Samskipti fela í sér að senda skilaboð en einnig að taka við skilaboðum og túlka þau. Við sendum skilaboð með ýmsum hætti, bæði með óyrtri líkamstjáningu og töluðu máli. Mörg pör leita til Heilsustöðvarinnar vegna eriðleika í samskiptum. Þá eru samskipti beggja aðila metin, kennsl borin á óhjálplegar samskiptaleiðir, og ný og betri samskiptatækni kennd og æfð sem skilar árangursríkari samskiptum, betra sambandi og betri líðan. Við greiningu á samskiptum reynist hjálplegt að skoða fjóra megin flokka samskipta:
Passífur: Þeir sem eru passífir í samskiptum senda ekki skilaboðin sem skipta máli, tjá sig ekki eða tjá sig óskýrt um skoðanir sínar, óskir og tilfinningar. Þeir sem eru passífir í samskiptum óttast ágreining og finnst þeir ekki hafa rétt á að tjá eigin skoðanir eða trana sér fram. Þeir upplifa sig oft eins og fylgifiska annarra og að aðrir séu við stjórnina. Með þessum skamskiptamáta kemst það sem skiptir máli ekki til skila og því ólíklegt að ágreiningur leysist með ásættanlegu hætti.
Harðskeyttur: Harðskeytt samskipti eru samskipti sem einkennast af vanvirðingu og óttilitsemi. Þeir sem viðhafa harðskeytt samskipti tjá skoðanir sínar, óskir og tilfinningar oft ekki eða á óskýran hátt, en í staðinn ásaka eða vanvirða maka sinn. Dæmi um harðskeytt samskipti er: „þú eyðir aldrei tíma með mér“ í stað þess að segja einfaldlega „ég myndi vilja eyða meiri tíma með þér“. Með harðskeyttum samskiptamáta kemst það sem skiptir máli ekki til skila, þ.e. þínar skoðanir, langanir og tilfinningar. Þar að auki eru samskipti af þessu tagi til þess fallin að mynda ótta og reiði hjá maka þínum og þannig skaða samband ykkar.
Passífur og harðskeyttur: Þegar þú vísvitandi uppfyllir ekki væntingar maka þíns í þeim tilgangi að senda honum skilaboð þá ertu í senn passífur og harðskeyttur á sama tíma. Dæmi um þetta gæti verið eiginmaðurinn sem beitir þögninni til þess að koma skilaboðum til eiginkonu sinnar um að hann sé ósáttur við að hún kom seint heim. Annað dæmi er eiginkonan sem neitar eiginmanninum um kynlíf í þeim tilgangi að refsa honum fyrir það að hafa ekki munað eftir brúðkaupsdeginum. Skilaboð af þessu tagi eru óskiljanleg og valda ósætti frekar en að leysa ágreining.
Ákveðinn: Ákveðni í samskiptum er að tjá skoðanir sínar, langanir og tilfinningar á skýran hátt en jafnframt af virðingu við maka þinn. Slík samskipti styrkja sambandið og stuðla að sátt í sambandinu. Hér eru nokkrar ráðleggingar:
-Hugsaðu fyrirfram hvað það er sem þú vilt koma til skila.
-Tjáðu þínar skoðanir, væntingar og tilfinningar skýrt en af virðingu við maka þinn.
-Notaðu setningar sem byrja á „Ég“, „Mér“ eða „Mig“.
-Ekki biðjast afsökunar fyrir skoðanir, langanir eða tilfinningar þínar.
-Talaðu með eðlilegu og rólegu hljómfalli.
-Hlustaðu vel á maka þinn og ekki trufla eða grípa fram í.
-Gefðu til kynna að þú heyrir hvað maki þinn segir og berir virðingu fyrir tilfinningum hans.
Þú hefur rétt á þinni skoðun og maki þinn líka. Oftast snýst lausn ágreinings ekki um að finna hver hefur rétt fyrir sér, heldur að gera málamiðlun og ná samkomulagi. Ólíkar skoðanir og ágreiningur eru eðlilegur hluti af heilbrigðu ástarsambandi. Í góðum og heilbrigðum samskiptum er ágreiningur aðeins verkefni til að leysa og tækifæri til að styrkja sambandið.
Ef samskipti ganga illa þrátt fyrir tilraunir til að bæta þau, íhugaðu að sækja aðstoð sálfræðings sem getur aðstoðað þig/ykkur við að bæta samskiptin.
Haukur Sigurðsson, sálfræðingur
Heimildir: heilsustodin.is