þvagið sé ljósleitt á litinn, eins og dauflitað sítrónuvatn.“
Fríða Rún segir það afar ánægjulegt að sjá hversu margir eru farnir að hreyfa sig en ekki síst hversu margir eru farnir að gera það að lífsstíl. Hún ráðleggur þeim sem ætla að taka þátt í maraþoninu í ágúst að hafa skynsemina í fyrirrúmi. „Ekki fara af stað í hálft og heilt maraþon nema vera tilbúin í það og hafa lagt að baki þá þjálfun og þá kílómetra sem til þarf. Margir geta komist hálft og heilt maraþon en það er ekkert sniðugt að fara vegalengdina á mörgum klukkustundum og vera kannski ekki göngufær í marga dag á eftir.“ Fríða Rún mælir frekar með því að fara styttri vegalengdir hraðar. „Þá þarf hratt ekki endilega að vera hratt miðað við þá allra fljótustu heldur okkur sjálf. Horfa á okkar eigin þjálfunarástand og getu. Við eigum mis góða daga og það hvernig tekst að stilla af tempóið og spennustig hugans á hlaupdegi skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að loka tímanum þegar stigið er yfir marklínuna.
Fríða Rún Þórðardóttir sameinar störf sín og áhugamál í gegnum hlaup og næringu. Í fyrra gaf hún út bókina Góð næring – betri árangur þar sem er að finna upplýsingar fyrir þá sem vilja auka næringartengda þekkingu sína, óháð því hvaða íþróttagrein þeir stunda og á hvaða stigi.