Hér kemur hornsteinninn að heilbrigðum lífsstíl eins og við leggjum upp í Heilsuborg.
Regla í daglegu lífi. Í grunnin má segja að heilbrigt líf snúist um reglu í daglegu lífi. Að skoða sjálf okkur, taka ábyrgð á heilsunni og finna að við erum við stjórnvölinn í okkar lífi.
Mataræði. Þar er regla máltíða og tímasetning þeirra mjög mikilvæg. Borða ávalt morgunmat, hádegismat og kvöldmat auk 2-3 millibita. Huga þarf að innihaldinu og gæta þess að við fáum nauðsynlega næringu úr fjölbreyttu fæði. Því minna sem matvælin eru unnin því betra. Magn þarf að vera við hæfi. Hægt er að fá aðstoð til að reikna út orkuþörf. Líkaminn er gerður til að lifa af hungursneyð en ekki ofgnótt og því þurfum við að gæta okkar í nútíma samfélagi og skoða hvernig við umgöngumst mat.
Hreyfing. Líkami okkar gerður til að hreyfast. Hreyfing hefur áhrif á andlega sem líkamlega líðan. Mikilvægt að finna hreyfingu við hæfi og vera minnugur þess að hvert skref telur. Það er aldrei of seint að byrja en ráðlegt er að fara hægt af stað í upphafi.
Svefn. Góður svefn er gulls ígildi. Heilbrigðar svefnvenjur skipta miklu og þar sem annarstaðar þarf að gæta að reglu. Það sem við höfumst að á daginn hefur áhrif á svefninn og því mikilvægt að byrja á að laga daglegar venjur.
Andleg líðan. Góð andleg líðan er grunnur þess að við náum árangri með önnur verkefni og finnum jafnvægi í daglegu lífi. Til þess þurfum við að tileinka okkur jákvætt hugarfar. Við þurfum að finna innri sátt og byggja upp sterka sjálfsmynd. Mikilvægt er eiga góð samskipti við fjölskyldu og samstarfsfólk, lágmarka streitu og ytra áreiti og vinna úr áföllum sem kunna að hafa hent okkur á lífsleiðinni.
Reykleysi og hófleg notkun áfengis er mikilvæg forsenda þess að við höldum góðri heilsu.
Vera sem næst kjörþyngd. Offituvandinn fer hratt vaxandi. Fjölmargir sjúkdómar fylgja offitunni auk hættu á andlegri vanlíðan og félagslegrar einangrunar. Hægt er að ná miklum árangri í baráttunni við offitu með því að breyta lífsstílnum til batnaðar og hér gildir sem fyrr að forvarnir eru besta leiðin. Snemmtæk íhlutun á vandanum sú næst besta en þó er aldrei of seint að leita sér aðstoðar.
Nokkarar forsendur þarf til þess að breytingar á lífsháttum takist hvort sem við erum að kljást við reykingar, offitu eða annað mein sem ógnar heilsunni. Hver einstaklingur þarf að viðurkenna sinn vanda og í kjölfarið gera sér grein fyrir hverju þarf að breyta. Grunnforsendan er síðan sú að VILJA BREYTA. Því næst þarf að huga að aðstæðum til að geta breytt því sem þarf að breyta og fá til þess aðstoð.
Erla Gerður Sveinsdóttir
Læknir
Framkvæmdastjóri lækninga- og ráðgjafasviðs Heilsuborgar
heilsuborg.is