Á kynþroskaaldrinum breytist vöxturinn, brjóstin stækka og hárvöxtur eykst hjá stelpum. Hárvöxturinn verður aðallega undir höndunum og á kynfærum en getur einnig verið á öðrum stöðum s.s. á fótleggjum, efri vör og kjálkum, á baki, innan á lærum og upp á lífbein. Þessi hár eru mjög mismunandi milli kvenna allt frá því að vera ljós og fín upp í að vera gróf og mjög dökk. Það er því mismunandi hve áberandi þau eru.
Yfirleitt eru ljós fínleg hár varla greinanleg en dökk hár geta verið mjög áberandi. Margar konur vilja losna við áberandi hár s.s. undir höndum og á fótleggjum. Þetta er þó mjög mismunandi milli einstaklinga og menningarsamfélaga og ekki er hægt að tala um að eitt sé réttara en annað.
Auglýsingar í fjölmiðlum, sjónvarpsþættir, bíómyndir og fólkið í kringum þig upplýsa þig um hvað hinir gera og auðvelt getur verið að láta glepjast af því. Það virðist t.d. vera orðið algengt að konur losi sig við hár á og í kringum sköpin og vilja ýmsir tengja það við klámiðnaðinn og barnadýrkun (fullorðin kona eins og smástelpa að neðan). Það reynir því mikið á þína þekkingu og skynsemi til að taka ákvörðun um hvað þú vilt gera og hvernig þú vilt vera. Það gæti t.d. verið góð byrjun að spyrja sjálfa sig: ,,Af hverju ætti ég að losa mig við þessi hár?”, ,,Er einhver ástæða til þess?”, ,,Fyrir hvern er ég að gera það?”.-
Af hverju erum við með hár? Ekkert einhlítt svar er við þessari spurningu. Hár líkamans eru mismunandi að gerð og lögun og vitað er að hár minnkar hitatap og einnig eru margir taugaendar við hársekkina sem eykur næmni þessara staða. En hvort þetta séu aðeins leifar frá forfeðrum okkar læt ég ósvarað. Að losna við, það sem sumum finnst vera, óæskileg hár (háreyðing) er ekki nýtt fyrirbrigði og eru ýmsar aðferðir notaðar.
Áður en þú tekur þá ákvörðun að losna við hár skalt þú ráðfæra þig við aðra sem hafa þekkingu á því. Ýmsar aðferðir eru notaðar s.s. rakstur bæði með sköfu og rafmagnsvél,plokkun, heitt eða kalt vax, háreyðingakrem og laser meðferð og fjallað verður gróflega um hverja aðferð fyrir sig. Mismunandi er hvaða aðferð hentar hverri konu og á hverjum stað líkamans því hárrótin er ekki öll eins.
Að öllu jöfnu fylgir mikill kláði þegar hár hafa verið fjarlægð í fyrsta sinn en eftir það er minni eða enginn kláði. Þegar hárin fara að vaxa aftur er alltaf hætta á að þau vaxi inn (inngróin hár) og geta þá valdið sýkingu. Því er mælt með að þvo sér með grófum þvottapoka eða kornsápu til að opna leiðina upp. Öll háreyðing er ertandi fyrir húðina og þarf því að bera vel á húðina rakagefandi/kælandi krem á eftir.
Nú hefur verið rætt um aðferðir við að losn við hár en valið er þitt. Ef þú tekur þá ákvörðun að fjarlægja hár þá þarftu alltaf að hafa í huga að fara varlega t.d. að skera þig ekki, og hreinlætið verður að vera í fyrirrúmi, fara í sturtu, nota hrein áhöld, ný rakvélarblöð o.sv.frv. Lestu líka vel allar leiðbeiningar áður en þú byrjar. Ef þú tekur þá ákvörðun að hafa þín hár losnar þú við alla þessa fyirhöfn og getur verið sátt við þig eins og þú ert.