Hún Martha Ernstsdóttir er menntuð sjúkraþjálfari frá HÍ 1989, hómópati frá SIKH (Oslo) 1997, hún lærði Höfuðbeina- og spjaldhryggjameðferð frá Upledger Institute á Íslandi og er Yogakennari frá Sivanada Institute 2007. Einnig hefur hún setið hin ýmsu námskeið bæði hér heima og erlendis í yoga, heilun, hómópatíu og fleiru.
Ég spurði Mörthu út í heilsuhelgarnar hennar og fleira.
Hvað er höfuðbeina- og spjaldhryggjameðferð?
Höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfið er lífeðlisfræðilegt kerfi, sem er tiltölulega nýlega uppgötvað. Það samanstendur af himnum sem umlykja miðtaugakerfið (heila og mænu), þeim beinum sem himnunar hafa beinfestu á (höfuðbein og spjaldhryggur) og öðrum bandvef sem tengist himnunum beint. Einnig tilheyrir þessu kerfi heila- og mænuvökvinn sem nærir og ver miðtaugakerfið, og þau kerfi sem tengjast framleiðslu og frásogi heila- og mænuvökvans.
Við kjöraðstæður hjá heilbrigðum einstaklingi er ekkert sem hindrar þessa hreyfingu í mænuvökvanum, þar af leiðandi er engin hindrun á milli miðtauga og úttaugakerfis. Margt sem getur þó farið úrskeiðis og myndast hindranir, og þar með erting á taugakerfið. Höfuðbein geta aflagast vegna höggs, hnakkabein getur aflagast á efsta hálslið við fæðingu en slík skekkja lagast ekki sjálfkrafa. Mikil staðbundin spenna í bandvef, vegna sjúkdóma, skurðaðgerða, höggs, streitu eða annars konar áfalla getur einnig leitt til spennu í himnunum.
Ertu búin að vera að bjóða upp á heilsuhelgarnar þínar lengi?
Ég byrjaði að bjóða upp á svona heilsuhelgar fyrir tæpum 6 árum síðan þegar ég bjó á Ísafirði, fyrst var ég með þær á Ísafirði en seinna færði ég þær yfir í Önundarfjörð, nánar tiltekið á friðarsetrið Holt. Í janúar 2014 bætti ég svo Laugarvatn við.
Um hvað snúast heilsuhelgar og hvar ertu að bjóða upp á þessar helgar?
Fyrst og fremst snúast þær um að bjóða fólki upp á kjör aðstæður til að “kúpla” sig út úr hversdagsleikanum og asanum sem einkennir líf okkar flestra. Fleiri og fleiri vísbendingar eru um það að stór hluti þeirra sjúkdóma sem hrjá okkur í hinum vestræna heimi séu lífsstílstengdir og þrátt fyrir það að við erum öll fædd með ákveðin gen og tilhneigingu í sjúkdómsmyndun þá getum við haft mikið áhrif á hvort þessi gen fái að “brjótast” fram með tilheyrandi sjúkdómsmynd eða ekki. Á þessum helgum iðkum við léttar yogaæfingar (sem allir geta gert), öndunar- og slökunaræfingar og hugleiðsluæfingar. Einnig er útivera í boði, fótabað á kvöldin og svo er auðvitað hláturinn og gleðin alltaf með í för. Maturinn er bragðgóður og heilsusamlegur. Svo er líka hægt að kaupa sér nudd á staðnum sem er bara dásamleg viðbót.
Hvenær er næsta heilsuhelgi hjá þér?
Næsta heilsuhelgi verður haldin á Laugarvatni 4.-6.apríl en það er upppantað á hana og því bætti ég einni við 25.-29.apríl. Næsta heilsuhelgi í Holti verður 9.-11.maí.
Afhverju ætti fólk að koma til þín um heilsuhelgi og hvernig fólk kemur?
Í raun kemur allskonar fólk til mín, meiri hlutinn er konur en inn á milli koma karlmenn einir síns liðs eða með konum sínum. Margir eru að stíga sín fyrstu skref í áttina að heilsusamlegra og heilbrigðara lífi og finnst gott að fá aðstoð svona í byrjun. Aðrir eru þegar komnir með þennnan lífsstíl og finnst bara svo gott að koma aftur og aftur og þá er þetta orðið svona eins konar lífstíll hjá þeim að gefa sér fallega gjöf og koma á heilsuhelgi.
Hvernig getur fólk sett sig í samband við þig?
Hægt er að senda mér tölvupóst: marthae64@gmail.com, hringja: 863 8125 og/eða kíkja á Facebook síðuna mína HÉR.