Fyrsta matreiðslubókin sem kom út á Íslandi árið 1800, Einstakt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur, var að öllum líkindum eftir Magnús Stephensen þótt bókin hafi verið kennd við mágkonu hans Mörtu Maríu Stephensen. Eins og nafnið ber með sér voru uppskriftirnar aðallega sniðnar fyrir þá efnameiri þótt einnig hafi fylgt með einstaka réttir fyrir undirmálsfólk. Það var svo ekki fyrr en um öld seinna sem Elín Briem sendi frá sér Kvennafræðarannsem segja má að sé fyrsta alvöruritið um matreiðslu og heimilisfræði hér á landi.
Bæði þessi verk og önnur sem fylgdu í kjölfarið eiga það sammerkt að gefa mikilvæga innsýn í heimilishald fyrri tíma. Ber þá fyrst að nefna grundvallarskipulagið sem byggðist á því að hugsa á heilsársgrundvelli í stað þess sem tíðkast núna, þegar hægt er að ákveða hvað á að hafa í matinn með korters fyrirvara. Báðar ofangreindar bækur hefjast á útlistun þess hvernig eigi að bera sig að við slátrun. Sumarið var tími aðfanga og á haustin var gengið þannig frá matvælum að þau gætu enst það lengi að enginn sylti. Bók Helgu Sigurðardóttur Lærið að matbúa, sem var lengi vel aðalkennsluefni í matreiðslu í íslenskum skólum, svipar mjög til Kvennafræðara Elínar Briem. Íslenskt heimilishald hefur því mótast af þessum fræðum og helstu boðberar þeirra hafa jafnframt verið íslenskar húsmæður.
Allt þar til snemma á áttunda áratugnum voru íslenskar konur að mestu heimavinnandi húsmæður. Þeir sem eru komnir um og yfir miðjan aldur muna vel að á flestum heimilum var skikk á máltíðum og ekki sjálfsagt að geta gengið að millimálum eftir geðþótta. Ungmenni höfðu heldur ekki almennt mikil auraráð, auk þess sem ekki var um auðugan garð að gresja í skyndibitasölu. Fyndi maður smá garnagaul var einfaldlega beðið eftir drekkutíma eða kvöldmat. Fólk heyrði fyrst talað um pizzur og aðra framandi skyndirétti í Kanasjónvarpinu en fæstir höfðu smakkað þetta fínerí.
Þótt húsmæður væru ekki algerlega háðar því að koma sér upp ársbirgðum matar á þessum tíma og gætu skotist út í fisk-, kjöt-, eða mjólkurbúð eftir þörfum, var ennþá við lýði skipulag á heimilishaldi sem byggðist á langtímahugsun í stað skyndilausna. Það var tekið slátur á haustin, farið í berjamó, sultað og súrsað, þurrkað, fryst og hert, allt í því skyni að hugsa fram í tímann og tryggja manneldið. Fiskur var í flest mál, lambakjöt um helgar, grautar eða súpur í eftirmat og lummur gerðar úr afgangsgraut.
Þegar konur fóru að vinna launuð verk samhliða heimilisstörfum breyttist eðlilega tilhögun mála. Skyndilega var enginn heima á daginn í húsunum. Hádegismatur hætti að vera framreiddur hvunndags, drekkutíminn hvarf inn í leikskólana og á kvöldin var hálfpartinn reiknað með að fólk hefði borðað eitthvað bitastætt um hádegið á vinnustað eða í leikskólanum. Í grunn- og framhaldsskólum virtist fólk á hinn bógin reikna með að börnin og unglingarnir nærðust heima, því að ekki hefur það verið almenn regla í gegnum tíðina að bjóða upp á máltíðir í þessum skólum landsins.
Samfélagsbreytingarnar sem urðu í kjölfar aukinnar þátttöku kvenna á almennum vinnumarkaði voru sannarlega víðtækar. Áður fyrr höfðu konur verið „bara“ húsmæður, gæsalappirnar settar upp á punt því að fæstir, sem ekki unnu við þau störf, gerðu sér minnstu grein fyrir því hvað fólst í verkum þeirra. Maturinn kom á matmálstímum, óhrein föt breyttust í hrein og straujuð og híbýlin héldust einhverra hluta vegna í þokkalegu ástandi. Ekki var gefinn neinn sérstakur gaumur að því góða skipulagi og miklu vinnu sem fram fór á heimilunum og þegar þær forsendur brustu var ekki til neitt B-plan.
Það fór að bera á tímaskorti um þetta leyti, allir að flýta sér og sérstaklega konur sem reyndu eftir megni að halda uppi einhverjum heimilisbrag samhliða annarri vinnu. Fjárhagur heimilanna vænkaðist þegar konur fóru að fá laun fyrir verk sín, þótt ekki hafi verið gerð þjóðhagsleg úttekt á þeim veruleika þar sem engin viðmið voru til. Verk kvenna inni á heimilunum þóttu aldrei þess eðlis að vert væri að meta þau til fjár.
Þegar máltíðirnar urðu stopulli inni á heimilunum myndaðist eftirspurn sem markaðurinn svaraði með sívaxandi framboði af skyndibitum og fljótlegum réttum.
Höfundur greinar: Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi pistlahöfundur og líkamsræktarkennari .