Og þótt ég hafi kannski eitthvað aðeins skánað í gegnum tíðina, þá virðist þetta samt vera eitthvað sem ég á voðalega erfitt með að eiga við.
En það er ekki eins og ég ætli mér að vera sein. Auðvitað ekki!
Ég er svo virkilega og innilega að hamast við að vera á réttum tíma – eða svona oftast alla vega. Að sjálfsögðu finnst mér ekkert gaman að láta aðra bíða eftir mér. Mér finnst það alveg hundfúlt! En það virðist samt alltaf (eða ansi oft) enda þannig að einhver þarf að bíða eftir mér. Nú eða þá að ég kem hlaupandi alveg á síðustu stundu.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað sé eiginlega að mér. Og af hverju ég sé svona oft of sein og á síðustu stundu. Er það af því ég er svo mikill trassi? Ég held ekki!
Ber ég kannski svona litla virðingu fyrir tíma annarra? Nei, alls ekki.
Eða er ég bara svona svakalega óskipulögð? Ja, ekki samkvæmt þeim sem þekkja mig því mörgum þykir ég of skipulögð.
Svo hvað er þá málið?
Þar sem mér þykir þetta miklu leiðinlegra en margir halda þá finnst mér ég hafa himinn höndum að sjá niðurstöður rannsóknar sem útskýrir hvers vegna sumir eru alltaf of seinir. Ó JÁ! Það er sko skýring á þessu – og ég verð nú bara að segja að ég er algjörlega sátt við hana.
Málið er að ég er bara svona rosalega bjartsýn. Þar hafið þið það elskurnar mínar sem hafið þurft að bíða eftir mér í gegnum árin. Ég læt sem sagt stjórnast af bjartsýninni og hún setur tímaskynið alveg úr skorðum. Yndisleg útskýring, ekki satt
En til að útskýra þetta nánar svo allir þeir sem hafa sýnt mér ótrúlega biðlund í mörg, mörg ár, skilji um hvað þetta snýst. Það er víst þannig að þessir bjartsýnu einstaklingar sem alltaf eru seinir trúa því svo innilega að þeir nái að gera miklu meira á ákveðnum tíma en raunin er.
Hér ríkir sem sagt óeðlileg bjartsýni. Og já, ÉG ER SEK! Þetta gerir þessa einstaklinga um leið óraunsæja og lélega í því að áætla og reikna út tíma.
Vissulega getur verið ansi slæmt að vera óraunsær en engu að síður þá vil ég trúa því að kostirnir séu fleiri en gallarnir við það að vera fram úr hófi bjartsýnn. Því sannað þykir að með bjartsýni aukist heilsufarslegir þættir til hins betra. Bjartsýni er talin draga úr stressi, minnka líkur á hjartasjúkdómum og styrkja ónæmiskerfið.
Og ekki má svo gleyma því að allar rannsóknir sýna að bjartsýni og hamingja geta lengt lífið. Þá skiptir hún líka miklu máli til þess að ná árangri í lífinu og til að auka afköst. . . LESA MEIRA