Núvitund stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan og gerir okkur kleift að takast betur á við áskoranir og viðfangsefni í lífinu samkvæmt niðurstöðum rannsókna um núvitund. Að vera vel meðvituð um það sem er að gerast á líðandi stundu um leið og það gerist, án þess að dæma það á nokkurn hátt, er náttúrulegur eiginleiki hugans.
Þessa aðferð ættu allir að prufa að nýta sér því hún hefur reynst mörgum vel til að bæta eigið líf. Hægt er að þjálfa sig á kerfisbundinn hátt í því að vera meira vakandi hér og nú, hafa fulla athygli. Núvitund er ekki markmið, því markmið snýst um framtíðina. Þú þarft að ákveða að taka vel eftir hvað ER AÐ GERAST NÚNA. Þegar þú lest þessi orð á skjánum getur þú fylgst með hvað þú ert að hugsa. Taka eftir andardrætti þínum, þú dregur inn andann og brjóstkassinn lyftist og ef þú notar djúpöndun lyftist maginn, þú finnur loftið fara inn og út gegnum nasirnar. Um leið og þú finnur þetta núna, um leið og þú lest þetta getur þú athugað hvernig þér líður á þessari mínútu þú lifir á þessu augnabliki, andar djúpt og finnur líkamann slakna. Ekkert gerist næst ... þetta er núvitund. Það þarf að þjálfa að fylgjast með eigin hugsun líkt og þegar þú þjálfar líkamann til að efla hreysti.
Fyrir vellíðan er vænlegt að leggja áherslu á daginn í dag og líðandi stundu frekar en að velta sér upp úr gærdeginum eða hafa áhyggjur af morgundeginum. Ef við söknum stöðugt góðu daganna eða bíðum eftir betri tímum rúllar lífið framhjá og okkur verður lítið úr verki eða náum ekki að uppfylla eigin drauma.
Engar tvær manneskjur eru alveg eins og sama manneskjan er í mismunandi stuði og ástandi frá einum tíma til annars. Hvernig okkur líður er í okkar höndum að miklu leiti, við getum valið vellíðan. Góð einbeiting, jákvæðni, alúð og þrautseigja hjálpa okkur við að ná árangri og auka ánægju. Hins vegar eykur neikvæðni og einbeitingarleysi vanmáttarkennd og leiða. Við eigum það til að vanmeta eigin getu, draga úr okkur kjarkinn og jafnvel telja okkur trú um að framlag okkar og vinna sé lítils virði. Sumir setja tilfinningar sínar jafnvel á klaka, t.d. vegna áhrifa frá umhverfinu eða hafa smitast af græðgi og forgangsraða fjáröflun í stað samveru, frítíma og vellíðan.
Áhrif lífstílsbreytinga fólks sem temur sér núvitund eru mælanlegar samkvæmt niðurstöðum rannsókna t.d. til að fyrirbyggja langvarandi veikindi, til að bæta líðan flogaveikra, krabbameinssjúklinga og einstaklinga sem stríða við offitu.
Þú getur bætt stundina sem nú líður með því að auka við athygli þína og vera meðvituð/aður. Það getur þú gert á ýmsa vegu, t.d. með því að læra að njóta augnabliksins og gera það se
m bætir líðan,t.d. njóta þess að horfa á barn leika sér, anda að mér fersku lofti, gera það sem gefur þér ánægju og hlúa að sjálfum sér í NÚINU.
Ykkur er velkomið að deila þessum upplýsingum og ykkar reynslu eða dæmisögum.
Heimildir:
University of Berkeley (2013). What is mindfulnes? Sótt 16.mars 2014 á http://greatergood.berkeley.edu/topic/mindfulness/definition
CDC: Centers for Disease Control and Prevention (2013). Preventing Chronic Disease | Recruitment and Retention of Pregnant Women. Sótt 2.september 2013 á http://www.cdc.gov/pcd/issues/2013/pdf/12_0096.pdf.
Office of Disease Prevention and Health Promotion (2011). Being Healthy Doesn´t have to be expensive. Sótt á 29.janúar 2014 á Healthfinder.gov
Heimild: heil.is