Það er að koma haust og inn um bréfalúgur landsmanna streyma upplýsingar um hin ýmsu tilboð í líkamsrækt. Ekki veitir af að hvetja landsmenn til að gera eitthvað í sínum málum. Ef bornar eru saman tölur frá Íslandi við hin norðurlöndin kemur í ljós að við stöndum frændum okkar töluvert að baki þegar kemur að reglulegri líkamsrækt.
Allir þurfa einhverja hreyfingu og á enski frasinn „use it or lose it“ ótrúlega vel við þegar horft er til heilbrigðis líkamans. Regluleg hreyfing ætti því að vera hluti af daglegri rútínu allra. Mikill fjöldi af líkamsræktarmöguleikum er í boði og mikilvægt að fólk gefi sér góðan tíma til að finna hreyfingu sem hentar þeim. Áður en farið er yfir hvaða þætti þarf að hafa í huga við val á hreyfingu skulum við renna yfir hvaða áhrif regluleg hreyfing hefur á
fólk. Skipta má æfingum upp í þolþjálfun og styrktarþjálfun. Langflest þjálfunarform eru blanda af þessu tvennu en hvorum megin áherslan er hefur áhrif á hvar helsti ávinningurinn verður. Almenn áhrif líkamsþjálfunar eru að vöðvamassi og vöðvastyrkur eykst, úthald batnar, hjartsláttartíðni í þjálfun lækkar og súrefnisupptaka við þjálfun eykst þar sem vöðvarnir nýta betur það súrefni sem til þeirra berst. Styrkur beina og liðbanda eykst og hlutfall vöðva miðað við fitu verður hagstæðara. Regluleg líkamsþjálfun hefur svo jákvæð áhrif á fjölmarga áhættuþætti hjartasjúkdóma, svo sem háan blóðþrýsting, háa blóðfitu, offitu og minnkar líkur á lífsstíltengdum sjúkdómum á borð við sykursýki af tegund 2 og sumum tegundum krabbameina.
Líkamsþjálfun hefur mikil andleg áhrif
Auk þessa beina líkamlega ávinnings stuðlar regluleg hreyfing að ýmsum öðrum jákvæðum áhrifum. Líkamsþjálfun getur þannig hjálpað til við að bæta svefn á þann veg að þeir sem æfa eru líkamlega þreyttir og eiga þannig auðveldara með að sofna á kvöldin, auk þess sem syfja yfir daginn minnkar. Margar rannsóknir sýna líka að líkamsþjálfun hefur heilmikil andleg áhrif. Regluleg hreyfing getur því hjálpað fólki í baráttu við bæði þunglyndi og streitu. Í Svíþjóð eru svonefndir hreyfiseðlar orðnir fyrsta „ávísun“ hjá læknum við mildu og miðlungs þunglyndi og er þessi meðferð tekin fram yfir þunglyndislyf. Í Heilsuborg er boðið upp á þjálfun skv. hreyfiseðli við þunglyndi á námskeiðinu Hugarlausnir. Hvað streituna varðar þá hafa rannsóknir líka sýnt að þjálfaðir einstaklingar bregðast á dempaðri hátt við streitu en þeir sem eru í slæmri þjálfun, þeir upplifa færri streituvekjandi atburði yfir daginn og upplifa síður streitu þá daga sem þeir æfa.
Ekki gefast upp of fljótt
Þegar allur þessi ávinningur er hafður í huga hljóta margir að velta fyrir sér hvaða þjálfun hentar þeim. Svarið við því er ekki einfalt. Mikið framboð er af líkamsrækt og um að gera að vanda valið. Fyrsta atriðið sem þú ættir að hugsa út í er að velja eitthvað sem þér finnst skemmtilegt að gera. Ef ferðin í ræktina er eitthvað sem höfðar ekki til þín eru litlar líkur til að þú endist þar. Hluti af ánægjunni kemur fram þegar fólk fer að finna á eigin skinni árangur erfiðisins. Það er því mikilvægt að fólk sem er að byrja gefist ekki upp of fljótt. Það er alltaf átak að fara af stað og fyrst á eftir má alveg búast við að vera svolítið lúinn. Þetta tímabil þarf að komast í gegnum.
Aðstoð við að setja upp æfingaáætlun
Annað sem huga þarf að er hvort hentar að æfa í hópi eða æfa einn. Mörgum finnst kostur að æfa í hópi. Ákveðið aðhald er fólgið í því að æfa á föstum tímum og félagsskapur í kringum tímana getur einnig virkað sem heilmikill hvati. Aðrir velja að æfa einir. Kostir þess eru meiri sveigjanleiki í tímasetningum og margir kunna vel við að puða einir. Í Heilsuborg er hægt að gera hvort tveggja. Boðið er upp á fjölmörg námskeið með ýmsum áherslum. Bæði eru námskeið fyrir almenning en einnig eru svokölluð lausnanámskeið sem hugsuð eru fyrir fólk með undirliggjandi heilsufarsvandamál og þurfa aðeins meiri stuðning frá fagmönnum. Þeir sem vilja æfa einir geta svo keypt sér kort að tækjasalnum en hann er mjög vel tækjum búinn. Auk hefðbundinna þol- og styrktarþjálfunartækja er boðið upp á æfingahring sem er sérstaklega hugsaður fyrir fólk sem er að byrja að æfa og er óöruggt í tækjum. Þessi æfingahringur er kallaður Easy line hringur og í honum fer erfiðleiki æfinganna einungis eftir hraðanum sem æfingarnar eru framkvæmdar á. Það eru engar aðrar stillingar og tímalengd æfinganna fer eftir ljósum á veggnum. Í Heilsuborg er hægt að fá leiðbeiningar hjá íþróttafræðingum eða sjúkraþjálfurum við að setja upp æfingaáætlun.
Óskar Jón Helgason, sjúkraþjálfari og þróunarstjóri Heilsuborgar