Fara í efni

Markmið meistaranna

Það er margt gott við slík átaksverkefni; þau koma fólki af stað, veita stuðning og aðhald og þau setja ramma utan um „verkefnið“
Íslendingar setja sér markmið í gríð og erg
Íslendingar setja sér markmið í gríð og erg

Meistaramánuðurinn er genginn í garð og kappsamir Íslendingar setja sér markmið í gríð og erg enda erum við sem þjóð þekkt fyrir að taka hlutina alla leið!

Það er margt gott við slík átaksverkefni; þau koma fólki af stað, veita stuðning og aðhald og þau setja ramma utan um „verkefnið“, en þessi rammi er í raun tímarammi sem fókusinn má þó ekki snúast of mikið, um en ég kem nánar að því á eftir.

Markmið meistaranna tilvonandi fjalla um allt milli himins og jarðar en snúa helst að heilsu, næringu, hreyfingu og bættum lífstíl almennt en einnig áhugaverð persónulegri markmið sem snúast um að vera til og gefa af sér.

Þegar markmið eru sett þá byggja þau á einhverju sem skipta okkur máli og oft mjög miklu máli. Farsælast er að markmið séu vel skilgreind og að þau séu tímasett með upphaf og endi og mögulega „millitíma“ ef notað er hugtak úr íþróttunum. Settu þér því smærri markmið í áttina að stóra markmiðinu sem þú skalt þó ekki kalla „lokamarkmið“ því það er ávalt hægt að gera aðeins betur.

Ef að markmiðið þitt snýst um að ná að synda 1000m í einni lotu, þá er mikilvægt að byrja ekki í 600m ef þú hefur lítið synt. Byrjaðu smátt og byggðu markvisst ofan á það. Ef að markmiðið er að bæta mataræðið, gerðu það þá í smærri skrefum og taktu eitt fyrir í einu. Dæmi um það gæti verið að borða alltaf morgunverð, að borða fimm sinnum yfir daginn, að verða ekki banhungruð, að drekka vatn á milli mála og að leyfa sér smá munað í mat á laugardagskvöldi.

Gott er að skrifa markmiðin sín niður á blað og jafnvel að deila þeim með einhverjum. Ekki skemmir fyrir að vera með einhverja gulrót, einhver verðlaun, önnur en hrósið sem þú átt að sjálfsögðu skilið. Jákvætt er að verðlaunin séu eitthvað sem skiptir þig máli og jákvæðast af öllu er ef að verðlaunin eru heilsutengd t.d. gott nudd eða dekurdagur.

Að mati höfundar þessa pistils er þó mikilvægast af öllu að halda áfram með markmiðið sitt, hætt ekki bara þegar Meistaramánuðnum líkur heldur að taka markmiðið sitt lengra og bæta þannig sitt líf. Vera þannig einnig góð fyrirmynd og reyna að láta gott af sér leiða með því að sýna og kenna öðrum að allt er hægt ef að viljinn er fyrir hendi.

Gangi ykkur vel, það er gaman að vera meistari og það er frábært fyrir sálina

Fríða Rún Þórðardóttir

Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur