Af hverju byrjaði ég ekki fyrr ?
Hreyfing er manninum nauðsynleg en sumir virðast eiga erfitt með að byrja á að hreyfa sig markvisst og gera hreyfingu að hluta af daglegu lífi. Þeir sem hins vegar byrja, þeir skilja oft ekki af hverju þeir byrjuðu ekki fyrr!
Hver er hindrunin?
Suma vantar hvatningu, aðra gæti skort félagsskap, enn aðrir eiga við líkamlega og andlega kvilla að stríða sem hindra þá eða letja. Kannski er samt skortur á „nenni“ eða hreinlega leti, stór ástæðan fyrir því að sumir hreyfa sig minna en þeir þyrftu að gera. Þessi skortur á hreyfingu er síðan einn af þeim þáttum sem hafa leitt til þess að margir, já allt of margir, þjást vegna ofþyngdar og offitu. „Þjáning“ sem felst í andlegri vanlíðan og því að vera ósáttur við sjálfan sig og ástandið eins og það er, líkamleg þjáning vegna stoðkerfisvandamál en einnig óbein þjáning vegna sjúkdóma eins og sykursýki, háþrýstings og hjartasjúkdóma sem oft eru afleiðing offitu.
Hvað getur þú gert fyrir þig?
Hver sem ástæðan er; hvað getur hver og einn gert til að skipuleggja hreyfinguna sína og halda utan um það hvernig hún er dag frá degi, mánuði til mánaðar, ári til árs? Nota það síðan sem hvatningu til að halda áfram og jafnvel bæta í. Slíkar skráningar geta líka hjálpað þér að hafa yfirsýn yfir það hvers vegna þér gengur betur að halda líkamsþyngdinni og fituprósentunni innan eðlilegra marka fyrir þig, hvers vegna þér líður betur í daglegu amstri, hvers vegna þér gengur betur að takast á við vandamál í einkalífinu eða á vinnustað, hvers vegna blóðþrýstingurinn og blóðsykurinn er eðlilegur og kannski hvers vegna astminn er betri? Hreyfing hefur áhrif á alla þessa þætti.
Gott er að byrja á að skoða stöðu mála í dag, til að mynda, hvernig ferð þú á milli staða?
Akandi Alltaf Oft Stundum Sjaldan Aldrei
Hjólandi Alltaf Oft Stundum Sjaldan Aldrei
Gangandi Alltaf Oft Stundum Sjaldan Aldrei
Strætisvagn Alltaf Oft Stundum Sjaldan Aldrei
Auðvitað er það þannig að ekki er hjá því komist að nota einkabílinn til og frá vinnu og sinna erindum. Þá þarf hins vegar að huga enn frekar að hreyfingu á frítíma.
Frítími og hreyfing, fer þetta saman ?
Næst er það frítíminn, hvernig er honum varið í klukkustundum talið; annarsvegar á virkum dögum og hins vegar um helgar. Einnig má hafa í huga árstíðaskiptinguna og hvort að dagleg hreyfing og lífstíll breytist mikið milli vors og vetrar. Dæmi um þetta gæti verið að sumir vinna mikið í garðinum sínum á vorin og á sumrin og getur það talist til daglegra starfa.
Hversu löngum tíma eyðir þú fyrir framan tölvuna, sjónvarpið eða í snjall símanum. Á virkum dögum og um helgar. Væri þessum tíma eða að minnsta kosti hluta af honum betur varið í hreyfingu, já eða jafnvel útiveru og leik með börnunum.
Hversu mikil er hreyfing á eigin vegum með eða án fjölskyldu eða vina yfir vikuna? Er þetta létt hreyfing eða rösk hreyfing þar sem púlsinn fer vel upp í hálfa klukkustund eða lengur.
Hvað með skipulagða hreyfingu, hlaup með hlaupahópi, göngu eða stafgöngu í hópi, knattspyrna, keila eða annað ? Hversu oft í viku er slík hreyfing og er hún nægjanleg?
Að lokum þarf að taka inn í myndina hreyfingu á vinnutíma og álagið í þeirri hreyfingu. Er sú hreyfing kannski meira en nóg ? Mögulega gæti vantað inn markvissa styrktarþjálfun til að ekki vanti upp á heildarmyndina eða mögulega þolþjálfun með hærri púls en næst við vinnu. Slík viðbótarþjálfun gæti farið fram um helgar.
Ef þú efast um að þú sért að hreyfa þig nóg, eða rétt getur verið gott að fá viðtal við lærðan leiðbeinanda til dæmis á heilsuræktarstöð. Boðið er upp á slíkt á mörgum heilsuræktarstöðvum og til dæmis hjá World Class er boðið upp á svokallað „Heilsueftirlit“ þar sem farið er yfir stöðu mála og markmið einstaklingsins, líkamsmælingar framkvæmdar auk þess sem sett er upp markviss æfingaáætlun fyrir þol og styrk. Hjá Heilsuborg er samskonar þjónusta í boði sem nefnist „Heilsumat“ en þar sér hjúkrunar- eða næringarfræðingur um viðtalið. Hjá báðum stöðvum er boðið upp á næringarráðgjöf sem er í lang flestum tilfellum nauðsynlegur hluti af heildarmyndinni.
Veltu fyrir þér:
Hversu lengi sef ég yfirleitt; sef ég of lítið og hef því ekki orku til að stunda hreyfingu? Sef ég og legg mig kannski heldur mikið og oft, tími sem ég gæti nýtt til að hreyfa mig, til dæmis að morgni dags?
Hvað borða ég margar máltíðir á dag, virka daga og um helgar og líða oft meira en 3 klst. milli þess sem ég nærist.
Drekk ég nægan vökva ? Gott ráð er að fylgjast með litnum á þvaginu sem á að vera ljósleitt eins og dauflitað sítrónuvatn þegar líður á morguninn.
Af hverju vil ég byrja að hreyfa mig meira og hvaða hreyfing tel ég að henti mér best?
Hvaða hindranir eru í vegi mínum og hvernig get ég mögulega yfirunnið þær?
Hver eru mín markmið; skammtíma markmið og langtímamarkmið?
Hvaða tækifæri eru í stöðunni og hvernig vil ég hreyfa mig meira?
Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur.