Sykursýki er tveir sjúkdómar (sykursýki I og sykursýki II) sem báðir hindra frumurnar í því að nýta blóðsykurinn. Þeir sem þjást af sykursýki I framleiða lítið eða ekkert insúlín í briskirtli sínum, svo frumurnar geta ekki tekið glúkósann upp úr blóðinu. Hjá þeim sem þjást af sykursýki II eru frumurnar aftur á móti lítt eða ekki næmar fyrir insúlíni. Það er því sama hve miklu insúlíni briskirtill þeirra seytir, frumurnar geta samt ekki tekið glúkósann upp úr blóðinu og nýtt hann. Með tímanum verður briskirtill þeirra sem þjást af sykursýki II latur, fer að framleiða minna insúlín eða hættir því alfarið. Báðir sjúkdómar valda því að blóðsykurinn hækkar óeðlilega mikið, svo mikið að þetta dýrmæta orkuefni lekur út í þvag, en við eðlilegar aðstæður mælist enginn sykur í þvagi.
Áður fyrr smökkuðu læknar bókstaflega á þvagi sjúklinga sinna til að finna hvort það væri sætt á bragðið. Í dag er öðrum aðferðum beitt til að mæla glúkósa, ýmist í þvagi eða í blóði. Hár blóðsykur er slæmur fyrir æða- og taugakerfið, nýrun og augun. Auk þess verða þeir sem þjást af sykursýki orkulausir því frumurnar fá ekki þann glúkósa sem þær þurfa.
Sykurstuðull eða glúkósastuðull segir til um hækkun blóðsykurs eftir að fæða er borðuð. Hækkunin fer eftir samsetningu máltíðar, kolvetnamagni og hversu auðmelt kolvetnin eru. Því meiri sem hækkunin verður, því meira insúlíni er seytt frá brisinu og því hraðar lækkar blóðsykurinn aftur í heilbrigðum einstaklingi. Lækkunin getur orðið svo mikil að við upplifum tímabundið blóðsykursfall, þegar blóðsykurinn fer undir eðlilegt gildi. Þá tekur lifrin við og seytir glúkósa út í blóðið til að hækka blóðsykurinn aftur upp í þetta gildi. Það tekur dálítinn tíma og í millitíðinni getum við upplifað sterka hungurtilfinningu, þegar líkaminn kallar á kolvetni til að hækka blóðsykurinn.
Í hvítu hveiti, eins og finna má í bagettum og pasta, eru auðmeltanleg kolvetni sem hækka blóðsykurinn hratt. Hlaup, brjóstsykur og annað sælgæti sem inniheldur nánast eingöngu kolvetni hækkar blóðsykurinn líka hratt. Heilkornarúgbrauð er kolvetnaríkt, en kolvetnin eru ekki eins auðmeltanleg og rúgbrauðið inniheldur auk þess mikið af trefjum. Súkkulaði er sömuleiðis kolvetnaríkt. Kolvetnin eru auðmelt en súkkulaði inniheldur líka mikla fitu. Trefjar og fita hægja á meltingunni svo blóðsykursveiflan verður hægari og minni. Þá er minni hætta á tímabundnu blóðsykursfalli með tilheyrandi hungri. Þar sem samsetning máltíðar skiptir líka máli verður sykursveiflan ekki tiltakanlega mikil eftir neyslu á bagettu eða pasta sem borðað er í takmörkuðu magni með kjöti eða grænmeti og sósu.
Ef heilbrigður einstaklingur borðar auðmeltanleg kolvetni daglega í miklu magni, framleiðir briskirtill hans stöðugt mikið insúlín og seytir út í blóð. Ef hann í ofanálag hreyfir sig lítið, getur þetta smám saman valdið insúlínviðnámi frumnanna, og þar með sykursýki af tegund II. Auðmeltanleg kolvetni og kyrrsetulíferni hækka líka blóðfituna sem eykur hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.
Það er þrennt sem ég vil nefna sem getur verndað okkur gegn sykursýki II og hjarta- og æðasjúkdómum. Það er í fyrsta lagi þolþjálfun (öll hreyfing sem gerir okkur móð). Hún lækkar blóðfituna og eykur líka insúlínnæmið. Svo eru það trefjarík matvæli á borð við heilkornabrauð, hafragraut, grænmeti og ávexti. Og í þriðja lagi fjölómettaðar fitusýrur sem finna má í fiski og lýsi, avokadó og hnetum.