Ánægjuleg gönguferð getur þó snúist upp í andhverfu sína sé ekki tiltekinna grundvallaratriða gætt. Flestir þekkja þau en hér verða nokkur rakin:
Fólk verður að velja byrðar eftir getu. Fæstir ættu að bera meira en 15 kíló í bakpoka sé um nokkurra daga göngu að ræða.
Ein af helstu hættum sem fylgja dvöl á fjöllum er eldur og gas. Miklu máli skiptir að fólk leggist aldrei til svefns, hvort sem það er í tjaldi eða skála, með logandi gaslampa og gæti þess alltaf að gluggi sé opinn í skála að næturlægi jafnvel þó veður sé vont.
Sjúkrakassi þarf ekki að vera íþyngjandi en skynsamlegt er að hafa með teygjubindi, plástra, verkjatöflur (asperín, para etamól), sólarvörn (ekki hvað síst fyrir þá sem ætla að ganga á jöklum eða snjó). Mjög nauðsynlegt er að taka með gervihúð til að verjast blöðrumyndun eða meðhöndla blöðrur. Slíkur útbúnaður getur skipt sköpum fyrir vel heppnaða gögnuferð. Fólk þarf að muna eftir þeim lyfjum sem það þarf að taka reglubundið.
Ekki þarf að minna á að áttaviti þarf að vera með í för, nauðsynlegt er að minnsta kosti einn leiðangursmanna kunni á hann. Hið sama gildir um GPS-tæki. Ástæðulaust er fyrir fólk að fara á fjöll nú á dögum án þess, en að sjálfsögðu þarf að kunna á það líka. Skynsamlegt er að að minnsta kosti einn í hópnum hafi neyðarblys meðferðis.
Ekki þarf að minna á nauðsyn góðs hlífðarfatnaðar. Ein af helstu ástæðum fyrir því að fólk verður úti á Íslandi er bleyta og vosbúð.
Gönguferðir í íslenskri náttúru eru á flestra færi. Með lítilsháttar fyrirhyggju eru þær alltaf sálarbætandi og lífsauðgandi í hvaða veðri sem er.
Höfundur: Sigurður Guðmundsson
Heimild: doktor.is