Það er misjafnt á milli manna hvar við finnum þetta góða jafnvægi, það sem er skyldustarf fyrir einn getur verið gleðigjafi fyrir annan og öfugt. Gott jafnvægi er þegar við getum haldið utan um það sem er ætlast til að við gerum, okkur langar til að gera og það sem við þurfum að gera. Því er mikilvægt að skoða hlutverk sín reglulega án þess að bera þau saman við hlutverk annarra og vera tilbúin að breyta til að öðlast betra jafnvægi.
Við þurfum reglulega að huga að hlutverkum okkar þar sem þau eru breytingum háð. Hlutverkin breytast yfir ævina, um miðjan aldur erum við með flest hlutverk en þeim fækkar þegar við eldumst og er þá mikilvægt að eiga hlutverk sem hafa þýðingu og gildi. Þetta er eðlileg þróun og yfirleitt gerist hún jafnt og þétt svo við náum að aðlagast breytingunum. Hins vegar getum við misst hlutverk vegna sjúkdóms, slyss eða annars áfalls. Þegar slíkt gerist er enginn aðlögunartími og getur því verið erfitt að takast á við þær breytingar.
Mikilvægt er þá að endurskoða hlutverk sín og stundum þarf að finna ný sem hafa tilgang og þýðingu. Við þurfum að spyrja okkur reglulega hvaða hlutverk eru mikilvægust og hvort við séum að forgangsraða þeim í samræmi við það. Við þurfum líka að minna okkur á að hlutverkið að sinna „sjálfum sér“ þarf að vera í fyrsta sæti. Stundum rekum við okkur líka á að gömlu venjurnar virka ekki lengur og þá þarf að endurskoða þær og reyna koma sér upp nýju vanamynstri. Þegar við skoðum hlutverk okkar og jafnvægið á milli þeirra er gott að hafa þessar spurningar til hliðsjónar:
Í nútíma þjóðfélagi hefur streita áhrif á jafnvægið hjá mörgum. Spennan er okkur nauðsynleg og góð til að takast á við margt í lífinu en hún má ekki verða viðvarandi því hún getur haft skaðleg áhrif á bæði líkama og sál. Streita getur myndast þegar kröfurnar sem við eða aðrir gerum til okkar eru meiri heldur en þeir styrkleikar sem við búum yfir. Þá er gott að spyrja sig hvaðan koma kröfurnar? Erum við að setja of miklar kröfur á okkur sjálf eða er það umhverfið? Er hægt að auka styrkinn eða þarf að minnka kröfurnar?
Streita hefur mismunandi áhrif á okkur þar sem persónuleikinn, sjálfsmatið og þekking okkar á streituvöldum skiptir máli. Einkenni streitu geta ýmist verið líkamleg, andleg eða hegðunin breytist. Stundum tekur fólkið í kringum okkur fyrst eftir þeim þar sem við höfum ekki gefið okkur tíma til að gefa einkennunum gaum eða bíðum eftir að ástandið líði hjá. Þess vegna er mikilvægt að staldra stundum við og taka eftir hvernig okkur líður og kanna þær væntingar sem við höfum. Eins þurfum við að vera meðvituð um hverjir streituvaldarnir eru svo við getum tekist á við þá og undirbúið okkur fyrir aðstæðurnar sem geta skapast. Þá er gagnlegt að skoða hugarfarið og áhrif hugsana okkar. Um leið og við förum inn í aðstæður með neikvætt hugarfar og jafnvel búin að áætla að þær verði streituvaldandi getur verið erfiðara að takast á við þær. Jákvætt hugarfar og trú á sjálfan sig auðveldar okkur að takast á við dagleg verkefni og betri líðan fylgir í kjölfarið. Ef streita er til staðar er byrjað á því að skoða hvort hægt sé að fjarlægja streituvaldinn. Ef streituvaldurinn er t.d of margar skyldur, þá getum við unnið að því að fækka þeim eða ef skyldurnar eru of fáar þá þurfum við að skapa nýjar. Ef við getum ekki fjarlægt streituvaldinn þurfum við að efla okkur eða læra að takast á við það sem við getum ekki fjarlægt eða breytt.
Við þurfum að vera meðvituð um hvernig við bregðumst við streitu og ójafnvægi í daglegu lífi. Góður kostur er að tileinka sér uppbyggilegar venjur þar sem heilnæmir lifnaðarhættir, góð tímastjórnun og raunhæf markmið eru höfð að leiðarljósi. Síðast en ekki síst höfum við alltaf í huga hvað skiptir okkur máli og gefur lífinu gildi.
Slökun er andstæðan við streitu og er því gott verkfæri gegn streitu. Jákvæð áhrif slökunar eru aukið jafnvægi, betri einbeiting, minni spenna og kvíði. Stunda þarf slökun reglulega til þess að ná góðum tökum á henni. Hana er hægt að stunda hvar og hvenær sem er í amstri dagsins. Slökun getur verið hluti af daglegu lífi og daglegum venjum á sama hátt og að hreyfa sig reglulega. Tíminn sem er tekinn frá fyrir slökun þarf ekki að vera langur, þó það séu ekki nema 5 mínútur geta þær stuðlað að betri líðan.
Við höfum öll sama tímann en það er misjafnt hvernig hver og einn kýs að verja honum. Ýmis verkfæri er hægt að nota til að nýta tímann sem best. Umhverfi sem er vel skipulagt og með góða yfirsýn dregur úr streitu þar sem gott er að geta gengið beint að hlutum eða verkefnum. Vikudagskrá eða stundatafla getur t.d. hjálpað þeim sem eru að koma sér upp nýrri rútínu eða þeim sem eiga erfitt með að takast á við verkefni dagsins. Verkefnalistar eða minnismiðar eru hentugir þegar mörg verkefni bíða. Verkefnalistinn getur dregið úr streitu þar sem hann gefur góða yfirsýn og við þurfum ekki alltaf að vera hugsa um verkefnin þegar þau eru komin á blað. Stundum þarf að búta stór verkefni niður og taka eitt fyrir í einu. Ef mörg atriði eru á listanum þarf að forgangsraða og endurskoða hvort einhver megi bíða eða hvort hægt sé að deila þeim út til annarra. Þegar kemur að því að draga úr álagi og eiga tíma til að sinna þeim verkefnum sem eru okkur mikilvægust þurfum við oft að draga úr fullkomnunaráráttu og segja nei við öðrum verkefnum.
Það hefur sýnt sig að þeir sem setja sér markmið eru líklegri til þess að ná árangri. Þeir eru þá að stefna í ákveðna átt en eru ekki eins og korktappi úti á sjó þar sem engin stefna er. Til að ná fram breytingum er gott að hafa markmið sem eru skrifleg, mælanleg, tímasett og raunhæf. Ef við skrifum ekki markmiðin niður er auðvelt að gleyma þeim og eins getur verið erfiðara að framkvæma þau. Til að losa við afsökunina „ég geri þetta á morgun“ er ráðlagt að tímasetja markmið sín og setja þau þannig upp í vikudagskrá eða í dagbókina sína.
Það er okkur öllum mikilvægt að eiga áhugamál sem við njótum að stunda og veita okkur gleði. Ekki má gleyma að líta í eigin barm og forgangsraða því sem skiptir okkur máli. Það vill oft verða þannig að þegar mikið er að gera eða ef orkan er lítil þá fá áhugamálin fyrst að víkja og við bíðum betri tíma til að sinna þeim. Oft er þetta röng forgangsröðun, því hafa þarf í huga hvað nærir okkur og hvað gefur okkur orku. Munum að gefa okkur tíma til að njóta en ekki þjóta. Lífið er núna!
Brynhildur Guðmundsdóttir,
iðjuþjálfi Reykjalundi