Í janúarmánuði er varla þverfótað fyrir auglýsingum, fréttaefni, fésbókarstöðum eða öðrum miðlum sem minna á eitt algengasta áramótaheitið – loforð um heilsusamlegra líferni. Þegar talað er um heilsu er vert að minna sig á hvað heilsa í raun og veru þýðir. Því heilsa er annað og meira en holllur matur og líkamsrækt. Heilsa felur nefnilega í sér allt í senn andlega, líkamlega og félagslega heilsu!
Heilbrigð sjálfsmynd.
Hvað þýðir það? Jú, fyrst af öllu ætti að huga að heilbrigðri sjálfsmynd og að byggja sjálfan sig og umhverfið upp á jákvæðan hátt. Ef við erum ekki sátt við sjálf okkur og höfum ekki trú á getu okkar til breytinga er lítið á loforðunum að græða. Þegar sjálfsmyndin reynist í lagi er mun auðveldara að ná framfaraskrefum og bætingu. Jafnframt er mikilvægt að hafa skilning og bera virðingu fyrir eigin tilfinningum og annarra.
Hættum því að skamma okkur sjálf fyrir það sem ekki er 100%, það er fullkomlega eðlilegt að dagamunur sé á því hvernig við borðum, hreyfum okkur, sofum og lifum og hrærumst almennt. Kíló til eða frá eða ímynd um fullkominn lífsstíl er ekki uppskrift að heilsu, hamingju og vellíðan.
Setjum okkur því raunhæf markmið sem ná má með reglulegum en smáum skrefum og byrjum á að hrósa okkur sjálfum og öðrum reglulega fyrir hvert unnið skref.
Veldu heilsurækt sem hentar
Fyrir þá sem eru að koma sér af stað skiptir miklu máli að finna þá tegund hreyfingar sem hentar bæði líkama og lund. Ef hreyfingin er ekki svolítið skemmtileg og hvetjandi er ólíklegt að maður endist árið, jafnvel ekki út janúar.
Mundu að borða
Mörgum hættir til að borða of lítið þegar farið er af stað, meðal annars til að flýta fyrir árangri á vigtinni. Það er hins vegar skammgóður vermir því hætta er á að með kílóunum fjúki ekki bara fita, heldur vöðvar og vökvi. Eftir stendur maður með minni líkamlega getu og þreytu. Fæðið má ekki heldur vera of einhæft, til að ná góðum árangri þarf fjölbreytt fæði úr öllum fæðuflokkum og bæði þarf kolvetni og prótein til að stuðla að uppbyggingu og endurheimt.
Aldrei út án morgunmatarins
Fjöldi rannsókna hefur sýnt að athygli og afköst við leik og störf eru betri ef maður fær sér morgunmat. Þyngdarstjórnun virðist líka ganga betur hjá þeim sem fá sér bita í morgunsárið. Ef beðið er með að borða þar til svengdin er orðin mikil er mun meiri hætta á að maður freistist í sætindi og aðra skjótfengna orku til að halda sér gangandi eða borði yfir sig þegar loksins gefst tími fyrir mat.
Dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent í næringarfræði, Menntavísindasviði HÍ og hóptímaleiðbeinandi í World Class.