“Engin veit sína ævi fyrr en allur” segir einhvers staðar. Þetta á svona sannarlega við mig hvað íþróttaiðkun varðar. Ég hefði bara hlegið ef einhver hefði sagt við mig um sumarið 2007 að eftir sjö ár myndi ég keppa á heimsmeistaramótinu í Járnkarlinum (e. Ironman) og þjálfa margt fólk til keppni í þeirri íþróttagrein, sem og styttri þríþrautum og hjólakeppnum.
Það má með sanni segja að þetta hafi byrjað með verkefninu Astmamaraþon 2008 sem Astma- og ofnæmisfélag Íslands stóð fyrir í samvinnu við Astra Zeneca. Ég, þá 35 ára gamall, sá auglýsingu í Fréttablaðinu í október 2007 þar sem óskað var eftir fólki með astma til að taka þátt í verkefninu. Verkefnið gekk út á að fólk notaði lyfin sín rétt samhliða því að hlaupa hálft eða heilt maraþon í ágúst 2008 eftir 10 mánaða undirbúning. Nokkrir helstu sérfræðingar landsins á sínu sviði voru fengnir til að stýra undirbúningnum: Bjarnfríður Guðmundsdóttir var verkefnastjóri, Fríða Rún Þórðardóttir sá um þjálfun og mataræði, Björn Rúnar Lúðvíksson og Magni Jónsson voru læknar verkefnisins. Þetta var skemmtilegt verkefni og mjög vel að því staðið. Þátttakendur voru margir og ég held að flestir hafi haft mikið gagn af þessari upplifun.
Sá grunnur sem ég hafði í íþróttum fram að þessu var ekki mikill. Ég hjólaði auðvitað sem barn og lék mér í fótbolta og öðrum leikjum en æfði aldrei neitt lengur en í nokkrar vikur í mesta lagi, fyrir utan um það bil tvö ár á unglingsárunum þegar ég æfði júdó. Þegar ég var um 18 ára fékk ég áreynsluastma og hætti í kjölfarið að stunda júdó. Svo byrjaði ég aðeins að skokka á árunum 2003 til 2004, þó með litlum árangri því ég fékk verki í annað hnéið auk þess sem astminn var mikið að trufla mig. Við félagarnir í vinnunni byrjuðum hins vegar að stunda vikulegt sjósund um haustið 2004 og höfum haldið því óslitið síðan.
Nú, ég kláraði þrjú maraþon árið 2008 ásamt Laugavegshlaupinu og skráði mig til leiks í Stokkhólmsmaraþon árið 2009. Hlaupið gekk erfiðlega vegna mikils hita á keppnisdag auk þess sem ég var með ítrekuð vandamál í hásinum, bæði fyrir og eftir maraþonið. Þá, um sumarið, byrjaði ég að synda lítillega til að liðka kálfana og æfði með Garpahópi sunddeildar Breiðabliks því mig langaði einnig að bæta sundtæknina fyrir sjósundið. Æfingarnar voru virkilega skemmtilegar, áttu vel við mig og reyndust hjálpa önduninni.
Um vorið 2010 keppti ég á Íslandsmótinu í Garpasundi og einnig í fyrstu þríþrautinni sem var sprettþraut í Kópavogi. Mér gekk sæmilega og fannst alveg hrikalega skemmtilegt.
Ég ákvað því að byrja einnig að æfa hjólreiðar um haustið með hjólafélaginu Hjólamönnum. Í kjölfarið var ég kominn á fullt í þríþrautinni og æfði allar þrjár greinarnar en lagði þó áherslu á hjól. Síðar var ég beðinn að taka að mér þjálfun Hjólamanna um haustið 2011 og ákvað á sama tíma að skrá mig í Járnkarlinn í Regensburg 2012. Járnkarlinn er þríþraut sem saman stendur af 3860 metra sundi, 180km hjóli og 42,2km hlaupi. Fyrsta keppnin í Járnkarli, sem jafnframt var fyrsta þríþrautin, var haldin árið 1978 á Hawaii. Þríþraut varð svo viðurkennd sem íþróttagrein á Ólympíuleikunum árið 2000.
Keppnin í Regensburg gekk vel og náði ég tímanum 10:16.43. Árið 2013 keppti ég í Challenge Roth sem er fjölmennasta keppnin í þessum bransa, með 5000 keppendur. Um áramótin 2013/2014 vildi stór hópur í þríþrautarfélaginu mínu, Þríkó, skrá sig til leiks í Járnkarlinn í Kalmar í Svíþjóð sem fram fór 16. ágúst 2014 en þangað fórum við, samtals 13 frá Íslandi. .Ég fór aðsjálfsögðu með enda var ég þjálfari hópsins. Ég fór að skoða hvar ég myndi standa í keppninni ef allt gengi upp og taldi mig eiga möguleika að ná lágmarki inn á heimsmeistaramótið í Járnkarli á Hawaii í október. Það er töluvert afrek að komast inn á mótið og draumur margra. Til að komast inn þarf maður að vera í einu af efstu sætunum í öðrum Járnkarls keppnum en þau sæti fylla gjarnan fyrrverandi afreksíþróttamenn. Í keppninni í Svíþjóð voru aðeins sjö sæti í boði í mínum aldursflokki, karlar 40-44, en sá flokkur er alltaf stærstur í öllum Járnkarls mótum. Í mínu tilfelli voru 466 keppendur um sætin sjö. Ég taldi um 50% líkur á því að ná 6.-7. sæti, sem mér fannst góður árangur hjá manni með astma sem byrjaði að æfa um 35 ára aldur. Keppnin í Svíþjóð gekk ákaflega vel og var ég fyrstur allra keppenda af hjólinu fyrir utan 13 keppendur sem hafa atvinnu af þríþraut. Þá endaði ég í þriðja sæti í aldursflokknum og 26. sæti í heildina af 2476 keppendum. Þátttaka á heimsmeistaramótinu var því orðin staðreynd.
Keppnin á Hawaii var mjög skemmtileg og stóð fyllilega undir væntingum. Aðstæður í ár þóttu erfiðar. Í sundinu eru öldur og straumar, auk þess eru blautbúningar bannaðir vegna vatnshita, á hjólinu er mikill vindur, hiti og raki ásamt því að brekkur eru tíðar. Hlaupið er nokkuð hæðótt og er mikill hiti og raki. Þá er lítið um hvatningu af háflu áhorfenda mestalla hjóla-og hlaupaleiðina en hvatning getur skipt verulegu máli í svona keppni. Mín markmið voru að klára keppnina með sæmilegri reisn og vera meðal efstu 25% keppenda í heildina og 50% í aldursflokknum. Ég stefndi á tímann 10:10:00. Allt gekk upp. Rauntíminn varð 10:09:21, 85. sæti í aldursflokki af 288 og 484. sæti í heild af 2187 keppendum. Fjölskyldan kom með mér til Hawaii sem var alveg frábært enda hefur hún staðið við bakið á mér í æfingunum sem geta auðvitað oft tekið sinn toll og haft áhrif á fjölskyldulífið.
Hvað tekur nú við, er óákveðið. Ég er með tugi manns í þjálfun og þar af hafa að minnsta kosti níu nú þegar skráð sig í Járnkarlinn á næsta ári. Í fyrra hjálpaði ég 18 manns að þjálfa sig fyrir þetta verkefni og náðu allir góðum árangri. Mér finnst mikilvægt að æfa í góðum hópi fólks þó að maður geri margar æfingarnar einn með sjálfum sér. Það má með sanni segja að verkefnið Astmamaraþon 2008 hafi breytt lífi mínu töluvert.