Það má þó alveg velta því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt að skipta hópum upp eftir kyni strax í yngstu flokkum og hvaða áhrif þessi kynjaskipting hefur á félagslega mótun iðkenda.
Hjá Skautafélagi Akureyrar er þessi skipting ekki eins formföst og í öðrum íþróttafélögum. Þar æfa stelpur og strákar saman frá fjögurra ára aldri og upp í 14 ára. Þá fyrst fá stelpurnar val um hvort þær vilja halda áfram að æfa með strákunum eða fara í kvennaflokk. Þær hafa alltaf möguleika á því að æfa með báðum flokkum. Þessi leið var upphaflega ekki bara okkar val heldur var þetta okkur nauðsynlegt vegna þess hversu iðkendur voru fair. Lengi vel náðist ekki nægilega mikill fjöldi í hverjum flokki til þess að halda úti liði. Eina leiðin var að hafa kynin saman. Síðustu ár hefur iðkendum fjölgað mikið, sérstaklega í kvennaflokki. Nú getum við með góðu móti haft kynin aðskilin. En af hverju kjósum við að hafa þau enn saman?
Reynsla okkar er sú að þegar börn spila saman óháð kyni þá læra þau sjálfkrafa að virða hæfileika og veikleika hvors annars. Við verðum mjög sjaldan vör við að vandamál komi upp á milli kynjanna. Þar keppir enginn innbyrgðis eða ber sig saman við aðra. Ástæðan er sú að iðkendurnir hafa alist upp við keppni við hitt kynið frá unga aldri.
Það koma jú upp vandamál rétt eins og í öðrum hópum. Tækifæri felast í þeim því við nýtum vandamálin til þess að kenna börnunum rétta hegðun og viðhorf.
Það heyrist oft að strákar eigi erfitt með að sætta sig við að tapa fyrir stelpum. Þetta viðmót er nánast ekki til í hugarheimi drengjanna okkar sem virða stelpurnar og finnst ekkert óeðlilegt við það að tapa fyrir stelpum. Strákarnir þekkja það líka vel að stelpur eru oft betri en strákarnir. Það sama má segja um stelpurnar, sem gefa strákunum ekkert eftir og spila fullar sjálfstrausts hvort sem þær keppa við stráka eða stelpur. Þegar valmöguleikinn kemur við 14 ára aldur þá kjósa langflestar stelpur að halda áfram að spila með strákum. Sumar hætta því ekki fyrr en þær eru komnar í meistaraflokk.
Reglur kveða á um að stelpur mega ekki spila með strákum í meistaraflokki í hokkí þótt undantekningar hafi verið gerðar. Þó eru alltaf einhverjar stelpur sem verða feimnar á kynþroskaaldri feimnar við að keppa við stráka. Þegar slík mál koma upp er farsælla að færa sig yfir í kynjaskiptan flokk. Þess vegna miðum við kynjaskiptinguna við 14 ára aldurinn. Það hefur reynst vel.
Við gerum okkur grein fyrir því að með fjölgun iðkenda þá getum við orðið nauðbeygð til þess að skipta upp kynjunum fyrr. Miðað við okkar reynslu af þessu fyrirkomulagi hingað til þá verður það erfitt val. Líklega munum við berjast gegn því í lengstu lög að blanda kynjunum saman í yngstu flokkum því félagslegi ávinningurinn af því fyrir heildina er mikill. Því viljum við ekki fórna.
Af vefsíðu sinumkarakter.is