Marilyn Monroe varð heimsfræg fyrir kvenlegan vöxt sinn á unga aldri og ekki að ósekju, hún trónir enn á toppi listans yfir fegurstu konur heims.
Marilyn Monroe varð heimsfræg fyrir kvenlegan vöxt sinn á unga aldri og ekki að ósekju, hún trónir enn á toppi listans yfir fegurstu konur heims. Mörg leyndarmálin tók hún með í gröfina en þó skjóta öðru hverju upp kollinum viðtalsbrot, þar sem stjarnan ræddi meðal annars æfingaplan sitt og jafnvel mataræði.
Í forvitnilegu viðtali sem hún veitti tímaritinu Pageant Magazine frá árinu 1952, ræddi Marilyn meðal annars eigið mataræði og hvernig hún færi að því að halda línunum í lagi. Þegar viðtalið átti sér stað, var Marilyn einungis 26 ára gömul og bjó á hóteli nokkru í Beverly Hills.
Mataræði Marilyn var annað en ætla mætti og myndi sennilega hæfa kraftlyftingajötni í dag, eða í það minnsta einstakling sem fylgja verður stífum reglum til að viðhalda vöðvamassanum. Það sem Marilyn lagði upp með fyrir ríflega 60 árum síðan og þótti ægiskrýtið í þá daga, nefnist Paleo fæði í dag:
„Ég hef oft fengið að heyra að ég hafi mjög skrýtnar matarvenjur, en sjálfri finnst mér þetta fyllilega eðlilegt. Áður en ég fer í sturtu að morgni, byrja ég á því að hita upp mjólk á hitaplötunni sem ég er með á hótelherberginu. Þegar mjólkin er orðin heit, brýt ég tvö egg ofan í mjólkina, þeyti blönduna með gaffli og drekk allt á meðan ég klæði mig. Þessu hvolfi ég ofan í mig með fjölvítamíntöflu og ég efa að nokkur læknir gæti mælt með heilnæmari morgunverði fyrir vinnandi stúlku sem er á hraðferð.“
„Kvöldverður. Ég borða heima og ég borða mjög einfaldan kvöldverð. Ég kem við í matvöruversluninni sem er rétt við hótelið mitt og kaupi steik, lambakótilettur eða jafnvel lifur, sem ég steiki í rafmagnsofninum á hótelherberginu mínu. Ég borða yfirleitt fjórar eða fimm hráar gulrætur með steikinni; ég hlýt eiginlega að vera hálfgerð kanína því ég fæ aldrei leið á hráum gulrótum.“
„PS: Það er gott, held ég, að ég held í einfalt og fábrotið mataræði yfir daginn, því á undanförnum mánuðum hef ég gert að vana að stoppa við í ísbúð sem heitir Wil Wright’s þar sem ég næli mér í bananasplitt á leiðinni heim af leiklistaræfingum á kvöldin. Ég er alveg viss um að ég gæti ekki leyft mér þennan munað ef ég fylgdi ekki daglegu mataræði sem er svona sneisafullt af próteini.“
Það er svo einmitt málið; Marilyn fylgdi mataræði sem samanstóð af próteinríkum fæðutegundum, grænmeti og ótrúlegt en satt; bananasplitti. Þá er það líka satt sem kynbomban sagði, sennilega hefðu næringarfræðingar nútímans lítt út á fæðuval stjörnunnar að setja enn þann dag í dag.
Varla hefur þó fæðuval Marilyn verið hefðbundið árið 1952, en í þá daga var sterkjan allsráðandi í Ameríku og fita þótti algert eitur. Erfitt er þó að gera sér í hugarlund hvernig heit mjólk og hrá egg fara saman. Þorir einhver að prófa?