Í fullkomnum heimi hefðum við öll gott aðgengi að dagsljósi á þeim tíma sólarhringsins sem við ætlum að vakna og vera vakandi. Við byggjum í og myndum vinna í þannig húsnæði að við hefðum greiðan aðgang að gluggum þar sem vel sæist til himins og einnig hefðum við útsýni yfir gróður og jafnvel annað fólk eða dýr. Í þessum fullkomna heimi myndum við vaxa og dafna.
Salvador Dalí sagði að hræðast ei fullkomnun því henni næðum við aldrei. Við getum samt sem áður lagt okkur fram við að gera umhverfi okkar úr garði sem næst fullkomnun til að stuðla að vexti.
Fyrir síðustu aldamót var meginhlutverk lýsingar að gera okkur kleift að framkvæma verkefni og skapa upplifanir í rýmum. Eftir aldamótin hafa svo vísindamenn verið iðnir við að kortleggja áhrif ljóss á heilsu. Það sem helst hefur komið fram á undanförnum árum er að ljósameðferð virkar jafn vel og lyf við þunglyndi. Ljós hefur mikil áhrif á svefn, einbeitingu og afköst. Það að hafa áhrif er hins vegar tvíeggjað sverð. Hægt er að hafa áhrif til góðs eða ills. Það er því mikilvægt að vita hvernig eiginleikar ljóssins hafa áhrif á heilsuna. Í því samhengi er gott að gera sér grein fyrir að styrkleiki ljóssins er mikilvægur, stefna ljóssins er mikilvæg og ljósrófið er einnig mikilvægt. Ljósrófið er sá eiginleiki sem við eigum hvað erfiðast með að tengja við, en einfölduð útskýring væri einna helst að litblær ljóssins skiptir máli - hvort um er að ræða kalt ljós eða heitt ljós.
Dægursveiflan okkar er um það bil 24 tíma taktur í líkamsstarfseminni okkar sem inniheldur meðal annars upplýsingar um svengd, þreytu og afkastagetu. Ljós hefur mjög mikil áhrif á dægursveifluna því ljós getur leiðrétt dægursveifluna. Mikið ljós sem kemur að ofan (lesist hér sem frá himni eða frá lofti) gefur líkamanum okkar skilaboð um að nú á að stilla líkamsstarfsemina á vöknun og við ætlum að fara að framkvæma eitthvað á næstunni. Þetta mikla ljós að ofan viðheldur afköstum yfir daginn. Þegar fer að kvölda þurfum við hins vegar að takmarka ljós að ofan til að gefa líkamanum skilaboð um að nú sé kominn tími til að hvílast og myrkur er mjög mikilvægt á meðan við sofum.
Í myrkrinu á veturna getum við mjög auðveldlega dottið í félagslegt dægurrask (e. Social jet lag). Skortur á dagsljósi að morgni til er þá orsökin fyrir því að við höfum ekki dagsljós til að gefa líkamanum merki um að dagur sé hafinn. Því seinkar okkar innri klukka sér og við verðum þreyttari seinna og eigum erfiðara með að vakna á sama tíma á morgnana. Í dagsljósinu á sumrin erum við með hina hliðina á peningnum. Við höfum of marga tíma af dagsljósi til að náttúrulega gefa líkamanum skilaboð um hvenær komið er kvöld og tími til að fara að undirbúa hvílu. Því er notkun gluggatjalda á sumarkvöldum eitt áhrifamesta verkfærið til að stilla dægursveifluna okkar af.
Næmni fyrir ljósi er háð tíma dags og fyrri lýsingaraðstæðum. Lítið ljósmagn á nóttunni hefur mikil áhrif á dægursveiflur á meðan við þurfum mjög mikið ljósmagn á daginn til að hafa áhrif á dægursveiflur. Skjánotkun seint á kvöldin skal forðast því skjáir hafa hlutfallslega mikið af bláu ljósi sem er sá hluti ljósrófsins sem hefur sérstaklega mikil áhrif á dægursveiflur og á nóttu til erum við mjög móttækileg fyrir áhrifum ljóssins jafnvel þótt það sé í litlu magni.
Aftur á móti er mikið ljósmagn á morgnana mjög mikilvægt því þá er líkaminn ennþá mjög næmur fyrir ljósi og auðveldara er að nýta ljósið til að stilla dægursveifluna af.
Undanfarin ár hefur ljósmagn miðast að þörfum okkar til að greina verkefni og umhverfi. Það ljósmagn sem notast hefur verið við undanfarið hefur svo sannarlega áhrif þegar við erum sem næmust fyrir ljósi: Seint á kvöldin, á nóttunni og snemma morguns. Það ljósmagn er hins vegar langt frá því að hafa áhrif á dægursveiflurnar okkar yfir daginn. Á daginn vantar okkur mjög mikið ljós. Þegar við fáum mikið ljós yfir daginn erum við minna næm fyrir ljósi á kvöldin. Ef við fáum mjög takmarkað ljósmagn yfir daginn erum við sérstaklega næm fyrir ljósi að kvöldi til og getum því átt erfitt með svefn. Ljósið þarf að komast að augunum okkar og best er að fá dagsljós, en þegar þess nýtur ekki þurfum við helst að hafa ljósgjafa sem er tiltölulega kaldur á litinn (svipar til dagsljóss) og dreifing ljóssins þarf helst að líkjast himni (jafndreifð lýsing frá lofti). Þegar við getum ekki nýtt okkur dagsljósið til að stilla dægursveifluna af þá þarf ljósmagnið að tvöfaldast til þrefaldast yfir dagtímann í byggingum okkar miðað við það
Flestir hafa gagn af miklu ljósi að morgni til að stilla dægursveifluna af. Gefa líkamanum til kynna að dagur sé hafinn og 24 tíma takturinn er þá stilltur þannig að við verðum þreytt þegar kvölda tekur. Aftur á móti myndi mikið ljós að kvöldi til seinka dægursveiflunni sem fær okkur til að vakna seinna næsta dag. Ljós síðari hluta dags hefur minni áhrif á dægursveifluna okkar. Ráðleggingar fyrir þann tíma sem tekur að viðhalda heilbrigðu svefn/vöku ferli með miklu ljósi að morgni spannar bilið frá 30 mínútum til tveggja klukkustunda.
Í stuttu máli mætti segja að mikið kalt ljós sem kemur að ofan vekur okkur. Ljósið má vera heitara á litinn, en þá þurfum við enn meira af því til að vekja okkur. Mjög takmarkað heitt ljós sem kemur frá gólfi eða veggjum svæfir okkur eða undirbýr líkamann fyrir hvílu. Við svefn er best að hafa algjört myrkur.
Fyrir þá sem vilja tölur og einingar eru til viðmið fyrir „mel-anopic equivalent daylight illuminance“ (melanopic EDI) með einingunni lux, sem lýsa svörun þeirra nema í augunum sem hafa áhrif á dægursveiflur. Nýjustu viðmiðin eru: melanopic EDI <1 lux við svefn, melanopic EDI <10 lux að minnsta kosti 3 tíma fyrir svefn og melanopic EDI >250 lux þess á milli.
Rannsóknir sýna að dagsljós er mjög eftirsótt af notendum bygginga og að dagsljós er valið fram yfir raflýsingu sem megin ljósgjafi í rými. Einnig inniheldur ljósrófið fyrir dagsljós þá eiginleika sem einna mest hafa áhrif á dægursveiflur.
Við fáum dagsljósið inn í byggingar okkar gegnum glugga og þá þarf að huga að stærð, staðsetningu og tegund glers. Ef við byrjum að spá í hvaða átt gluggarnir snúa í rýmum okkar væri langbest að öll svefnherbergi myndu snúa í austur með góðum gluggum sem hleypa morgunljósinu inn í svefnherbergin eftir að myrkragardínur hafa verið dregnar frá. Rými sem við notum mest yfir daginn, eins og t.d. stofur ættu að snúa í suður og vestur. Norðurgluggar eru þægilegastir að eiga við. Frá norðurgluggum er sjaldnast hætta á glýju frá sól og gróður dafnar oft vel í návist norðurglugga. Best er að gluggar séu staðsettir í fleiri en eina höfuðátt því þannig næst betri dreifing dagsljóss inn í rýmið. Þakgluggar hjálpa svo enn betur við að ná góðri dreifingu dagsljóss inn í rými.
Dagsljósið í sinni tærustu mynd gerir okkur kleift að greina liti á réttan hátt og hefur mikil áhrif á dægursveiflurnar okkar. Þegar notast er við gler sem breytir ljósrófinu hefur það mikil áhrif á það dagsljós sem kemur inn í bygginguna. Því meiri litamunur sem fæst við það að bera saman útsýni um opinn glugga og útsýni út um glerflötinn, því meiri áhrif er glerið eða filman að hafa á ljósróf dagsljóssins. Mikill litamunur þýðir yfirleitt að dagsljósið sem kemur inn um rúðuna hefur minni áhrif á dægursveiflurnar en tært gler.
Útsýni yfir náttúru hefur róandi áhrif á okkur og gott útsýni dregur úr kvörtunum um innivistar óþægindi. Því má segja að gott útsýni sé grunnur að góðri innivist.
Yfir háveturinn gegnir raflýsing stærra hlutverki en dagsljós á Íslandi. Það skiptir máli að kveikja mikið ljós snemma dags til að hjálpa líkamanum að viðhalda dægursveiflunni. Einnig er þörf á mikilli raflýsingu yfir daginn til að vinna á móti næmni fyrir ljósi að kvöldi til. Því ef við fáum meira ljós yfir daginn erum við minna næm fyrir ljósi frá sjónvarps og símaskjáum á kvöldin.
Dagsljósið er hinn fullkomni ljósgjafi að morgni og yfir daginn. Því er mikilvægt að umhverfi umhverfis byggingarnar okkar sér aðlaðandi og hvetji okkur til að dvelja eins lengi utandyra og hægt er. Hér er ábyrgð hverfaskipulagsins einstaklega mikið og mikilvægt að vel takist til við að skapa aðlaðandi, skjólsælt og bjart nærumhverfi umhverfis byggingarnar okkar.
Eins væri best ef allar svalir væru í suður, austur eða vestur og að sólargeislar kæmust að svölum í einhvern tíma dagsins. Í dag er ekki óalgengt að finna svalir á norður hlið bygginga hér á landi með mjög takmörkuðu aðgengi að sólarljósi.
Jú, dagsljósið er takmarkað á veturna en yfirdrifið á sumrin. Á sumrin þurfum við að muna eftir að draga fyrir gluggana til að ná að sofna á kvöldin. Á veturna þurfum við að kveikja eins mikið ljós og við getum frá morgni og fram eftir degi.
Þar sem við höfum valið, veljum við dagsljós. Þegar kaupa á fasteign er gott að hafa í huga hversu mikið sést til himins úr íbúðinni. Þá þarf að hugsa út í hvaða rými verða líklegast mest notuð og meta hvernig dagsljósið er í þeim rýmum.
Í vinnunni þar sem flestir eyða mestum hluta dagsins er gott að reyna að fá sæti við glugga eða eins nálægt glugga og hægt er. Ef filma er í gluggum til að takmarka dagsljós inn í rýmið er gott að óska eftir að filman sé fjarlægð og aðrar aðferðir notaðar til að koma í veg fyrir glýju á sólríkum dögum.
Með því að hanna byggingar með tilliti til líffræðilegra þarfa mannsins er lýðheilsa sett í forgang og forvörnum beitt í stað meðhöndlunar einkenna. Í þessari grein koma fram þau helstu atriði sem þarf að taka tillit til fyrir ljós á heimilum sem styður við heilsu. Með þeirri þéttingarstefnu sem unnið er eftir í dag í þéttbýlli sveitafélögum landsins er heilsu íbúanna ógnað og því mikilvægt að tilvonandi íbúar séu meðvitaðir um kosti og galla hverrar íbúðar hvað varðar áhrif á þeirra heilsu.
Hagnýt ráð við kaup á húsnæði
Umhverfið hefur áhrif á aðkomu dagsljóss inn í húsnæðið. Því lengra inn í rými sem sést til himins, því betri eru gæði dagsljóssins í íbúðinni. Umhverfið hefur einnig áhrif á aðkomu sólar á svalir og síðast en ekki síst hversu aðlaðandi það er að fara fótgangandi um nærumhverfið. Því meira sem hægt er að fá af dagsljósi, því betra.
Ef rúður eða filmur breyta litnum á útsýninu þá hafa þær varanleg áhrif á gæði dagsljóssins sem kemur inn um þær. Þetta geta verið æskilegir eiginleikar á björtustu sumardögum en eru einstaklega óæskilegir við allar aðrar aðstæður og því ber að forðast þessa lausn og nýta frekar færanlegar lausnir til að skerma sólarljósið af þegar þess þarf.
Með aukinni veggþykkt eins og tíðkast í dag, takmarkast dagsljós sem kemst inn um gluggana. Þetta á sérstaklega við litla glugga. Ef glerfletir eru stórir hefur veggþykkt minni áhrif.
Ef svalir eru staðsettar fyrir ofan glugga takmarka þær mjög aðkomu dagsljóssins inn í bygginguna en einnig ef veggur er staðsettur við hlið gluggans, þá er það líka mjög takmarkandi fyrir aðkomu dagsljóss.
Frá góðum gluggum nýtist dagsljósið ca 4 til 5 m inn í rýmið. Ef rýmið er mjög djúpt, þurfa gluggar að vera staðsettir á fleiri hliðum til að veita góða dreifingu dagsljóss. Í 20 m djúpum rýmum nægir samt ekki að vera með glugga á sitthvorum enda, sérstaklega ef rýmið er langt og mjótt.
Gluggi fyrir neðan borðhæð skilar ekki nýtanlegu ljósi. Gluggi sem nær niður að gólfi hefur áhrif á upplifun og er tilvalinn fyrir sumarbústað eða húsnæði umlukið náttúru. Einnig getur þetta veitt litlum börnum möguleika á að horfa út um glugga. Að öðru leyti er þessi staðsetning á gleri óþarfa glerflötur.