Stafgangan er upprunnin í Finnlandi en upphaflega var það hópur gönguskíðamanna sem notfærðu sér þessa frábæru og allhliða þjálfun til að halda sér í góðu formi yfir sumartímann. Stafgangan breiddist síðan yfir til Svíþjóðar og Noregs en frá þaðan barst íþróttagreinin til Íslands.
Að auki hefur stafganga átt miklum vinsældum að fagna í norðanverðri Evrópu svo og í Ameríku og Asíu. Norðmenn byrjuð á að kynna stafgöngu sem hentuga líkamsrækt fyrir 55 ára og eldri. Þeir hurfu þó fljótt frá því vegna þess að strax í upphafi kom í ljós að stafgangan er góð íþrótt fyrir alla. Allir geta stundað stafgöngu hvar og hvenær sem er óháð aldri. Á Íslandi má þó segja að eldri kynslóðin og þá sérstaklega konur, séu stærsti hópurinn sem stundar stafgöngu að staðaldri. Eldri einstaklingar geta þó haft sérstakan hag af stafgöngunni umfram aðrar hreyfingu þar sem stafirnir veita stuðning og öryggiskennd fyrir þá sem eiga við jafnvægisleysi eða skert jafnvægisskyn að stríða.
Stafgöngutæknin:
Í stafgöngu eru hendurnar og efri hluti líkamans notuð mun meira og markvissar en á venjulegri göngu og því styrkjast upphandleggsvöðvar og brjóstvöðvar meira. Stafgangan eykur einnig blóðflæði um axlir og háls þannig að þeir sem eru mjög slæmir af vöðvabólgu ættu að geta fengið verulega bót meina sinna með því að stunda þessa íþróttagrein.
Búnaðurinn:
Stafirnir sem notaðir eru í stafgöngu eru líkir venjulegum skíðagöngustöfum en handfangið, ólarnar og oddurinn eru mjög frábrugðnir en góðir stafir eru raun eini sérstaki búnaðurinn sem þarf til að stunda stafgöngu. Handfangið er lagað að hendinni þannig að það kemur vel upp í lófann. Ólar eru festar við stafina sem falla þétt utan um úlnliðinn. Skaftið er úr trefjaefni sem er mjög sterkt og þolir mikið álag en er samt ákaflega létt. Neðst á stafnum er oddur sem stinga má í jörðina þegar gengið er utan vega en einnig fylgir gúmmíhosa til að setja yfir hann þegar göngumaðurinn kemur á malbik eða steinsteypu.
Stafirnir eru séraðlagaðir að þessari tegund af göngu og eru þannig útbúnir að hægt er að endurnýja bæði skaftið og oddinn þegar á þarf að halda. Á markaðnum eru til tvískiptir stafir sem hægt er að skrúfa og færa til en það er ekki mælt með því að þeir séu notaðir í stafgöngu vegna þess að um leið og handfangið þrýstist upp í hendurnar og við förum að ýta á móti þá vilja þeir falla saman. Stafir sem henta í stafgöngu eru í stöðugri þróun og alltaf að koma nýjungar líkt og í öðrum íþróttagreinum.
Stafgöngustafir verða að vera af réttri lengd. Ef stafirnir eru of langir er hætt á því að herðar og háls stífni upp. Grunnreglan sem notuð er til að finna út hæfilega stafalengd er að margfalda hæð þína með 0,6 - 0,7. Betra er að velja styttri stafi en of langa.
Þess þarf að gæta að úlnliður vísi ekki upp þegar tekið er um handfangið og að axlir séu slakar. Góð regla er að hafa höndina í um það bil 90° þegar haldið eru um handfangið, þá er stafurinn að réttri hæð fyrir viðkomandi.
Áhrif á líkamann:
Gerðar hafa verið rannsóknir á kostum stafgöngunnar og áhrifa hennar á þrek og líkamann í heild sinni. Þeir sem að rannsóknunum stóðu greina frá því að ef að rétt tækni er notuð við gönguna á að vera mögulegt að auka hjartsláttartíðnina að meðaltali um 5-16 slög á mínútu sem er aukning um allt að 16%. Áætluð aukning í styrk fyrir efri hluta líkamans getur farið upp í 40% með réttri tækni. Að auki brennir meðalmaður 20% meiru en á venjulegri göngu.
Stafganga er því góð hreyfing fyrir alla aldurshópa, karla og konur. Með henni færst allhlíða þjálfun fyrir allan líkamann svo og góð útivera og fjölbreytt undirlag.
Guðný Aradóttir, stafgönguþjálfari og einkaþjálfari.