Konur eru ólíklegri en karlar á sama aldri til þess að upplifa brjóstverk sem upphafseinkenni hjartaáfalls. Þetta kann að leiða til þess að töf verður á greiningu. Horfur kvenna sem fá hjartaáfall eru almennt verri en karla á sama aldri. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem skoðaði meira en milljón innlagnir vegna hjartaáfalls á spítala í Bandaríkjunum á árabilinu 1994 - 2006. Rannsóknarniðurstöðrnar voru birtar í JAMA (Journal of the American Medical Association) og má nálgast hér.
Um 42% kvennanna lýstu ekki brjóstverk við komu. Færri karlar gáfu ekki sögu um brjóstverk, eða 31%. Þessi munur á einkennum karla og kvenna var mest áberandi í yngri aldurshópunum. Um 15% kvenna með hjartaáfall létust í sjúkrahúslegunni en um 10% karlanna. Rannsakendurnir benda á að erfiðara sé að greina hjartaáfall ef sjúklingurinn er ekki með brjóstverk og því sé líklegra að töf verði á greiningu hjá konum en körlum. Slík töf getur leitt til þess að konur fá viðeigandi meðferð að jafnaði síðar en karlarnir sem getur haft veruleg áhrif á batahorfur. Dæmi um einkenni sem konur sem ekki upplifa brjóstverk fá eru mæði, magnleysi, ógleði, uppköst, verkir í kjálka og á millii herðablaða.
Þeir einstaklingar sem ekki upplifðu brjóstverk, bæði konur og karlar, komu að meðatali tveimur tímum síðar eftir að einkenni byrjuðu inn á bráðamóttöku en þeir sem fengu brjóstverk. Almennt var hjartalínurit á bráðamóttöku tekið síðar ef einstaklingurinn var ekki með brjóstverk en ef hann var með verk.
Í yngri aldurshópunum fengu karlarnir viðeigandi meðferð til að losa kransæðastífluna að jafnaði fyrr eftir komu á bráðamóttöku en konurnar. Líklegt er að þessi meðferðartöf hafi almennt leitt til stærra hjartavöðvadreps meðal kvennanna en karlanna og skýri hvers vegna þeim farnaðist ver.
Cam Patterson, yfirmaður hjartalækninga á University of North Carolina - Chapel Hill segir: "Okkur hefur mistekist að upplýsa konur um hjartasjúkdóma. Þegar ég spyr konuna mína hvað hún sé hræddust við svarar hún brjóstakrabbamein. Samt eru sex sinnum meiri líkur á að hún deyi úr hjartasjúkdómi. Við eigum mikið verk fyrir höndum að upplýsa um konur og hjartasjúkdóma."
Einnig er vert að benda á eftirfarandi:
Að undanförnu hefur athygli okkar verið vakin á því að margir vita ekki að bráðaþjónusta fyrir einkenni frá hjarta er staðsett á Hjartagátt við Hringbraut og er hún opinn allan sólahringinn frá mánudegi til föstudags.
Þegar bráðamóttökur Landspítala voru sameinaðar í eina móttöku í Fossvogi árið 2010 var í kjölfarið ákveðið að stofna nokkurs konar hjartamiðstöð - bráðamóttöku fyrir brjóstverki, við Hringbraut.
Meginstarfsemi hjartalækninga, þar á meðal hjartaþræðingastofa, legudeildir og allar rannsóknardeildir hjartalækninga, eru við Hringbraut og því augljóst hagræði af því að hafa bráðaþjónustu hjartasjúklinga á sama stað.
Hjartagátt sinnir fjölþættri þjónustu við hjartasjúklinga
Til starfsemi Hjartagáttar teljast meðal annars bráðaþjónusta við sjúklinga með einkenni frá hjarta, dagdeildarstarfsemi. innskriftarmiðstöð og göngudeildir hjartalækninga. Öll starfsemin fer fram í kjallara sjúkrahússins á einingum 10-D og 10-W.
Bráðaþjónustan er opin fyrir þá sem hafa einkenni sem geta gefið vísbendingu um hjartasjúkdóm eins og brjóstverk, mæði, hjartsláttaróþægindi eða yfirlið.
Á dagdeildinni dvelja þeir sem eru innkallaðir af biðlistum í rannsóknir og inngrip eins og hjartaþræðingu, kransæðavíkkun, brennsluaðgerðir á aukaleiðsluböndum, gangráðsísetningar og rafvendingar.
Starfsemi bráðaþjónustu og dagdeildar er samtvinnuð utan dagvinnutíma.
Göngudeildarþjónustan er fjölbreytt og tekur einnig til þverfaglegrar starfsemi. Á göngudeildum hjartalækninga er lögð áhersla á að sinna sjúklingum með flókin hjartavandamál og fyrstu endurkomu þeirra sem nýlega hafa dvalið á sjúkrahúsinu.
Hjartagáttin er opin allan sólahringinn frá klukkan 08:00 á mánudagsmorgnum til klukkan 12:00 á föstudögum. Lokað um helgar og sérstaka frídaga sem liggja við helgar.
Ef lokað er á Hjartagátt er bráðaþjónusta fyrir þá sem eru með einkenni frá hjarta á bráðamóttökunni í Fossvogi frá kl 12:00 á föstudögum og til klukkan 08:00 á mánudögum.
Hjartagátt (10D og 10W) er á jarðhæð Landspítala Hringbrautar, gengið inn Eiríksgötumegin.
Sími 543 1000: Skiptiborð spítalans gefur samband við Hjartagátt.
Heimildir: hjartalif.is