Fara í efni

Hvernig komum við hreyfingu í haustrútínuna?

Hvernig komum við hreyfingu í haustrútínuna?

Nú er haustið að skella á og
rútínan að taka við af sumrinu.
Bugun í bland við tilhlökkun
við að fá fastari dagskrá og taka
allt í fimmta gír. Flestir fara að
forgangsraða skipulagðri
hreyfingu aftur og byrja að æfa
af krafti í september. Hver tengir
ekki við að byrja á fullu að æfa
en missa tökin þegar líður á
haustið? Og hvernig er þá best
að byrja aftur að hreyfa sig og ná
að halda dampi næstu vikurnar?

 

Skipuleggjum æfingar
Best er að byrja á einni til tveimur skipulögðum æfingum í viku og líta á allt annað sem plús.
Það hafa fæstir tíma til að æfa eins og atvinnumenn. Veljum tíma og staðsetningu út frá því
sem passar inn í dagskránna okkar svo það sé auðvelt að taka æfinguna.
Gott er að hafa æfinguna á þeim tíma sem við erum spenntust fyrir henni og í nálægð við
heimili eða vinnu svo auðvelt sé að komast á staðinn. Þannig forðumst við U beygjuna á
leið úr vinnu í ræktina og förum heim í sófann því við erum orðin þreytt eftir vinnudaginn.
Höfum einnig í huga að æfing þarf ekki að vera heil klukkustund af löðrandi svita og
harðsperrum, hún má vera tíu eða tuttugu mínútna göngutúr í náttúrunni fyrstu vikurnar.

Ekki fara of geyst
Þegar við byrjum of geyst í hreyfingu, hvort sem það eru of margar æfingar í viku eða
hver æfing er af of mikillri ákefð því við ætlum að koma okkur í form helst í gær, dregur
oft úr kraftinum og það fer að vera erfitt að halda dampi og mæta á æfingu. Við erum
kannski lengi að jafna okkur eftir æfingu því við gerðum of mikið á æfingunni og þá
verður erfitt að mæta á næstu eða við náum ekki að halda æfingafjöldanum sem við
settum okkur í vikunni og það fer að verða erfitt að koma æfingum fyrir í annars þéttri
dagskrá haustsins. Æfingarnar fara að hafa meiri neikvæð áhrif á okkur en jákvæð,
þær trufla allt annað og okkur líður illa eftir þær og falla því eðlilega úr forgangi.

Forvarnarvinna
Í forvarnarvinnu gegn meiðslum er álagsstýring einn veigamesti þátturinn. Ómeidd getum
við æft meira og getum þannig bætt frammistöðu og líðan. Að byrja rólega og bæta svo í
æfingar jafnt og þétt getur því líka dregið úr líkum á því að gömul eða ný meiðsli taki sig
upp og auðveldara verður að halda dampi langt fram á haustið. Upplifunin af hreyfingunni
verður ánægjulegri og meiðsli eru ekki lengur að stoppa okkur.

Byrja rólega
Byrjum rólega, bæði á fjölda æfinga og ákefð á æfingunni sjálfri. Stillum upp æfingum með
tilliti til þeirrar dagskrá sem skellur á okkur á haustin og vinnum okkur upp í ákefð og fjölda
æfinga á viku jafnt og þétt. Það margborgar sig og gerir okkur kleift að líða vel og halda
hreyfingunni áfram.

Valgerður Tryggvadóttir 

VIVUS Þjálfun á Facebook 

Vivusthjalfun  á Instagram