Áhættan á krabbameini er í réttu hlutfalli við stærð og fjölda sepa. Þess vegna vonumst við til að geta lækkað bæði nýgengi og dánartíðni ristilkrabbameins með skimun.
Sjúkdómurinn er meira í ákveðnum ættum og meðalaldur við greiningu er um 70 ár. Mjög fáir greinast ungir. Ár hvert greinast um 100 manns með ristilkrabbamein og 30-40 með endaþarmskrabbamein.
Tæplega 1.000 manns sem hafa fengið þessi mein eru á lífi hér á landi.
Mikilvægi heimilislæknis í starfinu er ekki hvað síst í forvörnum.
Fræðsluefni Krabbameinsfélagsins um karlmenn og krabbamein lýsir þessu vel. Þar er meðal annars sagt að hægt sé að koma í veg fyrir allt að 30% krabbameina með lífstílsbreytingum. Þar er rætt um t.d. áfengi, sólböð, hreyfingu, mataræði og tóbak. Það má ekki gleyma áhrifum læknis þegar mælst er til breytinga á venjum. Fjölmargar rannsóknir staðfesta það að orð læknis hafa áhrif.
Við heimilislæknar höfum alla möguleika á að koma að gagni í þessari baráttu.
Oft eru það heimilislæknar sem sjá fólk fyrst með þau smávægilegu einkenni sem ristilkrabbamein gefur í byrjun. Alltaf á að leggja áherslu á hvert viðtal eins og það sé eina viðtalið sem við fáum við viðkomandi aðila til að bjarga lífi hans. Þegar okkar skjólstæðingar leita til okkar þá eru þeir yfirleitt með spurningu sem þeir vilja fá svar við, þeir lýsa einhverjum áhyggjum og vilja lausn sinna mála. Oftar en ekki reynir fólk að hafna slíkum neikvæðum hugsunum og frekar telja sér trú um að þetta sé nú ekkert alvarlegt. Það eru því einkennin sem við leitum eftir og leggjum áherslu á ð fylgja eftir.
Forvörn er fyrirhyggja.
Umhverfisáhrif hafa áhrif og ekki má gleyma þeim þætti heimilislæknis að minna fólk á heilbrigða lífshætti. Almennt er talið að hátt hlutfall kjötmetis í fæðu og lágt hlutfall trefja auki líkur á krabbameini í ristli. Margar fæðutegundir eru taldar draga úr líkum á krabbameinsmyndun og almennt má segja að líkamsrækt og rétt fæðuval geri það.
Við vitum líka að vissar breytingar í erfðaefninu auka líkur á krabbameini.
Einkenni krabbameins í ristli eru fjölþætt. Við þurfum að hugsa um ristilkrabbamein við einkenni eins og þreytu, breyttar hægðarvenjur, blóð í hægðum, slím í hægðum, uppþembu, ættarsögu um krabbamein og fleira.
Greining er einföld í flestum tilvikum, speglanirnar eru orðnar mjög áhættulitlar og einfaldari en áður.
Meðferðin sem er að ryðja sér til rúms í dag með einfaldari aðgerðartækni vekur upp hugsanir um það hvort það ýti ekki enn frekar á okkur að greina sjúkdóminn sem fyrst. Krabbamein í ristli er oftast sjúkdómur sem vex hægt og til að byrja með eru einkennin engin.
Á meðan æxlið er lítið er árangur af meðferð betri. Ný tækni með notkun stoðnets, aðgerðar um endaþarm og aðgerðar með speglunartækni gerir þessa lækningu minna mál fyrir okkur. Blæðingar við aðgerðir eru orðið lítið mál og aðgerðir sem áður fyrr voru mjög erfiðar og stórar eru sáralitlar og einfaldar í dag.
Fyrir aðeins nokkrum árum síðan var alltaf gerð opin aðgerð við krabbamein í ristli. Það getur tekið margar vikur að jafna sig eftir slíkar aðgerðir. Núna er jafnvel hægt að gera slíkar aðgerðir í speglun og fólk fer heim samdægurs. Lífi hefur verið bjargað með mjög einfaldri aðgerð. Þegar svo er þá er enn mikilvægara að vera á varðbergi.
Ef við Íslendingar höfum ekki efni á að skima fyrir ristilkrabbameini er ljóst að við verðum að vera mjög vakandi fyrir einkennum sjúkdómsins. Fyrir 20-30 árum síðan var rætt um skimun við magakrabba en breyting í tíðni þessara sjúkdóma gefur tilefni til að hugsa meira um vágestinn neðar í meltingarveginum.
Nú greinum við á á annað hundrað manns árlega með krabbamein í ristli og endaþarmi. Miðað við að sjúkdómurinn er mörg ár að þróast er ljóst að á Íslandi eru mörg hundruð Íslendingar með þennan sjúkdóm en vita ekki af honum.
Verum því á varðbergi við ofantalin einkenni og hvetjum til átaks gegn vágesti þessum!
Óskar Reykdalsson heimilislæknir
Heimildir fengnar af síðu krabbameinsfélagsins.