Það er áríðandi að allir hreyfi sig reglulega, sofi vel og borði holla fæðu í hæfilegu magni. Hér eru nokkur ráð sem rannsóknir sýna að geta hjálpað:
Þjálfun eða virk hreyfing í 30-60 mínútur á dag er nauðsynleg. Það þarf ekki endilega að vera samfelldur æfingatími heldur má deila hreyfingunni yfir daginn (t.d. 15 mín.+ 30 mín. + 15 mín = 60 mínútur). Best er að miða við að hafa breytilega þjálfun og gera styrktar- og þolæfingar tvisvar í viku til að styrkja bein (t.d. sippa, hoppa í körfubolta) þjálfa vöðvakerfi (t.d.ganga, synda, klifra, skokka) og auka teygjanleika (t.d. jóga, leikfimiæfingar, dansa).
Mælt er með að finna út hvað barninu finnst skemmtilegast að gera (t.d. fara í göngutúr/fjallaferð, hjóla, fara í sund) og nota tímann til fjölskyldusamveru og skapa jákvæðar venjur.
Viðhorf fullorðinna skiptir miklu máli sem hvati til ástundunar heilbrigðra lífshátta hjá börnum og unglingum. Sumum finnst erfitt að koma sér út í mismunandi gott veður (sumar, vetur, vor og haust). Þegar búið er að ákveða hvað á að gera og klukkan hvað (t.d. ganga hring í Elliðaárdal kl. 11 á laugardagsmorgnum) þá verður veðrið minna mál, svo er hægt að skapa samkeppni eða verðlaunakerfi með auðveldri skráningartöflu og störnum fyrir hverja viku svo hægt er að hæla börnunum.
Sjáið til þess að barnið fái nægan svefn miðað við aldur með að fara á réttum tíma í rúmið. Mælt er með að skapa jákvæðar fyrir háttatímann og góðar svefnaðstæður.
Láta barnið fara í rúmið á ákveðnum tíma, jafnvel láta barnið vita með smá fyrirvara að nú líði að svefntíma og haldið þeirri tímasetningu sem ákveðin hefur verið.
Forðast að gefa barninu þunga máltíð stuttu fyrir svefntíma eða örvandi fæðutegundir
Athuga að hafa hitastig í svefnherbergi passlegt, en það er persónubundið hvað fólki finnst þægilegt (hvorki of kalt né of heitt, t.d. er mælt með milli 18º-22 º C)
Hafa myrkur og hljótt í herberginu, það er þó hægt að hafa næturljós ef þurfa þykir
Skapa ákveðnar notalegar venjur áður en farið er í rúmið en forðast æsing. Til dæmis fara í notalegt bað og bursta tennur, lesa saman, segja sögu og tala saman.
Morgunverðurinn er afskaplega áríðandi til að skapa vellíðan og gefur tækifæri til að eiga jákvæða samverustund fjölskyldumeðlima í upphafi dags. Sífellt bætast fleiri rannsóknarniðurstöður við sem sýna fram á hversu mikilvægur hollur morgunverður er, til dæmis tekst þeim börnum betur að einbeita sér að námsefninu í tímum og þau ná mælanlega betri árangri á prófum en þau börn sem ekki borða hollan morgunverð. Góð næring að morgni dregur auk þess úr hættu á hungurtilfinningu sem eykur líkur á að viðkomandi nái sér í skyndibita.
Grein af vef heil.is