Heilsusamlegt mataræði og rétt meðhöndlun matvæla skiptir því sjaldan meira máli fyrir heilsu og líðan en einmitt á þessum tíma.
Venjulegur, góður og næringarríkur matur.
Ekki er þörf fyrir neitt sérfæði á meðgöngunni. Venjulegur, góður og fjölbreyttur matur fullnægir bæði þörfum barnsins og móðurinnar með fáeinum undantekningum.
Helstu sérþarfirnar eru þær að öllum konum sem geta orðið barnshafandi er ráðlagt að taka 400 míkrógramma fólinsýrutöflu daglega fyrir meðgöngu og fyrstu 12 vikur meðgöngu, auk þess sem þeim er ráðlagt að borða fólinsýruríkar matvörur til að draga úr hættu á alvarlegum fósturskaða.
Barnshafandi konum, eins og raunar landsmönnum öllum, er ráðlagt að taka D-vítamín aukalega, til dæmis í teskeið af þorskalýsi. Ekki er þó æskilegt að taka meira magn en sem nemur ráðlögðum dagskammti af vítamínum á meðgöngunni. Þetta á ekki síst við um A-vítamín.
Hæfileg þyngdaraukning á við á meðgöngu. Konum yfir kjörþyngd er ráðlagt að þyngjast nokkuð minna en hinum sem eru í eða undir kjörþyngd fyrir þungun.
Öllum konum er hins vegar eðlilegt að þyngjast á meðgöngunni, og of lítil þyngdaraukning er ekki síður óæskileg en of mikil aukning.
Rétt meðhöndlun matvæla.
Hreinlæti í tengslum við mat og matargerð skiptir ævinlega máli, en fær aukið vægi á meðgöngu þar sem skaðlegar bakteríur og sníkjudýr geta haft áhrif á heilsu bæði móður og fósturs. Sérstaklega er varað við að borða hrá matvæli eins og hráan fisk, hrátt kjöt, hrá egg eða drekka ógerilsneydda mjólk.
Einnig er fjallað um mataræði á ferðalögum erlendis, þar sem hugsanlega þarf að varast einstaka fæðutegundir vegna aðskotaefna, mengunar eða sýkingarhættu.
Hollir lífshættir á meðgöngu.
Hæfileg hreyfing og næg hvíld eru lykilatriði á meðgöngu. Notkun hvers kyns vímugjafa er hins vegar varhugaverð og best að sleppa notkun þeirra algjörlega.
Áfengi og tóbak skaða beinlínis fóstrið, og lyf, fæðubótarefni eða náttúruefni ætti heldur ekki að taka án þess að ráðfæra sig við lækni.
Grein fengin að láni frá spegill.is